3 | Landsvirkjun |
---|---|
Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 3 |
Aðsetur | Reykjavík |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein - meginfl. | Rafmagns-, gas- og hitaveitur |
Atvinnugrein - ítarfl. | Framleiðsla rafmagns |
Framkvæmdastjóri | Hörður Arnarson |
Eignir | 470.557.453 |
Skuldir | 255.127.298 |
Eigið fé | 215.430.155 |
Eiginfjárhlutfall | 45,78% |
Á listanum öll ár? | Nei |
Fyrri ár á listanum | Engin |
Salan aldrei verið meiri
Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar segir afkomu Landsvirkjunar á síðustu misserum sýna og sanna að fyrirtækið sé þjóðinni ákaflega verðmætt. Hún horfir björtum augum á tækifærin í framtíðinni, sem markast að stórum hluta af fjórðu iðnbyltingunni, nýjum tækifærum og aukinni eftirspurn eftir grænni orku hér heima og erlendis.
Ragna hefur starfað hjá Landsvirkjun frá því í lok árs 2010. Hún var lengi vel eina konan í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. „Ég var voðalega glöð á síðasta ári að fá aðra konu þangað inn, enda hef ég mikla trú á að fjölbreyttur mannauður skili betri árangri.“
Ragna segir rekstur Landsvirkjunar ganga vel og að samkvæmt nýjasta ársreikningi og hálfsársuppgjöri séu 2017 og 2018 metár í rekstri samsteypunnar. „Tekjurnar okkar í fyrra voru um það bil 50 milljarðar og samkvæmt hálfsársuppgjöri á þessu ári eru tekjurnar tæplega 29 milljarðar íslenskra króna. Við erum bæði að selja meira en áður og að setja vinnslumet, en síðan 2014 hafa bæst við þrjár nýjar og öflugar aflstöðvar. Annar þáttur sem hefur áhrif á tekjur fyrirtækisins er álverð, en hluti af verði sem stóriðjan greiðir til okkar er tengdur því.“
Selja langmest til stórnotenda
Það er auðheyrt á Rögnu að hún tengir stóriðjuna tækifærum í landinu. ,,Já ekki spurning. Við seljum í kringum 80% af rafmagni okkar til stórnotenda, en einn fimmti fer á heildsölumarkað, til sölufyrirtækja sem selja orkuna áfram til almennra fyrirtækja og heimila.
Stórnotendur eru skilgreindir þannig að þeir nota yfir 10 megavött af rafmagni. Við gerum samninga við þá til lengri tíma og það færir Landsvirkjun ákveðinn stöðugleika og hagkvæmni.“
Ragna segir að þessir stærri samningar hafi gert Landsvirkjun kleift að standa undir viðamiklum fjárfestingum með sjóðstreymi fyrirtækisins og um leið borga niður skuldir svo um muni. Eins bendir hún á þá staðreynd að á bak við veltutölurnar séu færri stöðugildi en marga gruni, enda sé orkugeirinn almennt ekki mannaflsfrekur. „Fyrir samsteypuna í heild, sem telur með dótturfyrirtækið Landsnet, starfa í kringum 460 manns. Ég lýsi starfinu sem við erum að fást við sem ákaflega lifandi og skemmtilegu. Þetta er tæknilegur geiri og við erum að fást við mörg flókin málefni. „Lyfturæðan“ okkar, sem við notum til að lýsa því hvað við gerum í sem stystu máli, er aldrei undir 15 mínútum. Það er okkur starfsmönnum fyrirtækisins alltaf ofarlega í huga að við förum með mikil verðmæti og hagsmuni fyrir land og þjóð. Við getum aldrei farið í eitthvert verkefni bara af því okkur finnst það góð hugmynd. Við viljum og eigum að eiga samtal og ráðfæra okkur við almenning og hagsmunaaðila, enda er græn orka ákaflega dýrmæt auðlind sem flestir ættu að hafa skoðun á.“
Áhugaverðar samfélagslegar lausnir
Hvað ber framtíðin í skauti sér? Ætlið þið að setja athyglina í auknum mæli á heildsölumarkaðinn?
„Við höfum verið að halda áfram að gera góða samninga við okkar öflugu viðskiptavini og einnig gróskumiklar atvinnugreinar á borð við gagnaver og skoða tækifæri við fjölnýtingu jarðvarma svo dæmi séu tekin. Þetta eru smærri aðilar á markaði. Við getum tekið dæmi af líftækninni. Þar er oft um að ræða fyrirtæki sem veita áhugaverðar samfélagslegar lausnir. Þar vinna hámenntaðir tæknisérfræðingar og geirinn vill græna orku til framleiðslu á sínum vörum.
Fyrirtæki úr öllum þessum greinum sem ég nefndi eru áhugaverðir viðskiptavinir að okkar mati. Oftast þurfa þau minni raforku til skemmri tíma en stóriðjan og passa því vel inn í viðskiptavinaflóruna okkar, enda viljum við að sjálfsögðu hafa hana fjölbreytta.“
Að mati Rögnu er fjórða iðnbyltingin margumtalaða eitt af því sem gerir stöðu Landsvirkjunar og annarra grænna orkufyrirtækja spennandi og eftirsóknarverða. „Endurnýjanlega orkan okkar hefur aldrei verið vinsælli og svo vill svo skemmtilega til að það gerist á sama tíma og tæknibreytingar í heiminum eru örari en nokkru sinni áður. Þetta birtist í rekstrinum okkar, sem ég minntist á áðan, þar sem tekjur eru meiri en áður og allar aflstöðvar keyrðar á hámarksafköstum. En við erum reyndar eldri en tvævetur í þessum bransa og gerum okkur grein fyrir því að hlutirnir geta breyst með skömmum fyrirvara. Landsvirkjun er heldur ekki eyland og þarf að eiga gott samstarf við fleiri aðila á markaðinum.“
Þarf samvinnu fjölmargra aðila
Ragna segir Landsvirkjun ekki anna eftirspurn eftir grænni orku á Íslandi í dag. „Við höfum þurft að vísa mörgum áhugasömum viðskiptatækifærum frá okkur. Þegar fyrirtæki koma til landsins og eru að skoða að setja upp fastar starfsstöðvar í landinu þarf samvinnu fjölmargra aðila; ríkisstjórnar, sveitarfélaga, Íslandsstofu og fleiri. Fyrirtækið þarf tilskilin leyfi, það þarf að hafa samkeppnishæft umhverfi, það þarf að fá starfsfólk með réttu þekkinguna og svo mætti áfram telja. Skýr orkustefna fyrir þjóðina alla skiptir þess vegna lykilatriði fyrir okkur eins og aðra. Ef við viljum gera Ísland að góðum stað fyrir öflugt atvinnulíf og fjölbreyttan iðnað, líftækni, matvælaframleiðendur eða önnur hátæknifyrirtæki, þá verðum við að skoða hvað þessi fyrirtæki þurfa og hverju þau skila til samfélagsins.“
Ragna segist mjög fylgjandi þeirri stefnu að ná til landsins fleiri hátæknifyrirtækjum. Það fjölgi hálaunastörfum í landinu og hafi margföldunaráhrif á allt samfélagið. „Landsvirkjun er þátttakandi í hröðlum, þar sem hugmyndir eru þróaðar áfram, og er þannig öflugur samstarfsaðili í nýsköpunarstarfi í landinu,“ segir hún.
Vilja ungt fólk og sérstaklega konur
Þá segir Ragna að Landsvirkjun sé meðvitað stöðugt að reyna að finna leiðir til að laða til sín ungt fólk og þá sérstaklega konur. „Við viljum verða vinnustaður framtíðarinnar, en ef það á að gerast þarf margt að breytast. Ég starfa í mjög karllægum geira þar sem mikið er lagt upp úr því að koma tæknilegum upplýsingum rétt á framfæri. Þetta þýðir ekki endilega að almenningur skilji hvað við erum að gera. Gildran sem við föllum oft í er að við komum ekki upplýsingum áfram svo almenningur geti tekið þátt í samtalinu með okkur. Efnahagslegur ávinningur af því að komast í umræðuna á uppbyggilegan hátt er að mínu mati mikill. Umræðan um orkugeirann þarf að bera þess merki að konur, ungt fólk og aðilar með verðmæta þekkingu komi inn í samtalið og geri það dýpra, skemmtilegra og blómlegra fyrir alla.“
Að lokum segir Ragna að hún sé endalaust að læra sjálf; endurmeta þekkingu sína og læra nýja hluti. „Ég skipti algerlega um vettvang þegar ég byrjaði í þessum geira og þurfti að læra mjög margt. Það átti heldur betur við mig því ég þrífst á áskorunum. Ég reyni að velja í kringum mig fólk sem veitir mér innblástur og nýt þess að læra af fólki á öllum aldri.“