Snjöll öryggislausn málar heiminn appelsínugulan

Í snjallhúsi Alarm.com í Washington er eftirlitið tekið á annað …
Í snjallhúsi Alarm.com í Washington er eftirlitið tekið á annað stig með þrýstinemum í rúmum, myndavélum inni og úti, vatns- og hitaskynjurum, snjalllásum og samtengingu við Alexa og Google Home svo eitthvað sé nefnt. þóroddur bjarnason

Hlutanetið svokallaða, eða Internet of Things (IoT), er smátt og smátt að fikra sig meira inn í líf fólks hér á Íslandi sem og annars staðar. Það sem áður var fjarlæg framtíð er nú þegar orðið raunveruleiki fyrir mjög marga. Eitt stærsta IoT-fyrirtæki í heimi, bandaríska upplýsingatæknifyrirtækið Alarm.com, mun að líkindum á næstu misserum eiga stóran þátt í snjallvæðingu íslenskra heimila eftir að íslenska öryggisfyrirtækið Securitas byrjaði að bjóða lausnir þess hér á landi 1. mars sl.

Tuttugu þúsund heimili, sumarbústaðir, stofnanir og fyrirtæki eru í viðskiptum við Securitas, stærsta fyrirtæki landsins á sviði öryggisvöktunar. Hingað til hefur vöktunin gengið út á að Securitas útvegar myndavélar og margvíslega nema inn á staðinn sem á að vakta. Kerfið er svo tengt stjórnstöð Securitas og ef boð koma bregðast starfsmenn Securitas fljótt við og fara á staðinn til að kanna aðstæður. Með nýjum samningi við bandaríska upplýsingatækni- og vöktunarfyrirtækið Alarm.com verður þessi vöktun „snjallari“ og möguleikarnir aukast til mikilla muna, bæði hvað varðar þjónustuframboð Securitas sem og fær almenningur ýmislegt nýtt fyrir sinn snúð, þar á meðal möguleikann á að stjórna sínu nærumhverfi með margvíslegum hætti heima og heiman.

Ómar Svavarsson, forstjóri Securitas, segir í samtali við ViðskiptaMoggann, spurður um aðdraganda þess að Securitas ákvað að „snjallvæðast“ með þessum hætti, að það hafi staðið frammi fyrir þeirri spurningu hvort það ætti sjálft að fara í þróun á þessu sviði og verða hugbúnaðarhús, eða að fókusera áfram á sitt hlutverk og sína kjarnastarfsemi, en leita frekar eftir samstarfi við leiðandi aðila í tækni. „Í mínum huga var algjörlega ljóst að fara síðarnefndu leiðina. Grunnatriði var þá að velja sér til samstarfs aðila sem er töluvert stærri en þú, einhvern sem hefur sannað sig á markaði fyrir viðkomandi vöru, á mun stærri markaði. Við skoðuðum nokkra mögulega samstarfsaðila og gerðum greiningu á þeim, en valið var auðvelt þegar við fengum jákvæð viðbrögð frá Alarm.com í Bandaríkjunum,“ segir Ómar.

Hann segir að í kjölfarið hafi reynt á það hvort Securitas stæðist kröfur Alarm.com til samstarfsaðila. „Þeir vildu vinna með fyrirtæki sem væri leiðandi á sínum markaði, eins og Securitas er. Það átti að vera í hefðbundinni öryggisgæslu, með mannafla, stjórnstöð og vera þekkt fyrir gæði á markaðnum. Við gátum hakað í öll þessi box. Þá var gaman að selja þeim hugmyndina um Ísland og það hve tæknilega móttækileg við erum, og inniviðirnir tilbúnir að taka á móti nýrri tækni. Á skömmum tíma tókst fínn vinskapur á milli félaganna og þau hjá Alarm.com hafa sýnt það í verki alveg frá upphafi að þau standa þétt við bakið á okkur. Þetta er líka fyrirtæki sem horfir til framtíðar, er með vöruna í stöðugri þróun, og prófar nýjungar á sínum heimamarkaði, sem við getum svo tekið í notkun hér á landi í kjölfarið.“

