208 | Læknisfræðileg myndgreining ehf. |
---|---|
Stærðarflokkur | Meðalstórt |
Röð innan flokks | 45 |
Aðsetur | Reykjavík |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein - meginfl. | Heilbrigðis- og félagsþjónusta |
Atvinnugrein - ítarfl. | Sérfræðilækningar |
Framkvæmdastjóri | Ragnheiður Sigvaldadóttir |
Eignir | 633.765 |
Skuldir | 475.328 |
Eigið fé | 158.437 |
Eiginfjárhlutfall | 25,0% |
Á listanum öll ár? | Nei |
Fyrri ár á listanum | 2017 |
Vaxa samhliða fólksfjölgun
Læknisfræðileg myndgreining er í annað sinn á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki Creditinfo að sögn Ragnheiðar Sigvaldadóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, sem rekur starfsemi undir merkjum Röntgen Domus á þremur starfsstöðvum í Reykjavík. Læknisfræðileg myndgreining hóf rekstur árið 1993 og fagnar því um þessar mundir aldarfjórðungs starfsafmæli. Undanfarin ár hefur fyrirtækið verið leiðandi á sviði myndgreiningar á Íslandi og er hið stærsta sinnar tegundar hér á landi.
Spurð um þýðingu þess að vera á lista Creditinfo segir Ragnheiður: „Þetta er staðfesting á því að við erum með mjög færan og samheldinn hóp fagfólks sem skilar góðri þjónustu. Þetta vekur einnig athygli og getur hjálpað okkur þegar við þurfum á fjármögnun að halda.“
Að sögn Ragnheiðar veitir fyrirtækið breiða þjónustu og býður m.a. upp á röntgenmyndgreiningu, tölvusneiðmyndatöku, ómskoðanir og segulómskoðun. „Rannsóknirnar eru tæknilega misflóknar en við sinnum flestu,“ segir Ragnheiður og heldur áfram: „Við störfum samkvæmt þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands en frá upphafi hefur fyrirtækið kappkostað að vera með nýjasta tækjabúnaðinn og verið í fararbroddi með ýmsar nýjungar eins og tölvusneiðmyndarannsóknir á kransæðum og segulómskoðun á blöðruhálskirtli til dæmis,“ segir Ragnheiður.
Styttur biðtími
Ragnheiður segir rekstur fyrirtækisins hafa gengið vel í fyrra en tekjurnar námu 1,1 milljarði króna. „Reksturinn hjá okkur í fyrra gekk vel eins og staðan endurspeglar kannski hjá Creditinfo. Við höfum unnið markvisst í því að bæta hjá okkur þjónustuna; fjölgað starfsstöðvum til að auðvelda aðgengi skjólstæðinga, stytt biðtíma eftir rannsóknum og stytt svartíma til lækna. Við höfum að auki lagt mikla áherslu á að aðgengi allra lækna að niðurstöðum rannsókna sé tryggt,“ segir Ragnheiður en fyrirtækið hefur starfsstöðvar á Domus Medica á Egilsgötu, í Mjódd og á Höfða.
Ragnheiður segir eftirspurn eftir rannsóknum hjá fyrirtækinu hafa aukist jafnt og þétt. „Eftirspurnin eftir rannsóknum hjá okkur hefur verið að aukast. Það er náttúrlega bara þannig að þjóðin er að eldast, okkur er að fjölga, og það endurspeglast í því að við fáum mjög stöðugt og aukið flæði inn af beiðnum frá tilvísandi læknum,“ segir Ragnheiður.
Aðspurð hvað sé fram undan segir Ragnheiður fyrirtækið einblína á gæðamál sem mikið hafa verið til umræðu, nú síðast á heilbrigðisþingi, um aukin gæði allrar starfsemi í heilbrigðisgeiranum. Verkferlar við framkvæmd rannsókna þurfa t.d. að vera skýrt skilgreindir en einnig atriði eins og tvískoðun lækna.
„Við höfum aukið hlutfall rannsókna sem eru tvískoðaðar af læknum en haft það í forgrunni að það komi ekki niður á svartímanum. Við viljum að skjólstæðingar okkar fái svör eins hratt og hægt er. Við teljum okkur hafa verið leiðandi í þeim efnum með mjög ítarlegum gæðavísum varðandi okkar starfsemi.“