Framkvæmdir við risagróðurhús í Grindavík á næsta leiti

EsBro á nú í viðræðum um ívilnanir vegna nýfjárfestinga við …
EsBro á nú í viðræðum um ívilnanir vegna nýfjárfestinga við stjórnvöld, en vonast er til þess að framkvæmdir hefjist í næsta mánuði.

Framkvæmdir við 15 hektara gróðurhús, sem ætlað er undir tómatarækt nærri Grindavík, gætu hafist strax í næsta mánuði gangi allar áætlanir eftir, en um 50 manns munu vinna við framkvæmdina. Reiknað er með að henni verði lokið og gróðurhúsið tilbúið undir rekstur fyrir lok ársins, en þá verkefnið mun skapa um 120 störf hér á landi til frambúðar. Þetta segir Kristján Eysteinsson, starfsmaður hollenska fyrirtækisins EsBro og umsjónarmaður verkefnisins, en verið er að vinna að ívilnanasamningi við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið vegna framkvæmdarinnar.

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að nú sé í gangi kynning á breytingum á deiliskipulagi og að frestur til að gera athugasemdir renni út 16. janúar. Hann segir að væntanlega verði hægt að staðfesta breytinguna í lok janúar og þá geti framkvæmdir hafist strax í byrjun febrúar.

Orkusölusamningur á borðinu og unnið að ívilnunum

EsBro er hollenskt félag sem meðal annars hefur komið á fót sambærilegum verkefnum í Þýskalandi og Úkraínu. Það hefur sérhæft sig í fjárfestingu í matvælaiðnaðinum og þá sérstaklega í gróðurhúsum. Kristján segir að verið sé að leggja lokahönd á fjárfestingasamninga, en félagið er meðal annars í viðræðum við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið varðandi ívilnanir vegna nýfjárfestingar. Kristján sagði að þau mál muni væntanlega skýrast seinna í mánuðinum, en félagið er komið með endanleg drög að orkusölusamningi við HS orku upp á 32 megavött fyrir lýsingu og hitun í gróðurhúsunum. Enn á þó eftir að ganga frá samningum um tengimál við raforkudreifandann, en Kristján segir það aðeins vera tæknilegs eðlis.

Byggja á tvö 7,5 hektara gróðurhús, en á milli þeirra verður þrjú þúsund fermetra tengi- og þjónustubygging. Kristján segir að þar muni pökkun meðal annars fara fram. Stærð húsanna er mjög mikil, en þau munu þekja svipað stórt svæði og 20 fótboltavellir, eða 7,5% af stærð Seltjarnarness. Heildarkostnaður við uppbygginguna gæti numið á bilinu 5 til 6 milljörðum að sögn Kristjáns.

Mynd úr deiliskipulagi Grindavíkur sem sýnir lágflugsmynd af mögulegri byggingu.
Mynd úr deiliskipulagi Grindavíkur sem sýnir lágflugsmynd af mögulegri byggingu.
EsBro hefur reist gróðurhús að svipaðri stærð áður í Þýskalandi …
EsBro hefur reist gróðurhús að svipaðri stærð áður í Þýskalandi og Úkraínu.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK