Dregur úr spennu á vinnumarkaði

Líklegt er er að dregið hafi úr spennu á vinnumarkaði, m.a. vegna þess að þróun kaupmáttar hafi verið það góð að launafólk telji ekki nauðsynlegt að fjölga vinnustundum til að auka tekjur.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Þar segir að nýjar tölur Hagstofunnar um stöðuna á vinnumarkaði í desember sýni svipaða þróun og hafi verið síðustu mánuði, þ.e.a.s. að það dragi úr spennunni. Sú staða geti verið merki um að hagsveiflan hafi náð hámarki.

Bent er á að eftir langvarandi fjölgun starfandi fólks á vinnumarkaði hafi fjöldinn haldist nokkuð stöðugur síðustu mánuði sé miðað við meðaltal síðustu 12 mánaða. Störfum sé því ekki að fjölga eins mikið og hafi verið.

Meðalvinnutími hafi heldur verið að styttast sé miðað við 12 mánaða meðaltal. Meðalfjöldi vinnustunda hafi verið mjög stöðug stærð í langan tíma, í kringum 40 stundir á viku og breytingar því ekki miklar.

„„Þegar starfandi fólki fækkar samtímis því að meðalvinnutími minnkar er afleiðingin sú að unnum vinnustundum í hagkerfinu fækkar sem er ágætis vísbending um stöðu hagsveiflunnar. Ef landsframleiðslan heldur áfram að aukast en vinnustundum ekki kann þessi staða einnig að vera vísbending um aukna framleiðni eða mælivanda í fjölda vinnustunda og hugsanlega aukna svarta atvinnustarfsemi. Líklegt er að dregið hafi úr spennu á vinnumarkaði, m.a. vegna þess að þróun kaupmáttar hafi verið það góð að launafólk telji ekki nauðsynlegt að fjölga vinnustundum til að auka tekjur,“ segir í Hagsjá.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK