ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2020.
178 Landsprent ehf.
Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 148
Aðsetur Reykjavík
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein - meginfl. Framleiðsla
Atvinnugrein - ítarfl. Prentun dagblaða
Framkvæmdastjóri Guðbrandur Magnússon
Eignir 1.927.245
Skuldir 720.997
Eigið fé 1.206.248
Eiginfjárhlutfall 62,59%
Á listanum öll ár? Nei
Fyrri ár á listanum 2015, 2017
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Getur prentað tugþúsundir blaða á klukkustund

Guðbrandur Magnússon er framkvæmdastjóri Landsprents.
Guðbrandur Magnússon er framkvæmdastjóri Landsprents. Eggert Jóhannesson

Þegar flestir eru á leið heim að loknum hefðbundnum vinnudegi aukast umsvifin í reisulegri byggingu uppi við Rauðavatn. Þá taka prentarar Landsprents til við að ræsa stærstu og öflugustu prentvél landsins og hún er engin smásmíði. Og afköstin eru heldur ekki á borð við hefðbundinn prentara. Á einni klukkustund getur vélin skilað af sér allt að 75 þúsund blöðum, tilbúnum til dreifingar.

Prentvél Landsprents er langöflugasta blaðaprentsmiðja landsins.
Prentvél Landsprents er langöflugasta blaðaprentsmiðja landsins. Eggert Jóhannesson

Framkvæmdastjóri Landsprents er Guðbrandur Magnússon en hann hefur verið viðloðandi prentiðnaðinn í áratugi. Árið 1985 tók hann við starfi verkstjóra í umbroti og hönnun Morgunblaðsins, sem þá var með skrifstofur sínar í Aðalstrætinu. En hann hafði áður rekið prentþjónustu og gefið út bæjarblaðið Feyki á Sauðárkróki. Hann viðurkennir að prentvélin sem er þungamiðja framleiðslunnar í dag er af allt öðrum toga en annar prentbúnaður sem hann hefur komið nálægt á fyrri tíð.


„Þessi vél var tekin í notkun 2004 og er sú fyrsta sem Árvakur keypti sérstaklega til að prenta í lit. Eldri prentsmiðjur geta prentað í lit og það gerðum við á gömlu vélinni í Kringlunni en það var aldrei í sömu gæðum og við höfum gert frá því að vélin var ræst hér í Hádegismóum.“


Mikil gæði í litprentun


Og gæðin eru sannarlega áþreifanleg. Það sést glögglega þegar afurðir prentvélarinnar eru bornar saman við eldri blöð á borð við þau sem prentuð voru í verksmiðjunni í Kringlunni. Raunar hefur vélin og prentararnir hlotið viðurkenningu fyrir gæði. Þannig var Landsprent útnefnt í hóp bestu blaðaprentsmiðja í heimi af International Color Quality Club en það er keppni sem skipulögð er af WAN-IFRA, alþjóðlegum samtökum blaðaútgefenda.


Þótt Landsprent sé eitt af dótturfélögum Árvakurs, sem gefur út Morgunblaðið, eru afköst fyrirtækisins mun meiri og gríðarlegt magn útgefins efnis sem þar er framleitt.


„Við prentum langstærstan hluta dagblaða í landinu. Þar má nefna ásamt Morgunblaðinu, Viðskiptablaðið, Bændablaðið, DV, Skessuhorn, Víkurfréttir og Stundina ásamt auglýsingablöðum á borð við Elko- og Byko-blaðið,“ segir Guðbrandur og aðspurður segir hann afkastagetu vélarinnar raunar slíka að hún gæti annað allri dagblaðaprentun landsins.


Á pari við stórar prentsmiðjur erlendis

Landsprent prentar m.a. Morgunblaðið, Viðskiptablaðið, Bændablaðið og Stundina.
Landsprent prentar m.a. Morgunblaðið, Viðskiptablaðið, Bændablaðið og Stundina. Eggert Jóhannesson

Líkt og áður greinir eru hámarksafköst vélarinnar 75 þúsund eintök á klukkustund en það magn miðast við minni prentanir.


„Vélin getur á hverjum tíma prentað 128 síður að hámarki og það er algengt með prentvélar hjá stórum útgáfufélögum erlendis. Þegar við prentum svo stór blöð þá eru afköstin 37.500 blöð. Það sem gerir þessa prentsmiðju líka svo öfluga er sú staðreynd að gæðin á prentuninni eru hin sömu frá fyrsta eintaki til hins síðasta. Í eldri vélunum, sem fyrst og fremst voru hannaðar til að prenta svarthvítt gat tekið allt upp í nokkur þúsund blöð að fá litinn réttan.“

Landsprent prentar langstærstan hluta dagblaða á Íslandi.
Landsprent prentar langstærstan hluta dagblaða á Íslandi. Eggert Jóhannesson

Mikil umsvif í miðri viku


Alla jafna hefst prentunin í verksmiðjunni um kl. 17:00 á daginn nema þegar mikið liggur fyrir. Þá er vélin ræst kl. 14:00.


„Miðvikudagarnir eru t.d. stórir hjá okkur og þá byrjum við fyrr. Þetta eru almennt langar vaktir sem prentararnir standa en þeir vinna í viku og eru svo viku í fríi á móti. Allt í allt erum við 20 sem komum að rekstri vélarinnar, þar af eru prentararnir sex. Þetta gengur vel því við erum með mjög öflugt starfsfólk sem kann til verka. Lykillinn að velgengni okkar felst annars vegar í mjög fullkominni prentvél og hins vegar öflugu fagfólki sem er mjög meðvitað um gæði og þjónustu,“ segir Guðbrandur.


Endurnýja þarf rafbúnaðinn með reglubundnum hætti


Og þegar maður virðir fyrir sér prentvélina sem er engin smásmíði og á mörgum hæðum áttar maður sig fljótt á því að það krefst bæði þekkingar og útsjónarsemi að halda þessari völundarsmíð gangandi.


„Svona vél krefst stöðugs viðhalds. Það er hægt að keyra svona tæki í 40 ár ef vilji er til þess en þá þarf að hugsa vel um hana og við erum t.d. með fjögurra manna verkstæði hérna þar sem hver og einn starfsmannanna er sérhæfður í ákveðnum þáttum. Stálið og grunnbúnaðurinn gengur seint úr sér en rafmagnið og tölvubúnaðurinn er annað mál. Þar þarf helst að skipta um ýmsan búnað á jafnvel 10 ára fresti, bara svo að tryggt sé að hægt sé að fá varahluti ef eitthvað bilar.“

Prentvélin er engin smásmíði og getur skilað 75 þúsund blöðum …
Prentvélin er engin smásmíði og getur skilað 75 þúsund blöðum frá sér á klukkustund. Eggert Jóhannesson

Stundum sér fólk ofsjónum yfir pappírsnotkuninni sem fylgir framleiðslu eins og þeirri sem Landsprent sinnir. Guðbrandur segir að gagnrýni af þeim toga sé hins vegar á misskilningi byggð.

Við notum um 3.000 tonn af pappír á hverju ári en það segir ekki alla söguna. Allur pappír meira og minna er framleiddur í barrskógabeltinu svokallaða á norðlægum slóðum, fyrst og fremst í Kanada og Noregi. Það eru nytjaskógar, í raun og veru hefðbundinn landbúnaður og þessir skógar hafa í raun vaxið gríðarlega á síðustu árum. Skógeyðingin sem talað er um á sér hins vegar fyrst og fremst stað á Amazon-svæðinu og slíkum stöðum þar sem verið er að brjóta skóglendi undir landbúnað eða byggingarland.“

Mest af pappír keypt frá Kanada


Landsprent kaupir langmest af sínum pappír frá fyrirtæki í Kanada sem nefnist Resolute Forest Products en eitthvað af pappírnum kemur einnig frá Noregi. Guðbrandur segir að pappírsmarkaðurinn sé mjög sérstakur.


„Þetta er í raun hrávörumarkaður og hann sveiflast gríðarlega þegar kemur að verði. Eftirspurn eftir dagblaðapappír hefur dregist mikið saman á síðustu árum og við það hafa framleiðendur lokað mörgum verksmiðjum til að draga úr framboði. Það hefur valdið mikilli verðhækkun og verðið er í hæstu hæðum í dag. Framleiðslan er raunar það lítil að sumir útgefendur eiga beinlínis erfitt með að útvega sér pappír.“


Guðbrandur segir að það eigi hins vegar ekki við um Landsprent og þar skipti sköpum að eiga traust og langvarandi viðskiptasamband við sína birgja.

Pappírinn er að stærstum hluta keyptur frá Kanada.
Pappírinn er að stærstum hluta keyptur frá Kanada. Eggert Jóhannesson

„Sum prentfyrirtæki hafa farið þá leið að kaupa af nokkrum mismunandi framleiðendum, en þá er viðskiptasambandið ótraust. Okkar samstarfsaðilar tryggja okkur góða vöru og þetta hefur ekki verið vandamál hjá okkur. En frá því að við pöntum pappír, sem er allur sérsniðinn í okkar vélar, þá tekur það tvo mánuði að fá vöruna hingað upp að dyrum.“


En á þessum markaði getur margt komið upp á og það þarf að huga að ýmsu. Guðbrandur segir að tafir geti orðið á sendingum. T.d. hafi það gerst að aurbleyta að vori í Kanada hafi valdið þungatakmörkunum á vegum sem aftur hafi seinkað afhendingu pappírsins en hann er afhentur á gríðarstórum rúllum sem síðan er komið fyrir í prentvélinni stóru. Þegar hún fer af stað, snúast rúllurnar á ógnarhraða og útkoman er dagblöð af fjölbreyttu tagi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl