88 | Efla hf. |
---|---|
Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 84 |
Aðsetur | Reykjavík |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein - meginfl. | Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi |
Atvinnugrein - ítarfl. | Starfsemi verkfræðinga og skyld tæknileg ráðgjöf |
Framkvæmdastjóri | Guðmundur Þorbjörnsson |
Eignir | 2.486.820 |
Skuldir | 1.147.965 |
Eigið fé | 1.338.855 |
Eiginfjárhlutfall | 53,84% |
Á listanum öll ár? | Já |
Fyrri ár á listanum | 2010–2017 |
Þróast í sátt við umhverfið
Samfélagsleg ábyrgð hefur lengi verið mikilvæg hjá verkfræðistofunni Eflu og forverum hennar að sögn Guðmundar Þorbjörnssonar framkvæmdastjóra. „Þegar fyrir 15 árum síðan vorum við t.d. byrjuð að vinna í gæðavottun og svo umhverfis- og öryggisvottun, fyrst fyrirtækja í okkar geira á Íslandi,“ segir Guðmundur í samtali við Morgunblaðið.
Efla er að sögn Guðmundar alhliða ráðgjafarfyrirtæki í verkfræði, tækni og tengdum greinum. „Í fyrirtækinu býr gríðarleg þekking á fjölbreyttum þáttum er tengjast atvinnulífi og samfélagsgerð. Hjá okkur starfa um 400 starfsmenn og snertum við samfélagið mjög víða. Við skilgreinum okkar hlutverk þannig að við komum fram með lausnir sem stuðla að framförum hjá okkar viðskiptavinum og efla okkar samfélag. Þess vegna skiptir það öllu máli að þróast í sátt við okkar umhverfi.“
Guðmundur nefnir einnig mikilvægi trausts í starfseminni. „Það er alveg ljóst að ráðgjafarfyrirtæki eins og okkar verður að njóta trausts til að farnast vel.“
Kröfur í samfélaginu fara sífellt vaxandi á öllum sviðum að sögn Guðmundar. „Það er ekkert annað en samfélagslegt ákall um að gera betur.“
Færri og færri tækifæri
Viðskiptavinir Eflu eru allir með einhverjum hætti hver á sinni vegferð í samfélagsmálum, og eru líklegri til að eiga viðskipti við aðila sem starfa á svipuðum nótum, og eru reiðubúnir til að styðja þá í þeirra vegferð, að sögn Guðmundar. „Fyrirtæki sem ekki eru ábyrg í sínu umhverfi, fá færri og færri tækifæri.“
Efla er þátttakandi í Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagslega ábyrgð. „Við tökum þátt í því til að ná heildarmynd á það sem við erum að gera. Við mátum okkur sömuleiðis við 17 heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Þá erum við einnig þátttakendur í loftslagsmarkmiði Parísarsáttmálans, eitt um 100 íslenskra fyrirtækja sem hefur verið þar með frá byrjun.“
Guðmundur segir að fyrst um sinn hafi áherslan í samfélagsábyrgð hjá Eflu mikið snúist um umhverfismál, en nú sé horft á þetta með heildstæðum hætti. Efnahagur, siðferði og félagslegi þátturinn séu einnig grundvallaratriði. „Það gleymist oft mikilvægi þess að vera með ábyrgan og traustan rekstur. Til að fyrirtækið hafi svigrúm til að vinna að nýjungum og nýsköpun, sem aftur hjálpar til við framþróun samfélagsins, þá er traustur rekstur nauðsynlegur. Ennfremur til að greiða skatta og skyldur til samfélagsins. Við erum stolt af því að hafa verið framúrskarandi að mati Creditinfo öll árin sem fyrirtækið hefur veitt slíkar viðurkenningar, og erum eitt af u.þ.b. 80 fyrirtækjum sem hafa verið alltaf á þeim lista. Þá er einnig aðalatriði í þekkingarfyrirtæki eins og Eflu að hlúa vel að starfsmönnum, skapa þeim gott vinnuumhverfi og áhugaverða möguleika í starfsþróun.“
En til hvaða beinu aðgerða hefur fyrirtækið gripið til, til að vera meira samfélagslega ábyrgt?
„Það er fjölmargt. Við erum stöðugt að leita leiða, bæði í okkar ráðgjöf og einnig í eigin starfsemi, eins og fram kemur í samfélagsskýrslu Eflu. Samfélagsleg ábyrgð er í raun samofin allri okkar starfsemi. Í umhverfismálunum höfum við t.d. verið í forystu um þróun á vistvænum byggingum, og í útreikningi á kolefnisspori mannvirkja og framkvæmda. Þá höfum við verið með ráðgjöf í orkuskiptum og vistvænum samgöngum. Nefna má í þessu samhengi að við erum að flytja í nýtt skrifstofuhúsnæði, og sú bygging er vistvænt vottuð.“
Auk þess sem Guðmundur telur upp hér að framan þá nefnir hann að bílar fyrirtækisins séu í auknum mæli rafdrifnir, veittir séu íþrótta- og samgöngustyrkir til starfsmanna, og svo mætti lengi telja.
