ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2020.
150 Steinull hf.
Stærðarflokkur Meðalstórt
Röð innan flokks 21
Aðsetur Sauðárkrókur
Landshluti Norðurland vestra
Atvinnugrein - meginfl. Framleiðsla
Atvinnugrein - ítarfl. Framleiðsla á öðrum ótöldum vörum úr málmlausum steinefnum
Framkvæmdastjóri Stefán Logi Haraldsson
Eignir 997.093
Skuldir 298.265
Eigið fé 698.828
Eiginfjárhlutfall 70,09%
Á listanum öll ár?
Fyrri ár á listanum 2010–2017
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Selja þriðjung framleiðslunnar erlendis

„Með ráðdeild og skynsamlegum ákvörðunum tókst að koma Steinull á …
„Með ráðdeild og skynsamlegum ákvörðunum tókst að koma Steinull á þann stað sem fyrirtækið er á í dag,“ segir Stefán. Ljósmynd/Aðsend.

Gaman er að sjá hve mörg fyrirtæki á landsbyggðinni komast á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki. Eitt þeirra er Steinull hf. á Sauðárkróki en þar starfa um 40 manns við að framleiða hágæðavöru fyrir innlenda og erlenda kaupendur.

Stefán Logi Haraldsson er framkvæmdastjóri Steinullar og segir hann að góðan árangur undanfarin ár megi ekki síst þakka hæfu og duglegu starfsfólki og verkum Einars Einarssonar sem lét af störfum sem framkvæmdastjóri í apríl síðastliðnum eftir að hafa starfað hjá fyrirtækinu allt frá byggingarstigi.

„Með ráðdeild og skynsamlegum ákvörðunum tókst að koma Steinull á þann stað sem fyrirtækið er á í dag,“ segir Stefán.

Margra milljarða verksmiðja

Saga Steinullar hf. er áhugaverð fyrir margra hluta sakir. Snemma á 8. áratugnum tókst leiðtogum á svæðinu, með Þorstein Þorsteinsson, þáverandi bæjarstjóra, í fararbroddi, að fá stjórnvöld á sveif með þeirri hugmynd að setja á fót steinullarverksmiðju á Sauðárkróki með þátttöku ríkisins, til að renna betri stoðum undir atvinnulífið í héraðinu. Á sama tíma beittu aðilar á Suðurlandi sér fyrir opnun sams konar verksmiðju í nágrenni Þorlákshafnar, en í atkvæðagreiðslu á Alþingi var ákveðið að Sauðárkrókur yrði frekar fyrir valinu.
Stofnkostnaður verksmiðjunnar var í kringum milljarð króna á verðlagi síns tíma og jafngildir sennilega um tíu milljörðum framreiknað til dagsins í dag. En verksmiðjan var líka fyrsta flokks, og gæði vörunnar eftir því.

„Sérstaða okkar felst í því að hafa greiðan aðgang að basaltsandi stutt frá verksmiðjunni, sem við getum sótt án mikils tilkostnaðar,“ útskýrir Stefán og bætir því við að þar sem í sífellu berst fram meiri sandur sé ekki hægt að greina nein ummerki þar sem efnistakan fer fram og efnisnáman því sjálfbær.

„Einnig búum við að orku sem kaupa má á samkeppnishæfu verði og framleidd er á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt.“

Að jafnaði flytur Steinull hf. út um 25-30% af framleiðslunni og er afgangurinn seldur innanlands. Segir Stefán að þess hafi verið gætt að sinna þörfum innanlandsmarkaðarins vel þó að aðstæður hafi stundum verið erfiðar vegna stöðu krónunnar og mikillar sveiflu á markaðnum. „Stærsti erlendi markaðurinn okkar er Færeyjar, og hefur verið allt frá því framleiðsla hófst árið 1985, en í útflutningnum höfum við átt undir högg að sækja undanfarið vegna styrkingar íslensku krónunnar. Þá seljum við árlega á bilinu 7-800 tonn af steinull á Bretlandsmarkaði og er um að ræða sérstaka gerð af steinull með álfilmu sem notuð er við að einangra loftstokka. Er hægt að finna ódýrari vöru á breska markaðinum en þeir sem þekkja gæðin taka okkar framleiðslu fram yfir annað sem í boði er.“

Safna upp þekkingu

Samkeppnin harðnar ár frá ári og segir Stefán að á innanlandsmarkaði megi greina að framboðið á erlendri steinull fari vaxandi. Gæðin hjálpi Steinull hf. að halda forskoti en góður árangur sé ekki sjálfgefinn. „Fyrirtækið hefur verið undir heillastjörnu allt frá stofnun hvað það varðar að búa að einvalaliði fólks, og í rösklega þriggja áratuga sögu félagsins hefur tekist að skapa stöðugleika í þekkingaruppsöfnun, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir svona sérhæfða framleiðslu.“

Stefán segir enga ástæðu til annars en að reikna með að framtíðin verði björt. Þróunin í húsbyggingum er þannig að áherslan á umhverfisvænar og orkusparandi byggingar fer vaxandi og er þá fátt sem jafnast á við íslenska steinull.

„Önnur einangrunarefni á borð við glerull og pólystyren hafa ekki nærri því jafngóða brunavarnareiginleika. Þá er varan okkar framleidd með umhverfisvænum hætti og hefur lítið kolefnisfótspor, en samkvæmt LCA-greiningu þá er kolefnisspor steinullar, sem framleidd er hjá Steinull hf., mun minna en hjá öðrum framleiðendum. Sérstaða steinullar felst í þremur kostum hennar; sem varmaeinangrun, gott hljóðísogsefni og að hún er óbrennanleg. Þá er steinullin framleidd undir ströngu gæðaeftirliti og er fyrirtækið Steinull hf. með ISO 9001 og ISO 14001 vottanir.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl