Marta María efst íslensku stúlknanna

Marta María Jóhannsdóttir var í 4. sæti í flokknum junior …
Marta María Jóhannsdóttir var í 4. sæti í flokknum junior ladies í listskautakeppni Reykjavíkurleikanna um helgina. ÍBR/Ólafur Þórisson

Listskautakeppni Reykjavíkurleikanna fór fram í Skautahöllinni í Laugardal um helgina. Alls tóku 80 skautarar þátt í mótinu þar af um helmingur erlendur. Í fullorðinsflokki kvenna (senior ladies) sigraði Marianne Stålen frá Noregi og í fullorðinsflokki karla (senior men) Nikolaj Mølgaard Pedersen frá Danmörku.

Mikil eftirvænting var eftir keppni í junior ladies (unglingaflokki kvenna) þar sem fjölmargar íslenskar stúlkur tóku þátt. Um það bil eitt stig skildi að keppendur í þriðja til sjöunda sæti og keppendur í áttunda til ellefta sæti voru ekki langt undan eftir fyrri daginn. 

Tvær íslenskar stúlkur sem hafa verið atkvæðamiklar í íslensku skautalífi í vetur, Aldís Kara Bergsdóttir og Marta María Jóhannsdóttir, voru á meðal stigahæstu keppenda eftir fyrri daginn og skautuðu því í síðasta hópi dagsins.

Marta María sem var fjórða eftir stutta prógrammið kýldi á öll element í sínu frjálsa prógrami og var með alla spinna á stigi 4, spor á stigi 3 og tvo tvöfalda Axela og eitt þrefalt Salchow. Eitt fall og minni háttar mistök skiluðu henni 74,53 stigum og 4. sæti á mótinu.

Mátti heyra saumnál detta þegar Aldís Kara skautaði á upphafsstað. Aldís var búin að ná lágmörkum inn á heimsmeistarmót unglinga í stutta prógramminu í gær en þurfti að gera slíkt hið sama í frjálsa prógramminu í dag til að tryggja sér miðann á mótið. Taugarnar voru þandar til hins ýtrasta og náðu svolítið tökum á henni og erfiðu stökkin létu á sér standa. Hins vegar voru allir spinnar og spor á stigi 3 og 4. Þegar stigin komu var ljóst að ekki hafði gengið að ná í lágmörkin að þessu sinni en fékk hún 66,29.stig fyrir frjálsa prógrammið og endaði í 5. sæti.

Frábær árangur hjá íslensku stúlkunum þótt greinilegt væri að þær hefðu metnað til að gera enn betur. Sigurvegari í flokknum var Marija Bolsheva frá Lettlandi.

Nánari úrslit listskautakeppni Reykjavíkurleikanna má finna á iceskate.is.

Verðlaunahafar í unglinga- og fullorðinsflokkum í listskautakeppni Reykjavíkurleikanna.
Verðlaunahafar í unglinga- og fullorðinsflokkum í listskautakeppni Reykjavíkurleikanna. ÍSS/Þóra Gunnarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert