80 | Logos slf. |
---|---|
Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 76 |
Aðsetur | Reykjavík |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein - meginfl. | Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi |
Atvinnugrein - ítarfl. | Lögfræðiþjónusta |
Framkvæmdastjóri | Helga Melkorka Óttarsdóttir |
Eignir | 1.013.210 |
Skuldir | 460.146 |
Eigið fé | 553.064 |
Eiginfjárhlutfall | 54,59% |
Á listanum öll ár? | Nei |
Fyrri ár á listanum | 2016–2017 |
Stærðin býður upp á meiri sérhæfingu
Sumir óttuðust að með auknu framboði á laganámi við íslenska háskóla yrði offramboð á lögfræðingum svo að stéttin myndi missa spón úr aski sínum. „Það er alveg rétt að það útskrifast þó nokkuð margir lögfræðingar árlega þegar fagið er kennt við fjóra háskóla hér á landi en á móti kemur að markaðurinn virðist hafa kallað eftir fleiri lögfræðingum enda þróunin í þá átt að regluverkið verði flóknara og meira eftirlit á mörgum sviðum,“ segir Helga Melkorka Óttarsdóttir.
„Þar með er ekki sagt að samkeppnin hafi ekki aukist um leið, en þar njótum við á LOGOS góðs af stærðinni og hafa lögfræðingar okkar tækfæri til að sérhæfa sig á tilteknum sviðum sem leiðir til breiðari og dýpri þekkingar á ákveðnum sérsviðum. Í þessu felst sérstaða okkar að miklu leyti en stærðin gerir okkur einnig fært að takast á við stór og flókin verkefni með skömmum fyrirvara. Þá höfum við greiðan aðgang að enskum lögmönnum í dótturfélagi okkar í London þegar verkefni varða ensk lög eða kalla á sérþekkingu þeirra sem starfa í London.“
Valinn maður í hverju rúmi
Helga er framkvæmdastjóri LOGOS, lögmaður og í eigendahópi stofunnar. Hún segir rætur LOGOS ná allt aftur til upphafs síðustu aldar. „Nafnið LOGOS varð til árið 2000 við sameiningu tveggja málflutningsstofa en hægt er að rekja upphaf stofunnar til ársins 1907 þegar Sveinn Björnsson, sem síðar varð fyrsti forseti Íslands, stofnaði eigin lögmannsstofu.“
LOGOS komst fyrst á lista Creditinfo árið 2016 en Helga bendir á að stofan hafi uppfyllt öll rekstrarskilyrði lengur en það, og ekki komist í hóp Framúrskarandi fyrirtækja fyrr en byrjað var að taka inn fleiri félagaform. „Það þarf að vinna hörðum höndum fyrir viðurkenningu sem þessari. Gengið hefur mjög vel frá stofnun stofunnar og skýrist það ekki síst af því að valinn maður er í hverju rúmi; hér starfar öflugur hópur einstaklinga sem leggja sig alla fram – seint og snemma – við að sinna fyrir viðskiptavini öllum þeim verkefnum sem upp koma.“
Þá hafa ýmsir atburðir í samfélaginu orðið til þess að starfsfólk LOGOS hefur haft í nógu að snúast og jafnt í uppsveiflu sem niðursveiflu er þörf fyrir flinka lögfræðinga. „Fram að hruni var mikið um kaup og sölur og stór verkefni þeim tengd. Eftir 2008 fór töluverð vinna í úrlausn ágreiningsefna og endurskipulagningu í kjölfar gjaldþrota bankanna og stórra fyrirtækja. Einnig þurfti að aðstoða í málum tengdum gjaldeyrishöftunum, og núna allra síðustu árin erum við farin að sjá aftur meiri þörf fyrir aðstoð við samningagerð, kaup og sölur fyrirtækja, fjármögnun og þess konar verkefni.“
Tæknin breytir starfinu
Hjá LOGOS starfa hátt í 75 manns, þar af um 50 lögfræðingar á Íslandi og 10 til viðbótar hjá dótturfélagi LOGOS í London. LOGOS opnaði þar skrifstofu í árslok 2005 og er eina íslenska lögmannsstofan sem er með starfsemi í tveimur löndum. Helga segir það hjálpa stofunni enn frekar að hafa þessa alþjóðlegu tengingu en markaðurinn getur breyst hratt, svo að nauðsynlegt er fyrir allar lögmannsstofur að vera á tánum og leita í sífellu leiða til að bæta þjónustuna við skjólstæðinga:
„Við verðum að vera vakandi fyrir nýjum leiðum og lausnum. Í því felst m.a. að fylgjast vel með nýrri tækni sem verður æ veigameiri í viðfangsefnum og störfum lögfræðinga.“
Sem dæmi um áhrif tækninnar á lögfræðiheiminn má nefna að í dag getur fullkominn hugbúnaður leyst af hendi sum þau störf sem lögfræðingar sinntu áður. Láta sumir sig dreyma um að einn góðan veðurdag geti jafnvel snjallsíminn komið í stað lögfræðings.
Helga hefur þó ekki áhyggjur af að tölvur muni leysa lögfræðistéttina af og meiri líkur séu á að tæknin muni vinna með og efla lögfræðinga í störfum sínum: „Ævintýralegt er að skoða tölur yfir hve margir eru að þróa alls kyns hugbúnað fyrir lögfræðinga og hafa sumar lausnirnar náð hærra flugi en aðrar,“ segir Helga en bendir á að tæknin nýtist enn meira þegar unnið er á ensku og með löggjöf enskumælandi landa.
„Við erum farin að nýta okkur þetta í einhverjum mæli, og getum t.d. nýtt öfluga skjalagagnagrunna til að einfalda vinnuna. Verður spennandi að sjá hversu langt verður hægt að ganga og margt í sjónmáli sem ætti líka að geta nýst á litlum og sérhæfðum markaði eins og þeim íslenska.“