ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2020.
523 Kemi ehf.
Stærðarflokkur Meðalstórt
Röð innan flokks 241
Aðsetur Reykjavík
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein - meginfl. Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum
Atvinnugrein - ítarfl. Heildverslun með efnavörur
Framkvæmdastjóri Hermann Sævar Guðmundsson
Eignir 277.980
Skuldir 187.121
Eigið fé 90.859
Eiginfjárhlutfall 32,69%
Á listanum öll ár? Nei
Fyrri ár á listanum 2011–2017
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Veltan vaxið um 70% á 4 árum

Hermann Guðmundsson framkvæmdastjóri Kemi.
Hermann Guðmundsson framkvæmdastjóri Kemi. mbl.is/RAX

Á árunum 2012 til 2014 bjó Hermann Guðmundsson í Bandaríkjunum og sinnti bæði innflutningi og útflutningi frá Íslandi. Það var tilbreyting frá hinum annasömu störfum sem hann hafði gegnt sem forstjóri N1 og Bílanausts áratuginn þar á undan.
En þá var aftur komið að kaflaskilum og í samfloti við gamlan samstarfsmann ákvað hann að leita að fyrirtæki til kaups á Íslandi. Fljótlega staðnæmdust þeir félagar við félagið Kemi og settu sig í samband við eigendur þess.

„Þetta var fyrirtæki sem starfaði í sama geira og við þekktum ágætlega, tengt iðnaðar- og bílavörum og tengdri starfsemi. Eftir nokkrar samningaviðræður varð úr að við keyptum félagið og í september 2014 tók ég við rekstrinum.“

Tóku við stöndugum rekstri

Hermann segir að það sem hafi heillað þá félagana við Kemi, fyrir utan eðli rekstursins, hafi verið sú staðreynd að fyrirtækið var vel rekið, hafði skilað hagnaði samfleytt um langt skeið, var nær skuldlaust og skipað mjög öflugu starfsfólki.
„Við sáum tækifæri í fyrirtækinu vegna þess að við vissum að tengsl okkar við mögulegan viðskiptamannahóp voru mikil og þekking okkar á markaðnum gat nýst við að auka markaðshlutdeild þess á þeim mörkuðum sem það sinnir.“

En sé Hermann fenginn til að útskýra nánar eðli starfseminnar kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós.

„Starfsemin er fjórskipt í mínum huga. Smurolíur og smurefni, m.a. mjög sérhæfð smurefni sem fólk veit almennt lítið um, t.d. til að smyrja lækningatæki, myndavélar eða jafnvel álver. Þar erum við að sinna mjög breiðri flóru. Svo seljum við bændum mjög mikið, sápur, sótthreinsivörur, vítamín og bætiefni. svo seljum við mikið af efnavörum, ýmisskonar sýrum, saltsýru, brennisteinssýru, maurasýru, svo dæmi séu tekin, sem eru aðallega hráefni fyrir iðnað af ýmsum toga. Svo erum við einnig öflug í sölu á öryggisvörum. Við erum með umboð fyrir 3M og erum að selja mikið af hjálmum, eyrna- og andlitshlífum og slíku. Það er allt lögskyld vara sem fyrirtæki þurfa að endurnýja reglulega.“

Sæki aukna markaðshlutdeild

Hermann segist sjá sóknarfæri á öllum ofangreindum sviðum. Og færin hafa reyndar verið nýtt til þessa enda fyrirtækið vaxið mikið frá því að hann tók við sem forstjóri þess.
„Veltan hjá okkur hefur aukist um 70% frá því að við keyptum félagið. Þessum vexti höfum við náð án þess að kaupa eitt einasta fyrirtæki á markaðnum og þá verður einnig að taka inn í dæmið að enginn þessara markaða hefur vaxið gríðarlega mikið þó vöxtur hafi sannarlega verið til staðar. Markaðshlutdeild okkar hefur einfaldlega vaxið og þar eigum við enn mikið inni að mínu mati. Sem dæmi má taka að á olíumarkaðnum erum við með um 7% hlutdeild svo það segir sig sjálft að tækifærin eru til staðar.“

Velta Kemi á síðasta ári nam ríflega 540 milljónum króna og hagnaðurinn tæpum 36 milljónum. En hann segir að aukin markaðshlutdeild og sterk rekstrarstaða hafi ekki náðst af sjálfu sér.

„Umboðin sem við erum með eru sterk en þau mátti nýta betur. Við höfum líka tekið til í vöruúrvalinu hjá okkur og aukið það. En við höfum líka náð betri samningum við erlenda birgja og það hefur gert okkur samkeppnishæfari.“

Hjá Kemi eru nú 12 starfsmenn og hefur fækkað um einn síðan í fyrra.
„Við erum í raun þrír á skrifstofunni, það er einn með fjármálin, ég er með öll innkaupin á minni hendi og svo erum við með einn sérfræðing á landbúnaðarsviði sem er landbúnaðartæknifræðingur. Tveir starfsmann sinna lagernum og svo erum við með 7 manns í sölunni, hér í verslun okkar á Tunguhálsi, í gegnum síma og svo á ferðum um landið. Það er algjört lykilatriði að vera sem næst viðskiptavinunum, heimsækja þá í heimabyggð og þess vegna erum við með menn sem fara um allt land í sölu og þjónustu.“

Allir geta afgreitt

En spurður út í hvaða atriði hann tiltaki helst þegar hann líti yfir vöxt síðustu ára og leggi mat á hvað skilað hafi hinum mikla árangri.
„Grunnurinn að velgengninni er án efa hugarfarið. Við sættum okkur ekki við að slumpast í gegnum daginn eða mánuðinn. Við vöndum til verka, undirbúum okkur vel áður en við leggjum af stað. Og ef það koma upp vandamál þá bregðumst við strax við til að forða frá tjóni eða skaða fyrir viðskiptavini okkar. Þá forðumst við líka að versla við erlend fyrirtæki sem ekki eru framúrskarandi. Það geta allir verið ódýrir en það að vera með frábært verð og góða vöru er áskorunin.“

Hermann tiltekur líka mikilvægi þess að sýna viðskiptavinunum áhuga.
„Það er t.d. alltof algengt að fólk sé að reyna að ná sambandi við fyrirtæki á okkar sviði þar sem símsvörun er afleit. Fólk hringir inn, þarf að velja 1,2 eða 3 og svo svarar enginn á hinum enda línunnar. Við lögðum kerfi af þessu tagi af um leið og við tókum við. Hér hringja símar á öllum borðum þegar viðskiptavinurinn hringir og fyrsti maður svarar. Sá sendir viðskiptavininn ekki áfram heldur sinnir erindi hans. Auðvitað er ákveðin sérhæfing innan fyrirtækisins en það hafa allir nægilega grunnþekkingu á vörunni til að sinna langflestum erindum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl