Verðbréfafyrirtækið Fossar markaðir hf. opnar skrifstofu í Stokkhólmi og hefur ráðið Andra Guðmundsson til að leiða uppbyggingu félagsins á Norðurlöndum. Fossar markaðir hóf starfsemi fyrir ári síðan á innlendum markaði og er leiðandi í þjónustu við erlenda aðila á Íslandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
„Við sjáum mikil tækifæri í því að hefja starfsemi utan Íslands á þessum tímapunkti. Stór skref í afnámi hafta eru handan við hornið og Ísland verður virkari þátttakandi á alþjóðlegum fjármálamörkuðum,“ er haft eftir Haraldi I. Þórðarsyni framkvæmdastjóra félagsins í tilkynningunni.
„Í Stokkhólmi munum við sinna bæði erlendum fjárfestum sem hyggja á fjárfestingar á Íslandi og íslenskum fjárfestum og fyrirtækjum sem hafa hug á að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem fylgja afnámi hafta,“ er haft eftir Andra sem er búsettur í Svíþjóð og hefur verið í stjórn Fossa markaða á Íslandi.
„Við höfum unnið markvisst að undirbúningi undanfarið ár og erum nú vel á veg komin. Við stefnum á formlega opnun skrifstofunnar með haustinu, þegar formskilyrði hafa verið uppfyllt.“
Skrifstofa Fossa markaða í Stokkhólmi verður staðsett í hjarta borgarinnar á Biblioteksgatan númer 25 og mun starfa undir nafninu Fossar Markets AB.
Fossar hafa nýverið aukið áherslu á alþjóðlega starfsemi félagsins m.a. með ráðningu Önnu Þorbjargar Jónsdóttur sem leiðir nú uppbyggingu á miðlun erlendra fjárfestinga. Með opnun skrifstofu í Stokkhólmi er tekið annað skref í átt að aukinni þjónustu til viðskiptavina sem huga að viðskiptum á erlendri grundu.
Fossar markaðir hf. er óháð verbréfafyrirtæki sem þjónustar innlenda og erlenda fagfjárfesta á sviði verðbréfamiðlunar. Félagið er aðili að Nasdaq Iceland kauphöllinni og veitir alhliða þjónustu í tengslum við verðbréfaviðskipti á innlendum og alþjóðlegum fjármálamörkuðum.