Svona er fyrsti íslenski bíllinn

Frumgerð bílsins verður framleidd þegar fjármagns hefur verið aflað.
Frumgerð bílsins verður framleidd þegar fjármagns hefur verið aflað. Mynd/Ísar

Fyrsti íslenski fjöldaframleiddi bíllinn er jafnframt fyrsti bíllinn sem er sérstaklega hannaður fyrir utanvega- og óbyggðaakstur. Lokahönnun hans er nú ljós og verður framleiðsla hafin þegar fjármagns hefur verið aflað. Bíllinn er hannaður með þarfir ferðaþjónustu og björgunarsveita í huga.

Bílarnir ganga undir heitinu Ísar, sem einfaldlega er fleirtalan af orðinu ís, og kallast þessi tiltekna tegund Ísar Torveg.

Í þremur stærðum

„Þetta er fyrsti bíllinn í heiminum sem er hannaður frá grunni fyrir óbyggðirnar, hannaður með þessa dekkjastærð í huga og þessa getu,“ segir Bjarni Hjartarson, hönnuður Ísar Torveg og bætir við að hingað til hafi þurft að breyta bílum fyrir þessar aðstæður. Hann segir helsta kostinn við það að hanna bílinn sérstaklega fyrir þessa dekkjastærð vera að hægt sé að nýta alla breiddina á bílnum fyrir farþega þannig að innra rýmið sé að fullu nýtt og bíllinn þannig rúmbetri og þægilegri fyrir farþega.

Bíllinn verður framleiddur í þremur mismunandi stærðum; fernra dyra, sex dyra og átta dyra. Pláss verður fyrir fjóra farþega í öllum röðum utan þeirrar fremstu þar sem þrír geta setið.

Huga að hagkvæmni og möguleika

Bjarni segist hafa unnið innan mjög þröngs ramma varðandi möguleika og hagkvæmni fyrir íslenska framleiðslu. „Ég gat ekki hannað hvaða form sem er. Ég varð að huga að því og vita hvað væri mögulegt að gera og það var helsta áskorunin - að búa til flott og sérstakt útlit sem jafnframt væri mögulegt að framleiða á Íslandi,“ segir hann.

Ari Arn­órs­son, eigandi Jakka ehf., framleiðanda bílanna segir ótímabært að segja hversu mikið bíllinn kosti í framleiðslu en bendir þó á að fullbreyttur Mercedes Benz sendiferðabíll kosti nálægt 25 milljónum og séu þeir ekki ósamkeppnishæfir.

Hægt að selja hvar sem er

Hann segir einhverja hreyfingu komna á fjármögnun verkefnisins og viðræður séu í gangi við nokkra aðila. Bíllinn er hannaður samkvæmt Evrópureglum og verður því hægt að selja hann hvar sem er í heiminum en Ari segir íslenskar aðstæður vera víðar en á Íslandi. „Úti um allan heim er verið að fara með fólk í ferðir um vonda eða jafnvel enga vegi og eru þetta fyrstu farartækin sem hönnuð eru sérstaklega fyrir það,“ segir Ari.

Frétt mbl.is: Bílaframleiðsla hefst á Íslandi

Bíllinn er sérstaklega hannaður fyrir óbyggðir.
Bíllinn er sérstaklega hannaður fyrir óbyggðir. Mynd/Ísar
Bíllinn verður í þremur mismunandi stærðum.
Bíllinn verður í þremur mismunandi stærðum. Mynd/Ísar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK