ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2020.
149 Tandur hf.
Stærðarflokkur Meðalstórt
Röð innan flokks 20
Aðsetur Reykjavík
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein - meginfl. Framleiðsla
Atvinnugrein - ítarfl. Framleiðsla á sápu, hreinsi- og þvottaefnum, hreingerningar- og fægiefnum
Framkvæmdastjóri Guðmundur Gylfi Guðmundsson
Eignir 744.696
Skuldir 462.265
Eigið fé 282.431
Eiginfjárhlutfall 37,93%
Á listanum öll ár?
Fyrri ár á listanum 2010–2017
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Reksturinn tók kipp eftir hrun

Guðmundur Gylfi Guðmundsson segir að árið í fyrra hafi verið …
Guðmundur Gylfi Guðmundsson segir að árið í fyrra hafi verið gott hjá Tandri. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrirtækið Tandur var stofnað í Reykjavík árið 1973 og hefur verið rekið af sömu fjölskyldu frá árinu 1985 er hjónin Guðmundur Aðalsteinsson og Steinunn Aðalsteinsdóttir keyptu fyrirtækið. Þá var Tandur lítið fyrirtæki í Dugguvogi með tvo starfsmenn og reksturinn krefjandi eins og oft er með ný fyrirtæki. Í dag starfa 38 manns hjá Tandri hf. og tóku tveir synir þeirra hjóna alfarið við keflinu árið 2006, framkvæmdastjórinn Guðmundur Gylfi og gæðastjórinn Birgir Örn. Saman eiga þeir 20% hlut í Tandri en fjárfestingarfélagið Sjávarsýn keypti 80% hlut í fyrirtækinu í lok síðasta árs.

Eru báðir efnafræðingar

Tandur hefur verið á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki frá upphafi og er í dag stærsti innlendi framleiðandi hreinlætisefna fyrir matvælaiðnaðinn. Að auki flytur fyrirtækið inn hreinlætisvörur frá fjölda birgja í Evrópu, m.a. fyrirtækinu Diversey sem er leiðandi á heimsvísu í hreinlætisvörum fyrir iðnaðar- og stofnanamarkað. Vöruúrval Tandurs nær yfir allar helstu hreinlætisvörur til fyrirtækja og stofnana m.a. hreinlætispappír, ræstiáhöld og gólfþvottavélar sem sumar hverjar eru orðnar sjálfstýrðar.
Það skiptir máli að mati Guðmundar að vera á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki enda er um nokkurs konar gæðastimpil að ræða. „Það er jákvætt, bæði gagnvart viðskiptavinum og birgjum að sýna góðan rekstur sem skilar jákvæðri afkomu. Það eykur traust manna á fyrirtækinu,“ segir Guðmundur.

„Við erum báðir efnafræðingar og Birgir er með doktorsgráðu í efnafræði frá University of Wisconsin í Bandaríkjunum. Þessi menntun hefur hjálpað okkur mikið í okkar vöruþróun og ráðgjöf til viðskiptavina, sérstaklega í matvælaiðnaðinum,“ segir Guðmundur.
Framleiðsla Tandurs hófst upp úr 1990 og fer í dag fram að Hesthálsi 12 þar sem fyrirtækið er staðsett. „Við erum með fjóra starfsmenn í framleiðslu hjá okkur. Við erum með nokkra stóra framleiðslutanka og átöppunarbúnað fyrir stærri umbúðir,“ segir Guðmundur.

Hugarfarsbreyting í hruninu

Hann segir harða samkeppni vera á hreinlætisvörumarkaðnum, ekki aðeins við aðra framleiðendur heldur einnig við innflytjendur. „Rekstur fyrirtækisins tók töluverðan kipp eftir hrun. Í kjölfar þess jókst umfangið mikið og við urðum mjög sterkir í okkar innlendu framleiðslu. Það breyttist líka hugsunarhátturinn í þjóðfélaginu í hruninu og meira var horft til innlendrar framleiðslu. Það gaf okkur ákveðna innspýtingu í reksturinn,“ segir Guðmundur.
Aðrir ytri þættir á borð við fjölgun ferðamanna til landsins hafa einnig jákvæð áhrif á rekstur Tandurs. Í fyrra komu rúmlega 2 milljónir ferðamanna til landsins og slíkum fjölda fylgir auðvitað aukin þörf á vörum og þjónustu af ýmsu tagi, m.a. hreinlætisvörum. „Árið í fyrra var gott. Við seljum mikið til stærstu hótel- og veitingastaða landsins. Aukinn fjöldi ferðamanna smitar líka út í matvælaiðnaðinn,“ segir Guðmundur.

Svansvottun á framleiðslu

Síðastliðið vor varð Tandur fyrsta íslenska fyrirtækið til þess að fá viðurkennda umhverfisvottun á nokkrum uppþvottaefnum sem fyrirtækið framleiðir fyrir atvinnueldhús. Um er að ræða virtasta umhverfisstaðal Norðurlandanna, Svaninn.
„Það var mjög mikill gæðastimpill að fá Svansvottun á framleiðsluna því þessi vottun er ein kröfuhæsta umhverfisvottun í heiminum í dag. Efnin þurfa að uppfylla öll skilyrði um niðurbrot í náttúrunni og eitrunaráhrif líka,“ segir Guðmundur en Tandur stefnir á að fá sömu vottun á fleiri vörur í nánustu framtíð. Ljóst er að sterk umhverfisstefna er Tandri mikilvæg en fyrirtækið hefur gert samning við Kolvið um að kolefnisjafna útblástur allra sendibíla fyrirtækisins. Það hefur einnig samið við umhverfishugbúnaðarfyrirtækið Klappir um að mæla kolefnisfótspor fyrirtækisins. Slíkar mælingar eru að mati Guðmundar sífellt mikilvægari í nútíma rekstri.

„Klappir setja upp búnað og tengjast okkar upplýsingakerfum. Þannig fær það upplýsingar um eldsneytisnotkun, raforkunotkun, heitavatnsnotkun og losun úrgangs. Með þessum upplýsingum ásamt tölum frá flutningsaðilum yfir þá orku sem fer í að flytja til okkar hráefnin og vörurnar, er reiknað út kolefnisfótspor fyrir hvert kíló af okkar vörum. Þessum upplýsingum getum við svo deilt með okkar viðskiptavinum,“ segir Guðmundur.

Krafan um kolefnisfótspor

„Krafan um útreikning á kolefnisfótspori fer sífellt vaxandi. Sem dæmi má nefna að margir erlendir kaupendur íslenskra sjávarafurða fara núorðið fram á að vörunni fylgi kolefnisfótspor. Þegar við afgreiðum vörur til útgerðarfyrirtækja þá geta þau fengið kolefnisfótsporið á þeim vörum. Þess ber að geta að hreinsiefni sem Tandur framleiðir hafa miklu lægra kolefnisfótspor heldur en tilbúin hreinsiefni sem flutt eru til landsins,“ segir Guðmundur.
„Við höfum verið sérlega lánsöm í okkar rekstri með hæft starfsfólk en mikil þekking og reynsla er til staðar hjá fyrirtækinu í þjónustu við okkar viðskiptavini. Nokkrir af okkar lykilstarfsmönnum hafa starfað með okkur í rúmlega 20 ár.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl