Svara undanþágubeiðni bráðlega

Landsbankinn
Landsbankinn mbl.is/Hjörtur

Endanlegt svar Seðlabankans við undanþágubeiðni LBI, þrotabús gamla Landsbankans, er að vænta á allra næstu vikum. Vinnu miðar vel en ekki var hægt að afgreiða málið fyrir 1. október líkt og LBI fór fram á í fyrra bréfi frá 8. ágúst.

Þetta kemur fram í svarbréfi Seðlabankans sem birt var í dag

Beiðnin varðar undanþágu frá gjaldeyrishöftum vegna framlengingu skuldabréfs á milli gamla og nýja Landsbankans. Er undanþágan skilyrði framlengingarinnar. Skulda­bréfið sem hljóðar upp á 226 millj­arða var upp­haf­lega á gjald­daga árið 2018 en sam­komu­lag náðist í maí sl. um að færa hann aft­ur um átta ár og hafa hann árið 2026 í staðinn. 

Samþykki Seðlabanka og stjórnvalda

Sam­kvæmt breyt­ing­um sem gerðar voru á lög­um um gjald­eyr­is­mál í mars 2013 eru all­ar und­anþágur frá höft­um sem eru að hærri fjár­hæð en 25 millj­arðar háðar sam­ráði Seðlabank­ans við fjár­málaráðherra og að und­an­geng­inni kynn­ingu á efna­hags­leg­um áhrif­um fyr­ir efna­hags- og viðskipta­nefnd Alþing­is. Þá seg­ir í gjald­eyr­is­lög­um að við mat á und­anþágu skuli líta til þess „hvaða af­leiðing­ar tak­mark­an­ir á fjár­magns­hreyf­ing­um hafa fyr­ir um­sækj­anda, hvaða mark­mið eru að baki tak­mörk­un­um og hvaða áhrif und­anþága hef­ur á stöðug­leika í geng­is- og pen­inga­mál­um.“

Jákvætt fyrir fjármálastöðugleika

Sigríður Benediktsdóttir, forstöðumaður Fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans hefur áður sagt að fram­leng­ingin gegn­i lyk­il­hlut­verki fyr­ir fjár­mála­stöðug­leika á Íslandi en til þess að af fram­leng­ing­unni geti orðið þurfa stjórn­völd hins vegar einnig að fall­ast á að veita LBI undanþágurnar. Af viðbrögðum stjórnvalda að dæma hefur hugmyndin ekki hlotið náð fyrir þeirra eyrum.

Í fyrra svarbréfi Seðlabankans frá júlí segir að samningur LBI og Landsbankans feli í sér lækkun á næstu árum á greiðslubyrði innlendra aðila á gjaldeyrisskuldum við bú fallinna banka. Jafnframt bæti hann fjármögnun Landsbankans og auki líkurnar á því að Landsbankinn öðlist aðgang að erlendum lánamörkuðum á viðráðanlegum kjörum. „Það yrði jákvætt framlag til lausnar greiðslujafnaðarkreppu Íslands og gæti um leið flýtt endurheimtum í búi LBI,“ segir í svarbréfinu.

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK