209 | Hekla hf. |
---|---|
Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 164 |
Aðsetur | Reykjavík |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein - meginfl. | Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum |
Atvinnugrein - ítarfl. | Bílasala |
Framkvæmdastjóri | Friðbert Friðbertsson |
Eignir | 6.263.473 |
Skuldir | 4.598.989 |
Eigið fé | 1.664.484 |
Eiginfjárhlutfall | 26,57% |
Á listanum öll ár? | Nei |
Fyrri ár á listanum | 2017 |
Einka- og fyrirtækjamarkaðurinn svipaðir að stærð og fyrir hrun
Undanfarinn áratugur hefur verið mjög viðburðaríkur á íslenskum bílamarkaði. Á köflum hefur reksturinn verið þungur hjá bílaumboðum eins og Heklu, sem í dag er á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki.
Friðbert Friðbertsson, forstjóri fyrirtækisins, segir ennþá fyrir hendi uppsafnaða þörf fyrir endurnýjun bílaflota landsmanna. „Þrátt fyrir góða sölu á bílum upp á síðkastið verður að hafa í huga að um 40% af nýskráðum bílum eru bílaleigubílar og einka- og fyrirtækjamarkaðurinn eru töluvert minni en árið 2005.“
Eftir fjármálahrun urðu eigendaskipti hjá Heklu og við tók tímabil þar sem reksturinn var straumlínulagaður en því samhliða ráðist í brýnar fjárfestingar á borð við endurnýjun sýningarsala og kaup á tækni til að búa í haginn fyrir orkuskipti í samgöngum. Hefur mikil áhersla verið lögð á rafmagns- og tengiltvinnbíla hjá Heklu síðastliðin ár og fjölgað hratt í flóru vistvænna bíla af öllum stærðum og gerðum.
Titringur í sumarlok
Eins og lesendur muna fraus íslenski bílamarkaðurinn eftir fjármálahrun og bílafloti landsmanna eltist mikið, og um leið jókst endurnýjunarþörfin. Undanfarin ár hefur markaðurinn tekið aftur við sér og salan glæðst, m.a. vegna sterkari krónu. „Í sumarlok mátti þó greina að hægðist aftur á sölu nýrra bíla. Vonandi er þetta einungis tímabundin breyting og margt sem kann að hafa spilað inn í, s.s. titringur vegna kjaraviðræðnanna framundan,“ segir Friðbert.
Á tímabili leit líka út fyrir að ný og strangari útblástursviðmið Evrópusambandsins myndu hækka meirihluta nýrra bíla upp um einn og í sumum tilvikum tvo tollflokka, sem hefði haft töluverða verðhækkun í för með sér. Brugðust íslensk stjórnvöld við með því að aðlaga tollakerfið að nýjum útblástursstöðlum svo að áhrifin verða ekki eins alvarleg.
„Fjármálaráðuneytið sinnti þessu af fagmennsku og vann gott starf svo að við ættum ekki að þurfa að óttast skyndilega hækkun gjalda á alla línuna þó að hækkanir verði í einhverjum tilvikum,“ áréttar Friðbert.
Framtíðin virðist tilheyra umhverfisvænum bílum og segir Friðbert að á 85 ára afmæli fyrirtækisins sé Hekla vel í stakk búin til að takast á við breytingarnar framundan. Umboðið njóti m.a. góðs af því að flytja inn sterk vörumerki: Volkswagen, Audi, Skoda og Mitsubishi, sem hafa tekið forystu í þróun vistvænna aflrása. „Er skemmst að minnast Audi e-tron sem frumsýndur var á dögunum. Hafa íslenskir kaupendur sýnt þessum sportjeppa mikinn áhuga, enda rafmagnsbíll í lúxusflokki með mikla drægni, og hafa forpantanir farið fram úr væntingum okkar.“
Kostir einkabílsins gleymast í umræðunni
Fleira hefur áhrif á rekstur bílaumboðanna en gangur atvinnulífsins. Virðist stjórnmálaumræðan leika stærra hlutverk en áður og má t.d. þakka það ívilnunum stjórnvalda að sala bíla með vistvænni aflrás hefur stóraukist. Nefnir Friðbert að það sem af er þessu ári hafi um 70% nýskráðra bíla frá Heklu verið umhverfisvæn, s.s. með tengiltvinn- eða rafmagnsvél.
En stjórnmálin geta líka torveldað söluna og segir Friðbert að upp á síðkastið hafi sú stefna einkennt skipulags- og samgöngumál að þrengja eigi að einkabílnum.
„Borgaryfirvöld hafa verið með alls konar fullyrðingar um bíla sem standast ekki skoðun. Bílnum er kennt um ýmislegt en það gleymist að nefna það jákvæða, eins og það mikla frelsi og góðu efnahagslegu áhrif sem það hefur þegar fólk getur komist ferða sinna um borgina hratt og örugglega á eigin bíl. Geta lífsgæði fólks eflst og hægt er að koma meiru í verk á einkabíl, hvað þá með ung börn á heimilinu sem ferja þarf á milli heimilis, skóla og frístundastarfs,“ segir hann. „Við ættum að skoða hvernig hlúa má að fjölbreyttu samgönguumhverfi, þar sem einkabíllinn leikur ómissandi hlutverk, frekar en að tala eina tegund samgangna niður.“