David Rimmer, þróunarstjóri hjá alarm.com
David Rimmer, þróunarstjóri hjá alarm.com mbl.is/Þóroddur Bjarnason

Fyrirtæki geta líka snjallvæðst

Sú staðreynd að Alarm.com er með sex milljónir áskrifenda ætti að benda til að þar á bæ sé ekki tjaldað til einnar nætur. „Nei, svo sannarlega ekki,“ segir Ómar. „Á nýafstaðinni tæknisýningu í Las Vegas kynntu þeir einmitt nýjungar sem munu henta okkur mjög vel. Þar sýndu þeir hvernig þeir ætla að byrja að bjóða lausnina fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki einnig. Það var virkilega ánægjulegt að sjá að þeir ætla í þessa vegferð og gerir þetta samstarf okkar enn áhugaverðara. Það er alltaf gaman þegar samstarfsaðilinn tosar þig áfram og hjálpar þér að taka næstu skref inn í framtíðina.“

Ómar segir að þegar Securitas var að horfa í kringum sig eftir samstarfsaðila hafi fáir boðið jafn heildstætt kerfi og Alarm.com reyndist gera. Hann segir að kerfið sé lokað kerfi, líkt og Apple-fyrirtækið er þekkt fyrir að bjóða, þar sem ekki er boðið upp á tengingar við annan hugbúnað eða kerfi, nema eftir ýtrustu prófanir. Það eitt séu sterk meðmæli fyrir fyrirtæki sem bjóði öryggislausnir. „En auðvitað eru kostir og gallar á báðum tegundum kerfa, kerfum sem eru á opnum grunni og lokuðum.“

En hvernig hefur salan á snjalllausnunum gengið það sem af er?

„Við höfum aldrei séð önnur eins viðbrögð,“ segir Ómar. „Þetta er líka lærdómsferli hjá okkur. Það er mikill áhugi og það sem er jákvætt fyrir okkur er að hópurinn sem er áhugasamastur er yngri markhópur en sá sem við höfum verið með hingað til, því eldri vörnin okkar höfðaði ekki eins mikið til þeirra sem vildu vera „tæknilega framarlega“.“

Gáfu öllu starfsfólki kerfið

Á meðal þeirra fyrstu sem fá kerfið uppsett eru 500 starfsmenn Securitas, en Alarm.com gaf öllum starfsmönnum kerfið. „Það var hvetjandi og sýndi ákveðna skuldbindingu gagnvart okkur,“ segir Ómar sem sjálfur er með snjalllausnina uppsetta og getur fylgst með og stjórnað heimilinu öllum stundum í símanum sínum. „Við vitum öll að eftir því sem talsmönnum kerfisins fjölgar, því betra. Við erum ákveðinn prufuhópur í leiðinni.“

Öll gögn úr snjalllausninni streyma í gagnagrunn Alarm.com, en fyrirtækið notar gögnin til að betrumbæta kerfið og veita endursöluaðilum sínum og samstarfsaðilum víðtækan stuðning við markaðs- og sölustarf. En er ástæða til að hafa áhyggjur af þessari gagnasöfnun í ljósi umræðunnar undanfarnar vikur um gagnaleka og misnotkun tölvugagna? „Þetta hefur auðvitað verið stórt mál upp á síðkastið, en hér eru ýtrustu kröfur til persónu- og gagnaöryggis uppfylltar, enda þarf öryggisfyrirtæki, sem þar að auki er skráð á markað í Bandaríkjunum, að stíga mjög varlega til jarðar í öllum svona málum. Þeir ætla sér líka stóra hluti í Evrópu á næstu misserum og eru að setja þar upp starfsstöðvar, og lögum og reglugerðum er fylgt í hvívetna.“

Ómar hefur sjálfur reynslu af bæði fjarskiptageiranum og tryggingageiranum, áður en hann hóf störf sem forstjóri Securitas. Hann segir að reynsla sín ætti að geta nýst einkar vel í framtíðinni, þar sem mikil samlegð sé að verða með þessu þrennu, fjarskiptum, öryggisvöktun og tryggingum. „Til dæmis er hægt að nota snjallforritið til að senda viðvaranir til fólks vegna flóða, eldgosa eða ofviðris, og þannig spilar það saman með tryggingum. Sömuleiðis ef rafmagnið fer af húsinu þínu, þá færðu tilkynningu og færð að vita hvort rafmagnið hafi farið af öllu hverfinu, eða bara heima hjá þér.“

