Gong fyrst Asíukvenna til að vinna gull

Gong Lijao náði glæsilegu kasti og tryggði sér Ólympíugull.
Gong Lijao náði glæsilegu kasti og tryggði sér Ólympíugull. AFP

Gong Lijao tryggði sér ólympíugull í kúluvarpi kvenna í nótt þegar hún náði sínu besta kasti á ferlinum í úrslitum greinarinnar á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Hún varð þar með fyrst kvenna frá Asíu til þess að vinna gull í kúluvarpi á leikunum.

Gong kastaði kúlunni 20,58 metra og skákaði hinni bandarísku Raven Saunders, sem kastaði 19,79 metra og tryggði sér silfur, og hinni áströlsku Valerie Adams, sem kastaði 19,62 metra og nældi sér í brons.

Gong, sem er 32 ára gömul, hefur vaxið ásmegin undanfarin ár eftir að hafa unnið til bronsverðlauna á leikunum í Lundúnum árið 2012 og silfurverðlauna á leikunum í Ríó de Janeiro í Brasilíu árið 2016.

Í bæði skiptin höfðu rússneskir keppendur, Nasteya Ostapchuk árið 2012 og Yevgeniya Kolodko árið 2016, unnið til þeirra verðlauna sem Gong vann svo til, en þær rússnesku féllu báðar á lyfjaprófi og verðlaunapeningarnir því dæmdir af þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert