Ekkert fékkst greitt upp í 42,5 milljóna kröfur í þrotabú félagsins X-2121 ehf., sem áður hét Útvarp Saga ehf. Skiptum var lokið hinn 13. mars en félagið var úrskurðað gjaldþrota 10. desember sl.
Arnþrúður Karlsdóttir, eigandi og ábyrgðarmaður Útvarps Sögu, var eigandi félagsins og breytti nafni þess í september á síðasta ári. Rekstur útvarpsstöðvarinnar er nú í félaginu SagaNet ehf., sem var stofnað í febrúar á síðasta ári. Það er einnig í eigu Arnþrúðar.
Í samtali við mbl.is segir Arnþrúður að fjármálahrunið hafi farið illa með félagið. „Hvað varð þess valdandi? Það er búið að vera hrun á Íslandi. Við erum búin að tapa gríðarlegum kröfum en við höfum ekki getað fengið skuldir okkar afskrifaðar,“ segir Arnþrúður og bætir við að fjölmargir viðskiptavinir Útvarps Sögu hafi ekki lifað hrunið af. „Þetta eru keðjuverkandi þættir sem eiga sér einhverra ára aðdraganda.“
Þá útskýrir Arnþrúður að fjölmiðlanefnd hefði innkallað öll útvarpsleyfi í upphafi síðasta árs vegna nýrra fjölmiðlalaga og að Útvarp Saga hafi staðið frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort sækja ætti um nýtt leyfi í nafni gamla félagsins eða stofna nýtt.
Aðspurð hvort reksturinn gangi betur í dag nú þegar hann er kominn yfir í SagaNet ehf. segir hún félagið vera með víðtækari starfsemi og bendir á að tekjumöguleikar gamla félagsins hafi verið skertir og einungis falist í sölu auglýsinga vegna útvarpsleyfisins.
Aðspurð um form hinnar nýju víðtækari starfsemi segir hún það vera hálfgert hernaðarleyndarmál enn sem komið er en bætir þó við að einhver áhersla verði lögð á myndbönd.
„Fólk gefur öllu nafn og ég nenni ekki einu sinni að skipta mér af því,“ segir Arnþrúður aðspurð hvort þetta megi telja til svokallaðs kennitöluflakks. „Ef ég ætlaði að hafa útvarpsleyfi varð ég að stofna félag og vera með víðtækari starfsemi,“ segir hún.
Ekki náðist í skiptastjóra þrotabúsins við vinnslu fréttarinnar.