Kaupaukar séu sýnilegir og hóflegir

Benedikt Jóhannesson á fundi Samtaka sparifjáreigenda.
Benedikt Jóhannesson á fundi Samtaka sparifjáreigenda. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Það er ekkert að því að hvetja fólk til þess að standa sig vel og afkasta miklu. Það er hins vegar alvarlegt þegar kaupaukarnir eru faldir,“ sagði Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra, á fundi Samtaka sparifjáreigenda. 

Fundurinn bar yfirskriftina Ofurbónusar: Hvatning eða helstefna, og gerði Benedikt þar grein fyrir skýrslu sem Talnakönnun útbjó fyrir samtökin. 

Við gerð skýrslunnar voru skoðuð kaupaukakerfi hjá 20 fyrirtækjum, sem skiptast í skráð fyrirtæki í Kauphöllinni og banka, en ekki bárust svör frá einu þeirra. Skýrslan leiðir í ljós að um 70% þeirra fyrirtækja, sem voru tekin fyrir, hafi innbyggt kaupaukakerfi. 

Þar af eiga forstjórar og yfirstjórnendur rétt á kaupaukum í tíu tilfellum, eða í um 77% tilfella, en þau tilfelli þar sem allir starfsmenn eiga rétt á kaupauka eru einungis tvö, eða 15%.  

Spurt var um skilyrði kaupaukanna, til dæmis hvort þeir séu tengdir við hagnað, hlutabréfaverð eða sölu. Í helmingi tilfella var um blönduð skilyrði að ræða. Í fjórum tilfellum var tenging við hagnað, í einu tilfelli var tenging við sölu og í einu tilfelli var um annars konar tengingu að ræða.  

Þá er misjafnt hversu umfangsmikil kaupaukakerfin eru. Algengast er að kaupaukar séu á bilinu 0-25% af föstum launum en það á við 46% fyrirtækjanna, eða sex af þrettán. Hjá þremur liggja þeir á bilinu 25 til 50%, tvö segjast greiða á bilinu 50 til 100% og tvö fyrirtæki hafa enga ákveðna reglu. 

Umbun sé í samræmi við starf

„Sumar tegundir kaupauka eru skynsamlegar en um aðrar má deila,“ sagði Benedikt og tók dæmi um tengingu kaupauka við hlutabréfaverð. „Það sýndi sig að þetta væri hættulegasti kaupaukahvatinn vegna þess að þá leiddust menn út í markaðsmisnotkun.

Benedikt sagði að umbunin þyrfti að vera í samræmi við starfið. Nefndi hann að fyrir fjármálahrunið hefði Kaupþing greitt starfsmönnum greiningardeildar sérstaka kaupauka og varpaði fram spurningu um hvað kaupaukarnir hefðu verið að verðlauna. 

„Var það fyrir að vinna störf sín af samviskusemi? Væntanlega var það þess vegna en er það ekki það sem allir eiga að gera? Bónusakerfin voru farin að snúast um eitthvað allt annað en það að vera árangurshvetjandi kerfi.“

Hann varaði þó við því að fordæma allar gerðir kaupauka, ofurkaupaukar væru vandamálið því þeir gætu leitt til þess að menn gengju of langt. Þá fjallaði hann stuttlega um nýjar nálganir á kaupaukakerfi sem tækju þætti eins og starfsmenn, viðskiptavini og áhættustýringu inn í myndina. 

„Ef annað væri lagt til grundvallar, til dæmis orðsporsáhætta, þá sæjum við að hjá tveimur af stærstu fyrirtækjum heimsins, Google og Facebook, væru ekki háir bónusar í ár.“

Bolli Héðinsson, fyrir miðju, er formaður Samtaka sparifjáreigenda.
Bolli Héðinsson, fyrir miðju, er formaður Samtaka sparifjáreigenda. mbl.is/Valgarður Gíslason
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK