Fengu 85 milljónir í álagsgreiðslur

mbl.is/Eggert

Fjármálaeftirlitið hefur haft til athugunar hvort Landsbankinn hafi brotið gegn lögum um fjármálafyrirtæki og reglna um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja með því að hafa á árunum 2014 til 2016 greitt hluta af starfsmönnum sínum aukagreiðslur sem komu til viðbótar föstum launum þeirra. Samtals nemur þetta 85 milljónum króna. 

<a href="https://www.fme.is/media/gagnsaei/Gagnsaei-Landsbankinn-05042018.pdf" target="_blank">Það var niðurstaða FME </a>

að Landsbankinn hefði ekki sýnt fram á að tilteknar aukagreiðslur gætu talist til fastra starfskjara, þar sem endanleg fjárhæð eða umfang lá ekki fyrir með nákvæmum hætti fyrir fram, og þær hafi því falið í sér kaupauka. Þá lá fyrir að Landsbankinn var ekki með kaupaukakerfi í skilningi laga og greiðslurnar voru því ekki inntar af hendi á grundvelli slíks kerfis. „Landsbankinn hefði þar af leiðandi brotið gegn 57. gr. a fftl., 3. gr. reglna nr. 700/2011 og 3. gr. reglna nr. 388/2016, um kaupaukakerfi, með því að hafa á árunum 2014 til 2016 greitt hluta af starfsmönnum sínum aukagreiðslur sem komu til viðbótar föstum launum þeirra án þess að það hafi verið gert á grundvelli kaupaukakerfis.“

FME komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að beita viðurlögum vegna brotsins. Þá er það mat stofnunarinnar að bankinn hefði þegar gripið til fullnægjandi úrbóta.

Hvorki bankastjórar né framkvæmdastjórar fengu álagsgreiðslur

Fram kemur á vef Landsbankans, að heildarfjárhæð álagsgreiðslnanna hafi numið 85 milljónum króna á þriggja ára tímabili. Greiðslurnar runnu til 76 starfsmanna á öllum sviðum bankans. Hvorki bankastjóri né framkvæmdastjórar hjá bankanum fengu álagsgreiðslur.

Í tilkynningu Landsbankans segir, að starfsfólk bankans sé í flestum tilvikum á svonefndum fastlaunasamningum, þ.e. starfsfólk fái föst laun og fái ekki greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu.

„Í mörgum tilvikum þarf starfsfólk að vinna töluvert umfram hefðbundinn vinnutíma og öllu jöfnu er litið svo á að sú vinna rúmist innan ákvæða fastlaunasamninga. Það var mat þeirra stjórnenda bankans sem tóku ákvörðun um greiðslurnar að heimilt hefði verið að inna af hendi greiðslur vegna tímabundins vinnuálags sem væri umfram það sem eðlilegt væri að gera ráð fyrir á grundvelli þeirra ráðningarsamninga og föstu mánaðarlauna sem starfsmennirnir bjuggu við. Greiðslurnar voru ekki skilgreindar með tilliti til árangurs og juku ekki áhættutöku í starfsemi bankans. Eftir athugun innan bankans vorið 2017 var hins vegar ákveðið að greina Fjármálaeftirlitinu frá álagsgreiðslunum og í kjölfarið hóf það athugun á málinu,“ segir í tilkynningunni.

Framkvæmd greiðslnanna hefði átt að vera betri

„Landsbankinn er sammála því að framkvæmd umræddra álagsgreiðslna hefði átt að vera betri, nánar tiltekið hefði átt að setja skýrari reglur um greiðslurnar og skrá upplýsingar um þær betur. Landsbankinn hefur þegar tekið upp breytt verklag og gengið úr skugga um að það samræmist ofangreindu áliti Fjármálaeftirlitsins.

Landsbankinn hefur ekki tekið upp kaupaukakerfi fyrir starfsmenn sína. Ef bankaráð hyggst taka upp slíkt kerfi innan samstæðu bankans þarf áður að fá samþykki hluthafafundar,“ segir enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK