Svíar unnu Dani í lokaleik riðilsins

Hart barist í leik Svía og Dana í dag.
Hart barist í leik Svía og Dana í dag. AFP

Svíþjóð vann sterkan 33:30 sigur á heimsmeisturum Danmerkur í síðasta leik B-riðilsins í handknattleik karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

Sigurinn hjá Svíþjóð hefði þurft að vera stærri, með sex mörkum, hefði liðinu átt að auðnast að hrifsa toppsætið af Danmörku en það hafðist ekki.

Svíar höfðu yfirhöndina allan leikinn í grannaslagnum og komust mest í sex marka forystu í fyrri hálfleiknum en þriggja marka sigur reyndist niðurstaðan.

Markahæstir í liði Svía voru Jonathan Carlsbogård og Lukas Sandell, með sex mörk hvor. Jóhan Hansen, sem er hálfur Færeyingur, var markahæstur Dana, einnig með sex mörk.

Svíar enda því í þriðja sæti B-riðils, með 8 stig líkt og Egyptaland í öðru sætinu og Danmörk í efsta sæti, en slakasta árangurinn í innbyrðis viðureignum liðanna þriggja.

Í fjórðungsúrslitum mæta Svíar því Spáni á meðan Danir fá annan grannaslag, að þessu sinni gegn Noregi. Báðar viðureignirnar munu fara fram þriðjudaginn 3. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert