309 | Múlakaffi ehf. |
---|---|
Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 199 |
Aðsetur | Reykjavík |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein - meginfl. | Rekstur gististaða og veitingarekstur |
Atvinnugrein - ítarfl. | Veitingastaðir |
Framkvæmdastjóri | Guðríður María Jóhannesdóttir |
Eignir | 1.090.022 |
Skuldir | 670.386 |
Eigið fé | 419.636 |
Eiginfjárhlutfall | 38,5% |
Á listanum öll ár? | Nei |
Fyrri ár á listanum | 2014–2017 |
Vandvirkni og vinnusemi skila árangri
Þegar veitingastaður er orðinn nærri 60 ára gamall væri réttara að kalla hann kennileiti í samfélaginu eða líta á hann sem hálfgerða menningarstofnun. Það var árið 1962 að Stefán Ólafsson opnaði matsölustaðinn Múlakaffi og þótti hann djarfur að koma sér fyrir í Hallarmúla 1 sem á þeim tíma var nokkuð langt frá miðju borgarinnar. En Stefán sá hvert stefndi og vissi að svæðið í kring myndi byggjast upp.
Sonur Stefáns, Jóhannes, tók við rekstrinum 1989 og stendur enn vaktina en Guðríður María Jóhannesdóttir, barnabarn Stefáns heitins, er framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Guðríður verður 34 ára í lok mánaðarins og er yngsti stjórnandinn í hópi kvenna sem finna má á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki.
Veislur og mötuneyti vega þyngst
Múlakaffi hefur vaxið og þróast í takt við samfélagið og þó svo að ótal fastagestir fái sér reglulega snæðing í Hallarmúlanum segir Guðríður að veitingastaðurinn myndi aðeins í kringum 10% af veltunni.
„Veisluþjónustan, rekstur mötuneyta og ferðaþjónustan eru mun umfangsmeiri, en Múlakaffi sér um rekstur mötuneyta hjá stórfyrirtækjum og stofnunum víðsvegar um bæinn þar sem að jafnaði snæða um 2.000 manns dag hvern. Veisluþjónustan er árstíðabundin en mikið annríki á álagstímum eins og í kringum árshátíðir, jólahlaðborð, fermingar, útskriftir og þorrablót og nú síðast að töluverð eftirspurn hefur verið eftir veitingaþjónustu fyrir ferðamenn. Höfum við m.a. haldið veislur uppi á jöklum, inni í hellum og í sumum fegurstu náttúruperlum landsins.“
Í gegnum árin hefur Múlakaffi líka sérhæft sig í stærri veislum, s.s. árshátíðum stórfyrirtækja.
„Það eru spennandi áskoranir þar sem við vinnum náið með viðkomandi fyrirtækjum við að skapa einstaka matarupplifun sem í mörgum tilfellum er kjarninn í þema veislunnar,“ segir Guðríður.
Múlakaffi á og rekur Eldar Lodge í Úthlíð, sem er fimm stjörnu hótel og veitingastaður, einungis til einkaleigu. Töluverð dulúð ríkir yfir Eldar Lodge, en reglulega hafa landsmenn heyrt fréttir af erlendum stórstjörnum og fyrirmennum sem hafa notið lífsins á hótelinu. Múlakaffi er einnig hluthafi í Gleðipinnum ehf. sem á og rekur Keiluhöllina og Shake&Pizza í Egilshöll sem og Hamborgarafabrikkurnar þrjár, og er líka hluthafi í KH veitingum sem annast alla veitingastarfsemi í Hörpu.
Síðustu mánuði hefur borið á umræðu um að farið sé að hægja á veitingageiranum. Óttast sumir að bóla hafi verið blásin upp og loftið núna tekið að leka úr henni. Guðríður kveðst ekki verða vör við minnkandi aðsókn á veitingastaðnum eða í mötuneytunum, og þá sé ekki enn hægt að greina merki þess að dregið hafi úr áhuga á veisluþjónustunni. Aftur á móti finni Múlakaffi fyrir því, eins og aðrir veitingastaðir, að bæði hráefnisverð og laun hafa hækkað töluvert en Múlakaffi gangi mjög vel að halda í starfsmenn sína.
„Starfsmannaveltan er lítil og grunar mig að það megi að miklu leyti þakka honum pabba sem er ennþá mjög virkur í fyrirtækinu og hvetur samstarsfsfólk sitt áfram.“
Viðskiptavinurinn fær mikið fyrir peninginn
Áhugavert er að reyna að finna út hvað gæti skýrt velgengni Múlakaffis og það að fyrirtækið hafi lifað svona lengi. Dæmin sanna nefnilega að í veitingageiranum eru margir kallaðir en fáir útvaldir. Stundum virðist eins og í viku hverri megi lesa fréttir um að veitingastað hafi verið lokað og annar opnaður í staðinn.
Guðríður svarar að það hafi hjálpað að stjórnendur fyrirtækisins hafa ætíð reynt að sníða fyrirtækinu stakk eftir vexti, forðast að reyna að vaxa of hratt og að hafa alltaf svigrúm til að bregðast við þegar aðstæður í hagkerfinu hafa þróast til verri vegar. „Að sama skapi hafa pabbi og mamma alltaf lagt áherslu á að vandvirkni og vinnusemi séu þeir þættir sem skili árangri til lengri tíma litið, og ég er sammála því,“ segir Guðríður.
„Áherslurnar á veitingastaðnum Múlakaffi hafa líka haldist hér um bil þær sömu allt frá opnun; að bjóða upp á einfaldan, bragðgóðan og heimilislegan mat þar sem viðskiptavinurinn fær mikið fyrir peninginn. Á veitingastaðnum bjóðum við upp á þann mat sem Íslendingar eiga að venjast og kunna að meta, en í veisluþjónustu Múlakaffis gilda önnur lögmál og mun meiri fjölbreytni. Þar erum við nýjungagjörn og störfum með færustu kokkum landsins við að framreiða glæsilegan veislumat.“