Ráðgjöf stærsta framlagið
„Stærsta framlag okkar í samfélagslegri ábyrgð er þó í okkar ráðgjöf. Þar höfum við mikil tækifæri til að láta að okkur kveða til gagns á svo mörgum sviðum samfélagsins.“
Spurður að því hvaða áhrif þessi áhersla á samfélagslega ábyrgð hefur á fyrirtækið sjálft þegar kemur að mannaráðningum, segir Guðmundur að áhrifin séu greinileg. „Starfsfólk lítur í dag mjög til þessara hluta þegar það velur sér starfsvettvang. Ef fyrirtækið er samfélagslega meðvitað, gerir fólk ráð fyrir að koma inn í heilbrigt umhverfi þar sem það færi góð tækifæri.“
Hann segir að þetta sjáist best í viðhorfi ungu kynslóðarinnar í dag, hinnar svokölluðu þúsaldarkynslóðar. „Hún er að mörgu leyti með mun heilbrigðari viðhorf til vinnu og frítíma, og vill eiga gott fjölskyldulíf. Þessi kynslóð gerir meiri kröfur til starfsumhverfis en eldri kynslóðir, og tekur hlutum ekki sem sjálfsögðum. Við sem fyrirtæki getum heldur ekki tekið starfsfólkinu sem sjálfsögðum hlut.“
Með viðurkenningu Creditinfo hefur Efla skipað sér í forystusveit í samfélagslegri ábyrgð. En er enn hægt að bæta sig?
„Við erum svo sannarlega ekki heilög. Þetta er eilíf vegferð og við erum langt í frá fullkomin. Eins og kemur fram í samfélagsskýrslunni okkar þá setjum við okkur markmið, og sumum náum við og öðrum ekki. Þessi viðurkenning er fyrst og fremst hvatning til að halda áfram á sömu braut.“
Jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag
Hvatningarverðlaun Creditinfo „Framúrskarandi samfélagsábyrgð“ eru nú veitt annað árið í röð í samstarfi við Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð. Þriggja manna dómnefnd sá um að velja það fyrirtæki sem skaraði fram úr, en í ár er það verkfræðistofan Efla. Formaður dómnefndar var Fanney Karlsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu og formaður verkefnastjórnar stjórnvalda um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
„Þessi verðlaun eru veitt til að vekja athygli á fyrirtæki sem leggur sig fram um að hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og samfélag,“ segir Fanney í samtali við Morgunblaðið, en hún hefur langa reynslu af samfélagsábyrgð fyrirtækja og hefur starfað meðal annars hjá UN Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja. „Global Compact er eitt stærsta einstaka framtak á sviði samfélagsábyrgðar til að fá einkageirann til að leggja áherslu á þessi mál,“ útskýrir Fanney.
Þarf að vera Framúrskarandi
Spurð að því hvernig dómnefndin hafi komist að sinni niðurstöðu, segir Fanney að fyrsta mál á dagskrá hafi verið að skoða lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki. „Grundvallaratriði er að fyrirtækin stundi ábyrgan fjárhagslegan rekstur. Svo lítum við til þess hvort fyrirtæki hafi sett sér stefnu í samfélagsábyrgð, og skoðum árangur þeirra í þeim efnum. Þá er horft til fyrirtækjamenningar og hvaða áhrif fyrirtækin hafa á umhverfi sitt og samfélag. Fyrirtæki eru gjarnan með þessar upplýsingar aðgengilegar á heimasíðum sínum á netinu.“
Fanney segir að jafnframt hafi nefndin óskað eftir tilnefningum og nokkrar slíkar hafi borist. „Þetta fór svo allt í pott og var skoðað í kjölinn.“
Hún segir að um 100 fyrirtæki séu félagar í Festu, og það sé einnig góð staðfesting á að samfélagsábyrgð sé komin á dagskrá þeirra fyrirtækja. Ennfremur hafi um 20 fyrirtæki hér á landi skrifað undir fyrrnefndan Global Compact sáttmála, sem vitni einnig um áherslu viðkomandi fyrirtækja á þessu sviði.
Kristallaðist í verkefnunum
Til frekari útskýringar segir Fanney að dómnefndin hafi skoðað hvort búið væri að innleiða samfélagsábyrgð í kjarnastarfsemina. „Við sáum þetta kristallast vel í verkefnum Eflu. Þau eru til fyrirmyndar þegar kemur að því að innleiða þetta í starfsemina. Þau leggja mikla áherslu á vistvæna nálgun til dæmis og eru með vistferilsgreiningar og útreikninga á vistspori og kolefnisspori fyrir vörur sínar og þjónustu. Þá eru þau til fyrirmyndar í umhverfis-, öryggis- og samfélagslegum sjónarmiðum í verkefnum, setja sér metnaðarfull markmið, mæla þau og geta sýnt fram á árangur. Þá má einnig minnast á að þau eru hreinskilin, og eru ekki bara að reyna að teikna upp einhverja glansmynd af rekstrinum. Þau greina frá því að losun gróðurhúsalofttegunda jókst á milli ára vegna umfangs verkefna, en hins vegar tókst þeim að draga umtalsvert úr ákveðnum þáttum losunarinnar og hafa kolefnisjafnað alla losunina.“
Fanney segir að starfsánægja hafi einnig mælst há innan Eflu, og vel gangi að innleiða ábyrga hugsun hjá starfsfólki. „Vonandi hvetur þessi viðurkenning önnur fyrirtæki til dáða, ekki síst í sama geira. Mannvirkjageirinn er áhrifamikill geiri.“