Heimili framtíðarinnar

David Rimmer, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar fyrir Evrópumarkað hjá Alarm.com, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að hlutverk sitt sé að finna viðskiptavini og samstarfsaðila eins og Securitas í Evrópu, til lengri tíma, og styðja við alþjóðlegan vöxt fyrirtækisins.

Þess ber að geta að Alarm.com sinnir engri beinni sölu til viðskiptavina, heldur vinnur ávallt með samstarfsaðilum sem sjá þá um uppsetningu, markaðssetningu, og þjónustu við áskrifendur. Alarm.com styður hinsvegar samstarfsaðilana á öllum þessum sviðum, til að tryggja ánægða viðskiptavini.

„Megináhersla okkar er á öryggismál og leið okkar að markaðnum er í gegnum heimili fólks. Við bjóðum ólíkar þjónustur undir okkar hatti, þjónustur sem er erfitt og kostnaðarsamt fyrir fólk að taka inn úr mörgum áttum, en það að sameina þær undir þessari einu öryggisregnhlíf og blanda þeim saman gerir þetta mun meira aðlaðandi fyrir viðskiptavini,“ segir Rimmer.

Þjónustan sem Rimmer talar um er veitt í gegnum margvíslega nema og myndavélar sem samstarfsfyrirtæki Alarm.com eða viðskiptavinirnir sjálfir setja upp á heimilum sínum. Dyraskynjarar, þrýstinemar í rúmum og sófum, dyrasímamyndavélar, vatnsnemar og hreyfanlegar myndavélar í almannarýmum, eins og í stofunni til dæmis. Til að kynnast þessu nánar var blaðamanni boðið í heimsókn í sérstakt snjallhús Alarm.com í Washington, ekki langt frá höfuðstöðvum fyrirtækisins. Snjallhúsið er innréttað eftir kúnstarinnar reglum og var ekki laust við að manni þætti dálítill framtíðarbragur á hlutunum, enda er þarna nánast allt vaktað og skráð sem hugsast getur, til hagsbóta og aukins öryggis fyrir íbúa. Að auki hefur Alarm.com með samningi við Apple, Amazon Alexa og Google Home gert fólki kleift að tala við heimilistækin í húsinu.

„Samstarfsaðilar eins og Securitas á Íslandi eru fullkomnir fyrir okkur. Þetta eru fyrirtæki sem eru með öryggismálin í forgrunni, og eru núna byrjuð að nota Alarm.com-grunnkerfið til að víkka sína þjónustu út í aukna sjálfvirkni, vídeóvöktun, snjalllýsingu og hitt og þetta skemmtilegt, eins og sjá má í snjallhúsinu. En allt er þetta grundvallað á öryggisþjónustu fyrir fólk og fyrirtæki. Securitas er samstarfsaðili eins og við viljum að samstarfsaðilar okkar séu.“

Rimmer rekur í stuttu máli sögu Alarm.com með blaðamanni, en fyrirtækið var stofnað af upplýsingatæknifyrirtækinu MicroStrategy. „Þó að fyrirtækið hafi upprunalega, undir sínu gamla nafni, ekki snúist beint um viðvörunarboð og öryggismál, þá hefur fyrirtækið frá upphafi snúist um gögn. MicroStrategy var gagnafyrirtæki, og hugmyndin þá, rétt eins og nú, gekk út á hvernig hægt væri að draga saman gögn sem í dag streyma frá öllum nemunum og myndavélunum, og búa til úr þeim verðmæti. Það sem fólk sér utan frá í dag er þetta alþjóðlega snjallfyrirtæki sem Alarm.com er, með þessar frábæru öryggislausnir sem stýrt er í gegnum smáforrit í snjallsímanum, en undir niðri er gríðarlegt magn gagna og allt snýst um þau.“ Rimmer segir að öll gögn úr nemum Alarm.com skráist í gagnagrunn fyrirtækisins, hvort sem það eru gögn frá hreyfi-, þrýsti- eða hitaskynjurum, sem og gögn frá myndavélum, myndbandsupptökuvélum og hljóð. „Þetta skráist allt, en auðvitað er þetta allt nafnlaust og dulkóðað. Þetta gefur okkur hinsvegar gríðarlegt magn af upplýsingum til að vinna úr, og hjálpar okkur að sjá hvað það er sem fær viðskiptavininn til að vilja halda áfram viðskiptum við okkur. Upplýsingarnar nýtast svo samstarfsaðilum okkar til að vinna sína markaðsvinnu, eins og til dæmis hvaða þjónustu væri sniðugt að bæta við hjá viðskiptavini svo hann haldi áfram í viðskiptum. Við erum núna að vinna með uppsöfnuð gögn frá samtals 18 árum, og viðskiptavinir eru um sex milljónir talsins.“

Höfuðstöðvar Alarm.com.
Höfuðstöðvar Alarm.com. Ljósmynd/Ólafur Friðrik Sigvaldason

90% halda áfram ef ráðum er fylgt

David Rimmer segir að fyrirtækið hafi skilgreint sex atriði sem hjálpi samstarfsaðilum að halda áskrifendum í viðskiptum. Að passa að hafa rétt netfang er til dæmis eitt þeirra, annað er að kveikja á staðsetningarþjónustu í símanum. „Ef viðskiptavinir nota þessa sex hluti þá lækkar hlutfall þeirra sem hætta í viðskiptum gríðarlega mikið. Við gerðum úttekt á því í Bandaríkjunum að á fjögurra ára tímabili myndu 50% viðskiptavina hætta á endanum ef þeir gera ekkert af þessum sex hlutum, þar sem þeir myndu ekki að fá nægt virði út úr þjónustunni. En ef þeir gera alla sex hlutina, þá munu 90% viðskiptavina halda áfram í viðskiptum. Þetta er eitt af þeim „verkfærum“ sem við bjóðum samstarfsaðilum okkar, til að hjálpa þeim að viðhalda sínum viðskiptum. Þetta dregur verulega úr uppsögnum þjónustunnar.“

Eins og rakið er hér annars staðar á síðunni þá er félagið 18 ára gamalt og hefur vaxið ævintýralega frá stofnun. Eins og Rimmer bendir á tók það félagið 10 ár að ná einni milljón viðskiptavina, en eftir það tók það félagið sjö ár að ná sex milljónum viðskiptavina. „Vöxturinn er mjög hraðar, kúrfan er eins og íshokkíkylfa í laginu.“

Rimmer segir að tæknilega hafi hraður vöxturinn verið áskorun fyrir félagið, þar sem ráðast hafi þurft í breytingar á tæknilegri grunngerð. „Við þurftum að færa allt yfir í sýndarumhverfi til að styðja við vöxtinn og vera „teygjanlegri“.“ Árið 2016 voru skráðar að sögn Rimmer 30 milljarðar gagnasendinga frá áskrifendum kerfisins. Ein milljón boða komu á 15 mínútna fresti og sjö milljónir atvika voru skráðar þar sem kerfi var sett á vörð og tekið af verði á hverjum einasta degi.

Halloween stærsti dagurinn

Til gamans má geta þess að sá dagur ársins þar sem flest boð berast frá Alarm.com-snjallöryggiskerfum er hrekkjavakan, enda er það sá dagur þar sem stöðugur straumur barna er að útihurðum Bandaríkjamanna. Þá taka dyrabjöllumyndavélarnar við sér og senda boð í hvert skipti sem einhver nálgast. Fjöldi boða er 10-12 sinnum meiri þann dag en aðra daga ársins, og Alarm.com þarf að fjórfalda tæknilega getu sína á meðan þetta gengur yfir, að því er Alex Freias, tæknilegur framkvæmdastjóri félagsins, sagði frá á kynningu.

Einn áhugaverður vinkill á snjalllausnum eins og Alarm.com býður er það sem snýr að heilsu og umönnun (Wellness). Til útskýringar nefnir Rimmer þrýstinema undir rúmum. Neminn skynjar breytingu á þrýstingi, til dæmis ef amma eða afi fara á klósettið um miðja nótt. Ef neminn skynjar ekki aðra breytingu fljótlega, segir það að viðkomandi hafi ekki skilað sér aftur í rúmið, sem er þá vísbending um að eitthvað sé mögulega ekki eins og það á að vera.

„Mörg fyrirtæki notfæra sér ekki þessar gagnasendingar, heldur hlusta bara á viðvörunarboð. Við notum gögnin til að búa til nýja þjónustu.“

Rimmer segir að samstarfsaðilar fyrirtækisins alþjóðlega séu misstórir, en sumir bæti við sig áskrifendum á ógnarhraða. „Við erum með nokkra samstarfsaðila hér í Bandaríkjunum sem bæta við sig hundruðum þúsunda viðskiptavina á ári. Þess vegna þurfum við að vera tæknilega tilbúin að taka við slíkum fjölda gagnasendinga á mjög skömmum tíma. Við erum til dæmis með einn samstarfsaðila hér rétt fyrir utan Washington sem bætir við sig um 10 þúsund nýjum áskrifendum á mánuði.“

Þó að skilja megi á þessari grein að þeir sem kaupi sér snjalllausnir frá Securitas með undirliggjandi tækni Alarm.com noti Alarm.com-viðmótið, þá er Alarm.com hvergi sjáanlegt á yfirborðinu. „Þó að smáforritið sé frá okkur, þá er það alltaf útlit viðkomandi samstarfsaðila sem er lagt ofan á, sem er Securitas í þessu tilfelli. Við erum eins og Intel-örgjörvinn sem keyrir tölvurnar í bakgrunninum.“

Forstjóri áhugasamur um Ísland

Þó að Ísland sé lítill markaður, þá er greinilega engu minna púðri eytt í samstarfið við íslenska samstarfsaðilann en aðra. Í heimsókninni til höfuðstöðvanna var heill dagur tekinn undir margvíslega undirbúningsfundi, með háttsettum yfirmönnum félagsins.

„Öll lönd eru mikilvæg fyrir okkur, lítil og stór. Ísland er auðvitað lítill markaður, en samt góður. Þar búa hundruð þúsunda manna og öryggi heldur áfram að vera mikilvægt, og mestu skiptir að ná samningi við fyrirtæki sem vill víkka út öryggisstarfsemi í snjallari heimi. Forstjórinn okkar [Stephen Trundle] er mjög áhugasamur um Ísland,“ segir Rimmer.

Alarm.com færir sig nú hægt og rólega til Evrópu, sem og fleiri landa og heimsálfa. Eins og Rimmer bendir á þá vill forstjórinn „mála heiminn appelsínugulan“, þ.e. í einkennislit Alarm.com.

Spurður um næstu skref fyrir Alarm.com alþjóðlega, segir Rimmer að fyrirtækið búi að traustum viðskiptum í Bandaríkjunum, þar sem fyrirtækið sé leiðandi, og meira en eitt af hverjum tveimur nýjum öryggiskerfum sem tengd eru þar í landi sé tengt við Alarm.com.

„Alþjóðlega teymið okkar hefur vaxið hratt á síðustu 2-3 árum. Fyrir þremur árum vorum við rúmlega 10 en við erum um 30 í teyminu núna.“

Nú þegar hefur Alarm.com náð góðri fótfestu í löndum eins og Ástralíu, Portúgal, Nýja-Sjálandi, Suður-Afríku, Suður-Ameríku og Tyrklandi, sem og í Kanada. Næst á dagskrá er að fara inn í APAC-löndin, þ.e. Suður- og Suðaustur Asíu.

Rimmer nefnir einnig Benelux-löndin, sem og Norðurlönd, Írland og Spán, en fyrirtækið er að byggja upp starfsstöð og gagnaver í Amsterdam í Hollandi til að styðja við þessa uppbyggingu. Þá er önnur aðalskrifstofan í Madrid á Spáni.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK