Sjö greinar á dagskrá Reykjavíkurleika í dag

Keppni í karate á Reykjavíkurleikunum fer fram í Laugardalshöll.
Keppni í karate á Reykjavíkurleikunum fer fram í Laugardalshöll. ÍBR/Kjartan Einarsson

Í dag verður keppt í sjö íþróttagreinum á Reykjavíkurleikunum. Í kvöld verður svo blásið til veislu í Laugardalshöll þar sem besta íþróttafólkið í þeim íþróttagreinum sem keppt var í um helgina fær verðlaun.

Eftirfarandi eru helstu upplýsingar um þær greinar sem eru á dagskrá í dag.


Badminton

Þrjú íslensk pör eru komin í undanúrslit í badmintonkeppni Reykjavíkurleikanna, RSL Iceland International. Undanúrslitin hefjast klukkan 9:00 í TBR-húsunum í dag og er áætlað að þeim ljúki um klukkan 13. Úrslitaleikirnir hefjast svo klukkan 15:30. Hér á tournamentsoftware.com má fylgjast með úrslitum dagins og hér á Youtube-rás Badmintonsambandins verður sýnt beint frá mótinu.


Ólympískar lyftingar

Keppni í ólympískum lyftingum fer fram í Laugardalshöll í dag og hefst klukkan 14:00. Áætlað er að keppni standi yfir til klukkan 18. Hér á vef Lyftingasambands Íslands má finna lista yfir keppendur og hér á Facebook kynningu á þeim.


Karate

Karatekeppnin fer fram í Laugardalshöll klukkan 9-17. Um 80 Íslendingar og átta erlendir keppendur frá fimm löndum taka þátt. Þar á meðal Sonia Ventura García frá Spáni sem hefur hampað Evrópumeistaratitlum í unglingaflokkum í kata. Sýnt verður beint frá keppni í karate á RÚV kl.13:50-14:50. Hér má finna lista yfir keppendur, niðurröðun o.þ.h. 


Kraftlyftingar

Kraftlyftingakeppni Reykjavíkurleikanna fer fram í Laugardalshöll í dag klukkan 10:00-14:00. Á meðal keppenda er ríkjandi heimsmeistari kvenna í -72 kg flokki og Evrópumeistari karla í +120 kg flokki. Hér á Facebook má finna góða kynningu á öllum keppendum og hér á Youtube verður hægt að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu. 


Listskautar
 

Mikið var um glæsileg tilþrif í listskautakeppni Reykjavíkurleikanna í gær. Keppni í dag hefst klukkan 11:00 í Skautahöllinni í Laugardal og stendur yfir til klukkan 15:30. Á iceskate.is má finna nánari dagskrá, keppendalista og streymi.


Pílukast

Pílukast er ný grein á Reykjavíkurleikunum í ár en keppnin fer fram á Tangarhöfða 2. Í dag verða spilaðir undanúrslita- og úrslitaleikir. Einn leikur í einu í beinni útsendingu á Youtube-rás Live Darts Iceland. Undanúrslit í kvennaflokki verða kl.14 og 15 og undanúrslit í karlaflokki kl.16 og 17. Úrslitaleikurinn hjá konunum verður svo klukkan 18 og hjá körlunum 19:30. Hér má finna lista yfir skráða keppendur.


Sund

Um 300 keppendur taka þátt í sundkeppni Reykjavíkurleikanna í Laugardalslaug um helgina, þar af rúmlega 100 erlendir. Í dag verða syntar undanrásir klukkan 9:15-12 og síðan úrslitasund klukkan 15:00-16:15. Hér má finna lifandi úrslit, keppendalista og streymi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert