Nýjasta plata Beyoncé, Lemonade, hefur tröllriðið netheimum á síðasta sólarhring og var í fyrstu einungis aðgengileg á tónlistarveitunni Tidal sem er aðallega í eigu eiginmanns hennar Jay-Z.
Platan rauk upp vinsældarlistann á Tidal og vinsældir Tidal-appisins jukust samhliða því. Nánast samstundis og Lemonde kom út skaust appið úr 202. sæti á lista yfir mest sóttu öppin í Bandaríkjunum. Klukkutíma síðar sat það í 24. sæti og tveimur stundum síðar var það í þriðja sæti og situr þar enn. Einungis Snapchat og vinsæli leikurinn Slither sitja þar ofar.
Notendur geta streymt plötunni á Tidal eða keypt hana fyrir 17,99 dollara, eða 2.200 krónur.
Plötuna er hins vegar núna einnig hægt að kaupa á iTunes.
Það gæti komið einhverjum spánskt fyrir sjónir að plata Beyoncé skuli koma Jay-Z svona vel sökum þess að textar flestra laganna þykja bera skýrar vísanir í framhjáhald eiginmannsins.
Jay-Z keypti sænska fyrirtækið Aspiro fyrir 56 milljónir dollara á síðasta ári en fyrirtækið er eigandi tónlistarveitunnar Tidal. Fleiri hlutahafar bættust síðar við og má þar nefna Rihönnu, Madonnu, Kanye West og sjálfa Beyoncé, sem þó á mun minni hlut en eiginmaðurinn.