Endanlegt svar Seðlabankans við undanþágubeiðni LBI, þrotabús gamla Landsbankans, er að vænta á allra næstu vikum. Vinnu miðar vel en ekki var hægt að afgreiða málið fyrir 1. október líkt og LBI fór fram á í fyrra bréfi frá 8. ágúst.
Þetta kemur fram í svarbréfi Seðlabankans sem birt var í dag
Beiðnin varðar undanþágu frá gjaldeyrishöftum vegna framlengingu skuldabréfs á milli gamla og nýja Landsbankans. Er undanþágan skilyrði framlengingarinnar. Skuldabréfið sem hljóðar upp á 226 milljarða var upphaflega á gjalddaga árið 2018 en samkomulag náðist í maí sl. um að færa hann aftur um átta ár og hafa hann árið 2026 í staðinn.
Samkvæmt breytingum sem gerðar voru á lögum um gjaldeyrismál í mars 2013 eru allar undanþágur frá höftum sem eru að hærri fjárhæð en 25 milljarðar háðar samráði Seðlabankans við fjármálaráðherra og að undangenginni kynningu á efnahagslegum áhrifum fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Þá segir í gjaldeyrislögum að við mat á undanþágu skuli líta til þess „hvaða afleiðingar takmarkanir á fjármagnshreyfingum hafa fyrir umsækjanda, hvaða markmið eru að baki takmörkunum og hvaða áhrif undanþága hefur á stöðugleika í gengis- og peningamálum.“
Sigríður Benediktsdóttir, forstöðumaður Fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans hefur áður sagt að framlengingin gegni lykilhlutverki fyrir fjármálastöðugleika á Íslandi en til þess að af framlengingunni geti orðið þurfa stjórnvöld hins vegar einnig að fallast á að veita LBI undanþágurnar. Af viðbrögðum stjórnvalda að dæma hefur hugmyndin ekki hlotið náð fyrir þeirra eyrum.
Í fyrra svarbréfi Seðlabankans frá júlí segir að samningur LBI og Landsbankans feli í sér lækkun á næstu árum á greiðslubyrði innlendra aðila á gjaldeyrisskuldum við bú fallinna banka. Jafnframt bæti hann fjármögnun Landsbankans og auki líkurnar á því að Landsbankinn öðlist aðgang að erlendum lánamörkuðum á viðráðanlegum kjörum. „Það yrði jákvætt framlag til lausnar greiðslujafnaðarkreppu Íslands og gæti um leið flýtt endurheimtum í búi LBI,“ segir í svarbréfinu.