294 | Reykjabúið ehf. |
---|---|
Stærðarflokkur | Meðalstórt |
Röð innan flokks | 95 |
Aðsetur | Mosfellsbær |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein - meginfl. | Landbúnaður, skógrækt og fiskveiðar |
Atvinnugrein - ítarfl. | Alifuglarækt |
Framkvæmdastjóri | Kristín Sverrisdóttir |
Eignir | 784.237 |
Skuldir | 275.979 |
Eigið fé | 508.258 |
Eiginfjárhlutfall | 64,81% |
Á listanum öll ár? | Nei |
Fyrri ár á listanum | 2017 |
Starfsemin hófst í kvikmyndahúsi
Þetta er ákveðin viðurkenning og hvatning fyrir okkur um að við séum að gera eitthvað rétt í rekstrinum,“ segir Kristín Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Reykjabúsins, spurð um þýðingu þess að vera á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki.
Kristín keypti ásamt manni sínum, Jóni Magnúsi Jónssyni, Reykjabúið í Mosfellsbæ fyrir 13 árum en þau hjónin komu þó inn í rekstur þess fyrir 30 árum. Reykjabúið er elsta alifuglabú landsins og nær saga þess allt aftur til fimmta áratugar síðustu aldar, en það var faðir Jóns Magnúsar, Jón Magnús Guðmundsson, sem stofnaði forvera Reykjabúsins, Hreiður, árið 1946. Þá fór starfsemi Reykjabúsins fram í Reykjabíói, gömlu kvikmyndahúsi á bökkum Varmár, sem var uppgert og lagað að nýrri starfsemi. Seinna var það rifið og byggði Reykjabúið þar fuglahús árið 1997 sem gengur undir nafninu Nýja bíó.
„Saga þessa fyrirtækis er orðin löng. Þetta er elsta fyrirtækið sem er starfandi í dag í alifuglarækt, bæði í kalkúni og kjúklingi,“ segir Kristín en bærinn Suður-Reykir hefur verið í eigu fjölskyldu Jóns Magnúsar í hundrað ár.
Starfsemi Reykjabúsins er í dag tvíþætt. Annars vegar er um að ræða stofnrækt fyrir kalkúna og kjúklinga Ísfuglsbænda og hins vegar eldi kjúklinga og kalkúna en fyrirtækið framleiðir 750 tonn af kjúklingi og 250 tonn af kalkúni á ári. „Ísfugl slátrar, vinnur og selur allt okkar kjöt og annarra Ísfuglsbænda,“ segir Kristín en Ísfugl er einnig í þeirra eigu og er sömuleiðis á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki ásamt Útungun ehf. sem heldur utan um stofnaeldið.
Hagnaðurinn settur í fyrirtækið
Kristín segir rekstur fyrirtækisins í fyrra hafa gengið ágætlega en tekjur fyrirtækisins voru á sjötta hundrað milljónir króna. „Reksturinn í fyrra var ágætur en hefur verið stöðugur á milli ára. Kostnaður hefur þó farið stigvaxandi síðustu ár. Við höfum mætt þeim kostnaði með aukinni framleiðslu,“ segir Kristín.
Að sögn Kristínar hefur hagnaður fyrirtækisins verið notaður til að styrkja og byggja upp fyrirtækið. Það er að hennar mati lykilatriði og áfram markmiðið en frá því að þau keyptu fyrirtækið hefur reksturinn breyst og framleiðsla aukist töluvert mikið.
„Við erum alltaf að reyna að taka betur og betur utan um þennan rekstur og höfum ákveðin áform um að byggja betur upp. Á þessu ári byggðum við upp ný stofnahús á Reykjum sem hafa gjörbreytt aðstæðum, bæði fyrir fugla og starfsmenn, og framleiðslan þar inni hefur aukist. Við höfum lagt hagnaðinn í þetta,“ segir Kristín.
Hún segir starfið skemmtilegt en ekki án áskorana.
„Þetta er alltaf skemmtilegt og við tökumst stöðugt á við nýjar áskoranir. Þar má nefna aukna dýravelferð, aukin gæði vörunnar og fram undan eru áskoranir tengdar loftslagsmálum. Núna þurfum við eins og aðrir kjötframleiðendur að halda vel á spöðunum þar sem það er búið að auka frítollamagnið. Við finnum auðvitað fyrir því þegar það er aukinn innflutningur og þannig verður þetta næstu árin.“