Innréttingum gert hátt undir höfði

Skólavörðustígur 21
Skólavörðustígur 21 mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Gert er ráð fyrir að gömlu innréttingarnar í Fatabúðinni að Skólavörðustíg 21 verði hluti af veitingastaðnum Krua Thai að sögn Orra Árnasonar, arkitekts hjá Zeppelin arkitektum, sem sér um endurskipulagningu húsnæðisins. „Það var tekin ákvörðun um að reyna halda eins mikið í innréttingarnar og hægt væri og gera þeim hátt undir höfði,“ segir Orri.

Mbl greindi frá því í nóvember að Sonja Lampa, eig­andi veit­ingastaðar­ins Krua Thai, hefði fest kaup á húsinu þar sem hún hyggst opna Krua Thai á jarðhæðinni auk þess sem íbúðum á efri hæðum húss­ins verður mögu­lega breytt í gisti­heim­ili. Stefnt er að opnun veitingastaðarins næsta sumar en hann verður á jarðhæðinni þar sem í dag eru verslanirnar Fatabúðin og Insula.

Viðræður hafa þá staðið yfir milli Minja­stofn­un­ar og eig­anda um vernd­un inn­rétt­ing­anna sem eru frá árinu 1947.

Miklar breytingar

Orri segir miklar breytingar verða á húsinu á jarðhæð og í kjallara en ytra byrði hússins verður að líkum óbreytt utan mögulegra svala á bakhlið hússins. Hann telur að hönnunarvinnunni muni ljúka á næstunni og vonast til þess að geta lagt tillögurnar inn til byggingarfulltrúa í vikunni.

Þá segist hann ánægður með niðurstöðuna um verndun innréttinganna. „Ég tel að þetta geti komið veitingastaðnum til góðs,“ segir Orri.

Stofn­andi Fata­búðar­inn­ar byggði húsið

Fata­búðin var opnuð í hús­inu árið 1927 þegar stofnað var úti­bú á Skóla­vörðustíg, en höfuðstöðvar versl­un­ar­inn­ar voru þá í Hafn­ar­stræti 16. Til skamms tíma var versl­un­in því rek­in á báðum stöðum. Verslunin Skyrta er í húsnæðinu í dag en eigendur hennar gerðu innréttingarnar upp er þeir opnuðu.

Fyrsta hæð húss­ins að Skóla­vörðustíg 21a var byggð árið 1927 en ofan á húsið var byggt árið 1936. Það var Guðríður Árna­dótt­ir Bramm sem lét byggja húsið en hún stofnaði Fata­búðina og var hún rek­in í fjöl­skyldu henn­ar allt til 1955. Guðríður var þar að auki þekkt at­hafna­kona og hafði áður rekið versl­un á Ísaf­irði og lét meðal ann­ars byggja stór­hýsið Fell þar í bæ sem brann í stór­um elds­voða á fimmta ára­tugn­um.

Eigendur Skyrtu héldu í upprunalegar innréttingar frá árinu 1947.
Eigendur Skyrtu héldu í upprunalegar innréttingar frá árinu 1947. Mynd af vefsíðu Skyrtu.is
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK