„Ég fékk Covid en ég er betri núna, er bara með smá kvef,“ sagði sundkonan Sonja Sigurðardóttir, sem tekur þátt á sínum þriðju Paralympics-leikum eftir helgi í París.
Sonja greindist með kórónuveiruna í vikunni og gat af þeim sökum ekki verið fánaberi Íslands við setningarathöfn Paralympics-leikanna á miðvikudag eins og upphaflega stóð til.
Kúluvarparinn Ingeborg Eide Garðarsdóttir, sem keppir á sínum fyrstu leikum klukkan 17 í dag, hljóp í skarðið og var fánaberi ásamt sundmanninum Má Gunnarssyni.
Er mbl.is ræddi við Sonju í ólympíuþorpinu í Saint-Denis í gær kvaðst hún betri með hverjum deginum og hyggist keppa eftir helgi.
„Já, já. Fyrstu dagana eftir að ég greindist var ég með grímu. Þá fannst mér ég verða meira veik, með grímuna. Gríman frá þeim var eins og ég væri með tepoka á andlitinu!“ sagði Sonja í léttum dúr og fannst gríman augljóslega ekki líta vel út.
Bætti hún því við á alvarlegri nótum að gríman hafi valdið því að Sonja ætti erfiðara með að anda. Spurð hvort hún þyrfti að vera áfram með grímuna sagði Sonja fegin:
„Nei, ég held að ég sé bara laus við hana.“
Hún kvaðst vera farin að hlakka til að keppa eftir helgi. Fyrst keppir Sonja í 50 metra baksundi í S3-flokki hreyfihamlaðra á mánudagsmorgun. Þar eru markmiðin skýr.
„Það er bara topp átta, komast í úrslit. Það er raunhæft markmið ef að heilsan leyfir,“ sagði Sonja en ítrekaði að henni þætti sem hún væri betri með hverjum deginum.
Læturðu þig dreyma um að komast á verðlaunapall?
„Ég veit það ekki. Ég á svolítið langt í land held ég,“ sagði hógvær Sonja að lokum.
Á þriðjudagsmorgun keppir hún svo í 100 metra skriðsundi.