Nauðasamningar föllnu bankanna, sem ekki taka mið af mögulegum neikvæðum áhrifum þeirra á greiðslujöfnuð, gætu valdið meiri skaða fyrir Ísland en áframhaldandi fjármagnshöft um nokkurt skeið.
Þetta kemur fram í nýrri greinargerð sem fjármála- og efnahagsráðherra hefur birt á vefsíðu ráðuneytisins.
Þar segir að mikilvægt sé því að nauðasamningarnir ýti undir stöðugleika og styðji við markmið um losun hafta. Samkvæmt lögum muni þurfa að taka búin til gjaldþrotaskipta ef nauðasamningar takast ekki.
Í greinargerðinni kemur fram að upphæð aflandskróna hafi numið 327 milljörðum króna í lok árs 2013, en stóð í 565 milljörðum króna í kjölfar hruns fjármálakerfisins árið 2008. Seðalbankinn hafi lækkað stöðu aflandskróna bæði með sérstökum viðskiptum og útboðum í samræmi við áætlun um afnám hafta frá mars 2011.
Þar segir jafnframt að áætlunin um afnám haftanna, sem unnið hafi verið eftir frá því í mars 2011, hafi fyrst og fremst miðað að því að draga úr áhættu tengdri aflandskrónum. „Á undanförnum misserum hafa stjórnvöld þó í auknum mæli horft til þess vanda sem skapast af uppgjöri hinna föllnu fjármálafyrirtækja.
Uppgjör þeirra án verulegra neikvæðra áhrifa á greiðslujöfnuð þjóðarbúsins er forsenda þess að hægt sé að losa gjaldeyrishöftin án óæskilegra áhrifa á efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika,“ segir í greinargerðinni.
„Áfram er þó stefnt að útboðum Seðlabanka Íslands til þess að losa um stöður óþolinmóðustu eigenda aflandskróna. Tilkynnt hefur verið um útboð í mars, maí, júní og september 2014,“ segir í greinargerðinni.
Fjárfestingaheimildir lífeyrissjóða eru til skoðunar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, en áður en höftum verður lyft að fullu verður litið til þess hvort setja skuli takmarkanir á aukningu erlendra eigna lífeyrissjóðanna líkt og Seðlabankinn hefur kallað eftir.
„Hér takast þó á sjónarmið um takmörkun á flæði frá landinu og skynsemi þess að sjóðirnir geti á ný byggt um alþjóðlegt eignasafn með dreifðri áhættu, enda felst í sjóðunum stærsti hluti sparnaðar íslensks almennings,“ segir í greinargerðinni.