ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2020.
1 Samherji hf.
Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 1
Aðsetur Akureyri
Landshluti Norðurland eystra
Atvinnugrein - meginfl. Fjármála- og vátryggingastarfsemi
Atvinnugrein - ítarfl. Starfsemi eignarhaldsfélaga
Framkvæmdastjóri Þorsteinn Már Baldvinsson
Eignir 79.363.483
Skuldir 30.182.694
Eigið fé 49.180.789
Eiginfjárhlutfall 61,97%
Á listanum öll ár? Nei
Fyrri ár á listanum 2012–2017
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Mikilvægt að hafa sem mesta vissu um rekstrarumhverfið

„Sjávarútvegur er alþjóðlegur og hindranir því margvíslegar, svo sem hörð …
„Sjávarútvegur er alþjóðlegur og hindranir því margvíslegar, svo sem hörð samkeppni, mismunandi rekstrarumhverfi milli þjóða og kröfuharðir viðskiptavinir. Því skiptir máli að vera á tánum því annars er auðvelt að glata því forskoti sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa haft," segir Þorsteinn Már Baldvinsson. Ljósmynd/Þórhallur Jónsson

Það er fyrst og fremst samstillt, framsýnt og öflugt starfsfólk til sjós og lands, hérlendis sem erlendis, sem skiptir máli, segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, en Samherji hefur undanfarin ár verið í efstu sætum lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki.
Mikilvæg tímamót urðu í rekstri Samherja á síðasta ári þegar fyrirtækinu var skipt í tvennt.

Samherji hf. heldur áfram utan um starfsemina á Íslandi en félagið Samherji Holding ehf. myndar regnhlíf yfir félög Samherja erlendis. Þorsteinn segir þessa skiptingu vera niðurstöðu vandlegrar greiningar á starfseminni og að ýmsir kostir fylgi því að draga skýra línu á milli umsvifa Samherja innanlands og erlendis. Verður félagið um íslenska reksturinn gert upp í krónum, en það erlenda í evrum.

Þurfa víðan sjóndeildarhring

Þorsteinn Már segir að umræðan um íslenskan sjávarútveg sé smám saman að verða jákvæðari, samhliða því að skilningur á mikilvægi sjávarútvegsins fari vaxandi. „Fólk er að átta sig á því að það hafa orðið gagngerar breytingar til hins betra sem hafa gert okkur fært að byggja upp geysilega öflugan útveg. Nú er nauðsynlegt að umgjörðin og umtalið fylgi þeirri þróun þannig að greinin geti haft víðan sjóndeildarhring og geti gert langtímaáætlanir.

Útgerð og fiskvinnsla eru í eðli sínu háð nægilegri óvissu, veðri og vindum, vexti og viðgangi fiskistofna, olíuverði, markaðsaðstæðum um allan heim og ýmsum öðrum utanaðkomandi atburðum. Því er mikilvægt að það sé á vísan að róa hvað varðar rekstrarumhverfið eins og því er sniðinn stakkur af hálfu stjórnvalda,“ segir hann.

„Sjávarútvegur er alþjóðlegur og hindranir því margvíslegar, svo sem hörð samkeppni, mismunandi rekstrarumhverfi milli þjóða og kröfuharðir viðskiptavinir. Því skiptir máli að vera á tánum því annars er auðvelt að glata því forskoti sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa haft.“

Ný skip og ný tækni

Ágætur rekstur hefur skapað nokkurt svigrúm til fjárfestinga í greininni og tekist hefur að endurnýja hluta af fiskiskipaflotanum. „Undanfarin ár hefur Samherji lagt mikið upp úr því að byggja innviði. Höfum við byggt ný skip í samvinnu við leiðandi tæknifyrirtæki á markaði, sem flest hver eru íslensk. Þessi nána samvinna íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og tæknifyrirtækja hefur skilað því að tækni í sjávarútvegi hefur fleygt fram sem aftur skilar sér í aukinni hagkvæmni, betri nýtingu og meðhöndlun hráefnisins. Ný tækni býður upp á nýjar lausnir fyrir neytendur og þannig má mæta auknum kröfum þeirra. Þá höfum við líka lagt mikla áherslu á orkusparandi lausnir sem jafnframt eru umhverfisvænar. Hefur það sýnt sig undanfarið og var til að mynda nýjasta skipið okkar hér á Íslandi, Björg EA, aflahæst ísfiskskipa í október,“ segir Þorsteinn Már.

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Þá var fyrsta skóflustungan tekin að nýrri hátæknifiskvinnslu Samherja á Dalvík. Segir Þorsteinn Már sjálfvirkni í fiskvinnslu vera að aukast og enn og aftur eigi íslensk tæknifyrirtæki stóran þátt í þeirri þróun. „Það er alveg ljóst í mínum huga að íslenskur sjávarútvegur hefur verið forsendan fyrir vexti þessara tæknifyrirtækja sem hafa nýtt tækifærið og vaxið gríðarlega, hérlendis sem erlendis. Það er ánægjulegt að sjá að margt ungt og vel menntað fólk vinnur í dag með sjávarútveginum í gegnum þessi tæknifyrirtæki. Þeim hefur vaxið fiskur um hrygg og hafa nýtt þá tækni og lausnir sem þróaðar hafa verið í samvinnu við okkur og selja út um allan heim.“

Bæta við sig í Bretlandi

Þorsteinn Már bendir á að til að halda forskotinu í alþjóðlegu samhengi þurfi þróunin að eiga sér stað í allri virðiskeðjunni. Síðastliðið sumar fjárfesti dótturfélag Samherja í Bretlandi í markaðs- og dreifingarfyrirtæki þar í landi til að styrkja stöðu sína á breskum markaði. Fleiri íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa fylgt í kjölfarið og er skemmst að minnast kaupa Útgerðarfélags Reykjavíkur á þriðjungshlut í Solo Seafood sem á hlut í Iceland Seafood.
„Við höfum lengi verið að vinna okkur leið inn á Asíumarkað og seljum þangað einkum eldisafurðir frekar en þorskafurðir,“ segir Þorsteinn Már þegar hann er spurður um vaxtartækifærin á stöðum eins og Kína en segist aftur á móti ekki sjá að tollastríð Kína og Bandaríkjanna muni endilega skapa ný tækifæri fyrir íslenskan fisk á þeim mörkuðum.

Kærkomnasta breytingin fyrir Samherja og íslenskan sjávarútveg væri líklega ef Rússlandsmarkaður opnaðist á ný. Eins og lesendur þekkja hefur ekki mátt selja íslenskan fisk í Rússlandi um nokkurra ára skeið og hefur það valdið greininni töluverðum búsifjum. „Rússland var stóri markaðurinn sem hvarf og í raun hefur ekkert annað komið í staðinn fyrir hann, og ekkert sem mun koma í staðinn fyrir hann.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl