Það eru sérstakar rukkanir móðurfélaga IKEA og færsla þeirra fjármuna í skattaskjól sem flokkast sem skattaundanskot en ekki gjörðir rekstraraðila verslana á Íslandi eða öðrum löndum.
Þetta tekur Eva Joly fram í tilkynningu, en mbl.is og Morgunblaðið hafa fjallað um skýrslu Græningja á Evrópuþinginu þar sem farið er ofan í saumana á uppbyggingu samsteypunnar og hvernig móðurfélagið færir hagnað úr dótturfélögum með að krefja þau um einkaleyfisgjöld af allri sölu.
Segir Joly að það hafi ekki verið ætlun hennar að ráðast gegn IKEA á Íslandi sérstaklega, enda séu ekki nákvæm gögn fyrirliggjandi um greiðslur héðan til móðurfélagsins. Segir hún móðurfélags eignarhaldsfélögin IKEA Group og Inter IKEA Group krefja rekstaraðila um þessar sérstöku greiðslur og færi þannig hagnaðinn af rekstrinum víða um heim til Hollands, Lichtenstein, Belgíu og Lúxemborg.
Joly segir að sem betur fer sé vitundarvakning varðandi skattaundanskot og skattatilfærslu í skattaskjól að aukast og umræðan um lélega skattalöggjöf á stór fyrirtæki sé að færast ofarlega í pólitískri umræðu. Segir hún það vera skyldu stjórnmálamanna að hafa skatta þannig að jafnræðis sé gætt og að alþjóðleg fyrirtæki geti ekki fært hagnaðinn milli landa til að komast undan greiðslum.
Segir hún tíma til kominn að stoppa þessar skattatilfærslur hjá fyrirtækjum eins og Facebook, Apple, Google, Alcoa og IKEA.