157 | Vörumiðlun ehf |
---|---|
Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 134 |
Aðsetur | Sauðárkrókur |
Landshluti | Norðurland vestra |
Atvinnugrein - meginfl. | Flutningar og geymsla |
Atvinnugrein - ítarfl. | Flutningsþjónusta |
Framkvæmdastjóri | Magnús Einar Svavarsson |
Eignir | 1.115.433 |
Skuldir | 288.950 |
Eigið fé | 826.483 |
Eiginfjárhlutfall | 74,1% |
Á listanum öll ár? | Nei |
Fyrri ár á listanum | 2012–2017 |
Kenna bílstjórum að aka rétt
Vörumiðlun á Sauðárkróki er þriðja stærsta flutningafyrirtæki landsins á eftir Eimskipi og Samskipum, og þar við stjórnvölinn er Magnús E. Svavarsson. Hann segir í samtali við Morgunblaðið að mestu skipti að það sé alltaf nóg að gera. „Við erum með vöruflutninga og keyrum frá Reykjavík í Skagafjörðinn og Húnavatnssýsluna, Dalasýslu og á Strandir, en einnig austur fyrir fjall til Hellu og Hvolsvallar sem og til Víkur og Kirkjubæjarklausturs,“ segir Magnús, en félagið sinnir einnig Reykjanesinu eftir að það festi á síðasta ári kaup á Fitjum vörumiðlun í Keflavík.
„Svo erum við líka í afgreiðslu á skipum hér á Sauðárkróki og löndum úr fraktskipum,“ bætir Magnús við og ljóst er að það er í mörg horn að líta hjá félaginu.
Á Sauðárkróki er FISK Seafood með mikla starfsemi, og Vörumiðlun þjónustar það fyrirtæki meðal annars. „Annars er Skagafjörðurinn mikið framleiðslusvæði og héðan er mikið flutt af alls kyns vörum í bæinn, hvort sem það er fiskur, kjöt, mjólkurvörur eða steinull.“
Veltan var 1,7 milljarðar
Velta Vörumiðlunar var 1,7 milljarðar á síðasta ári að sögn Magnúsar, en hann segist ávallt vera opinn fyrir frekari vaxtartækifærum, eins og kaupin á Fitjum vitna um.
„Við erum hér með nálægt 100 tæki í notkun, þar af 50-60 flutningabíla.“
Hækkun olíuverðs hefur verið nokkuð í fréttum á þessu ári. Er það að gera Vörumiðlun einhverja skráveifu?
„Jú, það er auðvitað ekki gott að þurfa að hækka flutningsgjöld, það bitnar alltaf á landsbyggðinni. Við megum ekki við því.“
Magnús segir að ein leið til að bregðast við hækkandi olíuverði sé að mennta bílstjórana í orkusparnaði. „Það er oft hægt að gera góða hluti með því að kenna mönnum að aka rétt. Það er ekki sama hvernig maður keyrir. Þegar á heildina er litið, og á árið allt, þá er mikið sem veltur á þessu. Svo höfum við passað upp á að kaupa ný tæki sem eyða minna en þau gömlu.“
Spurður að því hvort orkuskipti séu að verða í flutningageiranum, með tilkomu rafmagnsbíla eða tengiltvinnbíla, segir Magnús að enn sem komið er sé tæknin ekki orðin nógu fullkomin fyrir svo stóra bíla. „Það þarf mikla orku fyrir svona stóra bíla að taka af stað, bíla sem eru kannski 50 tonn. Ég held að menn séu aðeins að fara fram úr sér í þessu, og enn séu einhver ár í að flutningabílar verði orðnir rafdrifnir.“