Heilsugæsla fjármögnuð eftir gæðum

Stefnt er að því að auka samkeppni í rekstri heilsugæslustöðva.
Stefnt er að því að auka samkeppni í rekstri heilsugæslustöðva. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Endurbætur sem eiga að gjörbreyta starfsumhverfi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu voru kynntar í morgun en viðamesta breytingin snýr að breyttri fjármögnun. Fjármögnun þeirra verður skipt í tvennt, annars vegar fasta og hins vegar breytilega sem ræðst m.a. af gæðum þjónustunnar.

Unnið er að prófun fjármögnunarlíkansins hjá Sjúkratryggingum Íslands og standa vonir til þess að innleiða það um mitt ár. Breytingarnar eru allar gerðar á grundvelli núgildandi laga.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, kynnti breytingarnar á fundi í Hannesarholti í morgun. Horft var til þess besta sem gerist á Norðurlöndunum að sögn Kristjáns og er þessu nýja fjármögnunarlíkani ætlað að auka gagnsæi við ráðstöfun fjármuna. Þá verði til bæði faglegir og fjárhagslegir hvatar sem ekki eru til staðar í núverandi fyrirkomulagi.

Fjölga heilsugæslum

Í dag eru reknar 17 heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Fimmtán þeirra eru reknar af hinu opinbera og tvær af einkaaðilum, heilsugælurnar í Salahverfi og Lágmúla.

Stefnt er að því að fjölga rekstaraðilum heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu um þrjá á þessu ári og hefur Sjúkratryggingum Íslands verið falið að auglýsa eftir rekstraraðilum. Krafa er gerð um að rekstur heilsugæslustöðvar verði annaðhvort á hendi opinberrar stofnunar eða félags sem stofnað er um rekstur viðkomandi stöðvar. Kristján benti í morgun á að íbúum höfuðborgarsvæðisins hefði fjölgað um 20 þúsund á sl. 10 árum en engin ný heilsugæsla hefur bæst við.

Ekki verður um eiginlegt útboð að ræða heldur verður fremur horft til gæða en verðs. Staðsetning þeirra mun þá einfaldlega ráðast af eftirspurn. 

Skapa samkeppni

Fjárveiting til heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er 6.091,4 milljónir króna samkvæmt fjárlögum 2016. Lýðfræðilegir þættir, eðli þjónustunnar og gæði hennar hafa ekki bein áhrif á dreifingu fjárheimilda.

Að sögn Kristjáns hefur heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu ekki verið gert kleift að sinna hlutverki sínu til fulls og hefur það leitt til þess að sjúklingar hafa leitað í dýrari úrræði, á hærra þjónustustigi í stað þess að fá viðeigandi úrræði hjá heilsugæslu sinni. 

„Með fyrirliggjandi endurbótum á heilsugæslunni erum við að skapa samkeppni á sviði heilsugæslurekstrar og þannig að auka val sjúklinga,“ segir Kristján. Sjúklingar geta skráð sig á þá stöð sem uppfyllir þeirra þjónustukröfur hvar sem er á höfuðborgarsvæðinu

Í stuttu máli gengur þessi breytta fjármögnun út á það að fjármagn til hverrar stöðvar á að endurspegla þann sjúklingahóp sem viðkomandi stöð þjónar.

Í umdæmi heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er fyrir hendi opinber rekstur heilsugæslu og einkarekstur. Opinberi reksturinn fær föst fjárframlög frá ríkinu en hinar eru reknar á grundvelli samninga við ríkið. Breytingin mun hafa það í för með sér að sama forskrift að fjármögnun verður alls staðar, óháð rekstrarformi.

Fast fjármagn 90%

Fast fjármagn til rekstrar heilsugæslustöðva nemur u.þ.b 90% af heildarfjármagni. Fjármagninu verður dreift eftir fjölda og einkennum einstaklinga sem skráðir eru á stöðina.

Dæmi um þetta er aldur, kyn og sjúkdómsbyrði en einnig félagslegir þættir á borð við atvinnuleysi, hlutfall barna yngri en fimm ára, hlutfall einstæðra foreldra, hlutfall aldraðra sem búa einir, fjölda öryrkja, fjölda nýbúa o.fl.

Þessir þættir búa til margfeldi eða nokkurs konar vísitölu sem hefur áhrif á heildargreiðslur við fjármögnun á rekstri stöðvarinnar. Stöð fær sem sagt meira greitt fyrir sjúkling sem er aldraður og með þunga sjúkdómsbyrði heldur en vegna einstaklings á besta aldri og almennt við góða heilsu.

Breytilegur hluti 10% 

Breytilegur hluti fjármögnunarinnar, 10%, ræðst síðan af þáttum sem snúa að gæðum veittrar þjónustu, og félagslegum þáttum að hluta, á viðkomandi stöð, sem lagt er mat á samkvæmt fyrir fram skilgreindum mælikvörðum.

Þar verður m.a. horft til framkvæmdar á skráningu heilbrigðisupplýsinga, reglubundinnar skoðunar og endurmats á lyfjanotkun aldraðra og að hve miklu leyti fólk heldur tryggð við heilsugæslustöðina þar sem það er skráð.

Óheimilt verður að taka arð út úr rekstri heilsugæslustöðva. Ávinning af rekstri skal nýta til úrbóta og uppbyggingar í þágu notenda þjónustunnar.

Kristján Þór Júlíusson.
Kristján Þór Júlíusson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Heilsugæslurnar á höfuðborgarsvæðinu eru í dag 17 talsins en ætlunin …
Heilsugæslurnar á höfuðborgarsvæðinu eru í dag 17 talsins en ætlunin er að fjölga þeim um þrjár. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK