Thompson-Herah sló 33 ára gamalt ólympíumet

Jamaíkakonur hirtu öll verðlaunasætin í 100 metra spretthlaupi kvenna á …
Jamaíkakonur hirtu öll verðlaunasætin í 100 metra spretthlaupi kvenna á Ólympíuleikunum, þar sem Elaine Thompson-Herah sló áratuga gamalt ólympíumet. AFP

Jamaíkakonan Elaine Thompson-Herah er ólympíumeistari í 100 metra hlaupi kvenna eftir að hafa hlaupið á 10,61 sekúndu í úrslitunum á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

Hún sló þar með ólympíumet Bandaríkjakonunnar Florence Griffith Joyner, 10,62 sekúndur, sem hafði staðið frá því að hún setti það á Ólympíuleikunum í Seúl í Suður-Kóreu sumarið 1988.

Magnaður árangur hjá hinni 29 ára gömlu Thompson-Herah sem þar með varði ólympíutitilinn í greininni en hún sigraði bæði í 100 og 200 metra hlaupi kvenna á leikunum í Ríó árið 2016.

Þannig vildi til að Jamaíkakonur röðuðu sér í öll efstu þrjú sætin, en Shelly-Ann Fraser-Pryce tók silfrið á 10,74 sekúndum og Shericka Jackson nældi í bronsverðlaunin á 10,76 sekúndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert