Dyrunum að fyrstu Snæland Video sjoppunni, sem opnuð var í Furugrund árið 1985, verður lokað fyrir fullt og allt þann 15. september. Reyndar heitir hún ekki lengur Snæland Video, því „Video“ hefur verið fjarlægt úr nafninu þótt mynddiskarnir séu þar enn í bili.
Snæland Video í Furugrund er ein af sex Snælandsjoppum. Smári Vilhjálmsson stofnaði fyrirtækið árið 1985 og sér sonur hans, Pétur Ingiberg, um daglegan rekstur. „Þetta eru vissulega tímamót og svolítið leiðinlegt,“ segir Pétur. „Ég hef verið í Furugrundinni með pabba frá fyrsta degi,“ segir hann en bætir við að gaman verði að gera enn betur með hinar fimm verslanirnar.
Húsnæðið í Furugrund hefur verið selt og stendur nú til að breyta því í íbúðarhúsnæði. Pétur segir reksturinn hafa breyst gífurlega á undanförnum árum. „Frá árinu 1985 til 2009 var myndbandsleiga okkar helsta tekjulind. Árið 2009 fór hins vegar að hægja á því og á þessum fimm árum hafa tekjurnar dregist saman um níutíu prósent,“ segir hann. Snæland hefur þó lagað sig að nýjum tímum og einblínir nú á grillið og ísinn. Er hið nýja nafn og vörumerki liður í því.
Hann segir ekki ljóst hvort mynddiskarnir muni hverfa með öllu. „Við ætlum að sjá til og lækka verð á diskunum og sleppa gömlu myndunum. Þegar kvikmynd er orðin þriggja til fjögurra mánaða gömul setjum við hana bara í sölu. En það er allt í lagi að halda þessu í bili og við eigum gríðarlega margar myndir og nóg af plássi,“ segir hann. Nú er verið að selja allar kvikmyndirnar sem voru í Snælandi í Furugrund og segir Pétur það ganga mjög vel. „Þetta mokast alveg út og við erum farin að taka úr hinum búðunum.“
Pétur segir myndbandsmenninguna hafa breyst þegar fólk fór að hlaða niður kvikmyndum af Internetinu. Aðspurður hverjir það séu sem enn fari á myndbandsleigur segir hann flóruna koma á óvart. „Þetta er bara allur aldur. Ég hef reynt að sigta út hvaða hópur þetta er, en þetta eru bara allir hópar.“