Bandaríkin nældu í brons í sjö marka leik

Bandaríkjakonur fagna fyrra marki Megan Rapinoe í morgun.
Bandaríkjakonur fagna fyrra marki Megan Rapinoe í morgun. AFP

Bandaríska kvennalandsliðið í knattspyrnu hafði betur gegn því ástralska í leik liðanna um bronsverðlaunin á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun. 4:3 urðu lokatölur í stórskemmtilegum fótboltaleik.

Vængmaðurinn þaulreyndi, Megan Rapinoe, fór fyrir bandaríska liðinu og kom því í forystu strax á áttundu mínútu leiksins.

Markahrókurinn Sam Kerr jafnaði metin fyrir Ástralíu skömmu síðar, á 17. mínútu, áður en Rapinoe skoraði aftur aðeins fjórum mínútum síðar.

Annar reynslubolti, Carli Lloyd skoraði svo þriðja mark Bandaríkjakvenna í uppbótartíma fyrri hálfleiks og staðan því 3:1 í leikhléi eftir frábæran fyrri hálfleik.

Lloyd skoraði sitt annað mark snemma í síðari hálfleik, á 51. mínútu og aðeins þremur mínútum síðar minnkaði Caitlin Foord muninn fyrir Ástralíu.

Staðan orðin 4:2 eftir aðeins 54 mínútur.

Ástralir náðu svo að skora sárabótarmark í uppbótartíma venjulegs leiktíma þegar Emily Gielnik komst á blað.

Markið kom hins vegar of seint og sigur Bandaríkjanna því staðreynd sem þýðir að bronsverðlaunin falla þeim í skaut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert