ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2020.
269 Fiskmarkaðurinn ehf.
Stærðarflokkur Meðalstórt
Röð innan flokks 79
Aðsetur Reykjavík
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein - meginfl. Rekstur gististaða og veitingarekstur
Atvinnugrein - ítarfl. Veitingastaðir
Framkvæmdastjóri Hrefna Rósa Jóhannsd. Sætran
Eignir 459.326
Skuldir 76.222
Eigið fé 383.104
Eiginfjárhlutfall 83,41%
Á listanum öll ár? Nei
Fyrri ár á listanum 2015–2017
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Góður bransi fyrir spennufíkla

„Það er samasemmerki á milli ánægðra starfsmanna og ánægðra viðskiptavina. …
„Það er samasemmerki á milli ánægðra starfsmanna og ánægðra viðskiptavina. Það er alveg greinilegt," segir Hrefna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hrefna Rósa Sætran matreiðslumeistari hefur þroskast sem leiðtogi á undanförnum árum að eigin sögn. Hún segir á skemmtilegan hátt frá þessari þroskasögu og hvaða merkingu það hefur fyrir hana persónulega að fyrirtækin undir hennar stjórn hafi verið valin framúrskarandi á þessu ári.

Hrefna er jákvæður leiðtogi sem stjórnar ásamt meðeigendum sínum Fiskmarkaðnum, Grillmarkaðnum og Skelfiskmarkaðnum sem er nýjasti meðlimur veitingahúsafjölskyldunnar eins og hún kallar samsteypuna.

„Fiskmarkaðurinn varð 11 ára í ár og Grillmarkaðurinn sjö ára. Við erum með vel menntað fagfólk í hverri stöðu og samtals 250 einstaklingar vinna hjá okkur í dag.“

Heiður að fá viðurkenninguna

Hvaða þýðingu hefur viðurkenningin framúrskarandi fyrirtæki fyrir þig sem stjórnanda?

„Það er mikill heiður að fá viðurkenninguna því það segir okkur að við séum að gera vel. Það er svo mikil vinna á bakvið tjöldin sem til dæmis starfsfólkið okkar sér aldrei og gerir sér ekki grein fyrir svo það er gaman að fá þessa viðurkenningu.“

Hvað hefur gerst á liðnu ári í rekstri fyrirtækisins?

„Veitingabransinn er góður fyrir spennufíkla því það eru alltaf miklar sveiflur í honum. Það hefur allt hækkað gríðarlega síðustu tvö ár og heldur bara áfram að hækka svo það er mikil spenna í loftinu í bransanum. Laun, hráefni og öll þjónusta er alveg við þolmörk og það þarf að passa reksturinn sérstaklega vel núna. Hverja einustu krónu.“

Grillmarkaðurinn.
Grillmarkaðurinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erfið staða á markaðnum í dag

Hverjar eru framtíðarhorfurnar?

„Ég lít á staðina okkar til framtíðar svo þótt staðan sé erfiðari núna en áður veit ég að það mun jafnast út. Það eru alltaf sveiflur í bransanum. Fiskmarkaðurinn og Grillmarkaðurinn eru orðnir rótgrónir staðir og núna erum við að vinna hörðum höndum að því að slípa til Skelfiskmarkaðinn svo hann verði líka rótgróinn sem fyrst.“

Hver er megináherslan í mannauðsmálum um þessar mundir hjá þér?

„Það er ágætis velta á starfsfólki hjá okkur þótt við séum með frábæran kjarna. Við erum alltaf að ráða inn nýtt fólk og þjálfa það upp og með nýjum stað lærir maður alltaf eitthvað nýtt. Við viljum að starfsfólkið finni að það sé haldið utan um það og það finni skipulagið sem er í gangi.“

Mikilvægt að hlusta á aðra

Hvað gerir einstakling að góðum stjórnanda að þínu mati?

„Ég tel mikilvægt að hlusta á aðra. Ekki líta á ábendingar/kvartanir sem slæmar heldur reyna að finna hvort það sé eitthvað til í því sem fólkið er að segja og þá laga hlutina samkvæmt því. Svo finnst mér mikilvægt að kasta hugmyndum fram og til baka og leyfa yfirmönnum að fá smá lausar hendur til að blómstra og koma manni á óvart. Það er svo skemmtilegt og veitir mér innblástur.“

Leggurðu áherslu á að mæla ánægju starfsfólks í fyrirtækinu?

„Mér finnst mjög mikilvægt að starfsfólkið okkar sé ánægt í vinnunni. Góður starfsandi er mikilvægur og við leggjum mikið upp úr því að gera vel við okkar starfsfólk. Ég mæli það ekkert sérstaklega en ef maður heyrir að einhver er ósáttur þá gengur maður beint í að tala við þann aðila og komast að rót vandans.“

Skelfisksmarkaðurinn.
Skelfisksmarkaðurinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vélmenni sem steikir hamborgara

Berðu saman fjárhagstölur og ánægju starfsfólks?

„Það er samasemmerki á milli ánægðra starfsmanna og ánægðra viðskiptavina. Það er alveg greinilegt. Ég er ekki mikið að grúska beint í tölum en sé þetta greinilega á stöðum þar sem fólk skrifar um okkur eins og Tripadvisor og Facebook.“

Hafa tæknibreytingar í heiminum áhrif á þína starfsemi?

„Já við þurfum reglulega að uppfæra kassakerfi og þannig hjá okkur. Svo eru tækniframfarir í heiminum sem hafa áhrif á hráefnið okkar eins og ræktun á grænmeti og vinnslu á kjöti. Svo sá ég um daginn vélmenni sem steikir hamborgara sem mér fannst mjög fyndið og fékk mig til að hugsa um framtíðina.“

Var mikill vinur allra

Áttu skemmtilega sögu af þér sem stjórnanda?

„Ég var eðlilega í smátíma að finna hvernig stjórnandi ég vildi vera og fyrir mörgum árum í eldhúsinu prófaði ég að vera stjórnandi sem var mikill vinur allra. Ég var alltaf að hjálpa öllum með að klára verkin sín, að sækja hluti til að auðvelda vinnuna fyrir þeim og þess háttar, en svo gengu allir á lagið með þetta fyrirkomulag mitt og eitt kvöldið var ég ein eftir í eldhúsinu klukkan að ganga þrjú um nótt og ég að brúna bein fyrir nautasoð sem var verkefni yngsta nemans. Þá átti ég eftir að panta allt fyrir næsta dag og gera fullt af hlutum sem voru á minni könnu. Ég man svo vel eftir þessu augnabliki sem ég vann svo hart í að snúa við og tókst næstu vikurnar. Þetta var áður en ég opnaði Fiskmarkaðinn og mér fannst ég læra mikið af þessu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl