Hingað til hefur humar, kavíar og hjartarkjöt verið munaðarvara og ekki á færi allra að kaupa slíkt fæði. En vegna offramboðs á kanadískum humar eru breskar smásölukeðjur farnar að bjóða frosinn humar á verði sem sjaldan hefur sést áður þar í landi.
Bæði Asda og Iceland bjóða nú frosinn heilan humar á fimm pund, 970 krónur, og Lidl selur hann á 5,99 pund, samkvæmt frétt Metro.
Verðlækkunin hefur skilað sér en í fyrra fluttu Bretar inn 2600 tonn af humar samanborið við 1900 tonn árið 2009.
Forstjóri Iceland, Malcolm Walker, tjáði sig nýverið um humarstríðið við Guardian og segir hann að það sé ekkert öðru vísi en önnur stríð á matvörumarkaði. Ekki sé um annað að ræða en þegar keppt væri um verð á mjólk og brauði.
Walker segir að humar sé ekki sú vara sem þú ert vanur að selja á þessu verði og þetta hafi náð athygli neytenda. „Margt fólk sem hefur aldrei smakkað humar áður getur nú keypt hann og bragðað á.“