Greiningardeild Arion-banka spáir óbreyttum vöxtum þegar vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands verður tilkynnt í næstu viku. Verðbólga mælist nú 1,1% og spáir greiningardeildin því að hún lækki niður í 0,8% í ágúst, eða undir neðri vikmörk verðbólgumarkmiðs og langt frá spám Seðlabankans, sem núverandi vaxtastig byggist á.
Horfur eru á að verðbólgan verði undir markmiði vel fram á næsta ár a.m.k. og því er reiknað með talsvert breyttum tón peningastefnunefndar. Greiningardeildin metur að líkurnar á vaxtalækkun séu meiri en líkurnar á vaxtahækkun sökum þess að lítið bóli á boðuðum verðbólguþrýstingi, krónan sé í styrkingarfasa og verðbólguhorfur séu hagstæðar til skamms tíma. Reiknað er með því að peningastefnunefndin boði breytta stefnu í gjaldeyrisinngripum sem miðar að því að þau verði minni.
Frá lokum síðasta árs hefur framsýn leiðsögn peningastefnunefndar verið nær óbreytt. Hinn 9. desember sl. sagði í yfirlýsingu peningastefnunefndar: „Sterkari króna og hagstæðari alþjóðleg verðlagsþróun hafa veitt svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt. Það breytir hins vegar ekki því að miðað við spá Seðlabankans frá því í nóvember er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni.“
Í byrjun júní sagði svo nefndin: „Alþjóðleg verðlagsþróun og sterkari króna hafa veitt svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt... Það breytir hins vegar ekki því að miðað við spá Seðlabankans frá fyrri hluta maímánaðar er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni.“
Í Markaðspunktum greiningardeildarinnar segir að ljóst sé að líkurnar á að auka þurfi aðhald séu umtalsvert minni en áður sökum hagstæðrar verðbólguþróunar sem byggist á lítilli innfluttri verðbólgu og gengisstyrkingu krónunnar.
Svo virðist sem þessir þættir hafi meira en vegið upp á móti launahækkunum síðustu mánaða, auk þess sem fyrirtækin í landinu hafa tekið launahækkanirnar á sig í meiri mæli en reiknað var með. Verðbólguhorfur næstu 18 mánuði hafa því batnað til muna og virðist sem verðbólguþrýstingur vegna nýlegra kjarasamninga fari dvínandi.
Þegar horft er fram á við er útlit fyrir að frekari lækkun sé á innfluttum vörum og má sem dæmi nefna 3% til 6% lækkun á innfluttum bílum nú í ágúst. Ef áform stjórnvalda um að fella niður alla aðra tolla en þá sem leggjast á tiltekin matvæli í ársbyrjun 2017 ganga eftir getur það einnig haft jákvæð áhrif á verðbólguþróun, en í fjárlagafrumvarpinu 2016 var gert ráð fyrir að slík aðgerð gæti lækkað vísitölu neysluverðs um 1%.
„Batnandi verðbólguhorfur endurspeglast líka í lækkun verðbólguálags á skuldabréfamarkaði og er það merki um vaxandi kjölfestu verðbólguvæntinga. Raunvaxtastig hefur því hækkað hvort sem litið er til nafnvaxta að frádreginni verðbólgu eða verðbólguvæntinga og vekur það upp spurningu hvort aðhald peningastefnunnar sé of mikið um þessar mundir,“ segir í markaðspunktunum.
Bent er á að undanfarin misseri hafi Seðlabankinn stækkað gjaldeyrisforða sinn hratt í hverjum mánuði og t.a.m. námu gjaldeyriskaup bankans 47 milljörðum króna í júlí, sem að óbreyttu ætti að þýða veikara gengi, en raunin var sú að gengið styrktist um 3% gagnvart evru í júlímánuði. Svipuð þróun hefur verið í yfirstandandi mánuði, og þann 10. ágúst hafði bankinn keypt erlendan gjaldeyri fyrir um 8 milljarða króna.
„Eins og við höfum oft bent síðustu mánuði þá eru frekar líkur á að krónan styrkist á næstunni heldur en að hún veikist, einkum eftir að búið er að girða fyrir möguleg neikvæð gengisáhrif af aflandskrónum og slitabúum föllnu bankanna. Það mat hefur í megin atriðum ekki breyst þó að krónan hafi nú þegar styrkst í sumar og eigi inni minni styrkingu. Einn stærsti óvissuþátturinn hvað gengi krónunnar varðar er nú losun hafta á innlenda aðila en ef sú losun fer fram í nokkrum skrefum og er vel útfærð verða áhrifin á gengi krónunnar lítil,“ segir í Markaðspunktum en lesa má þá í heild sinni hér.