Hlutabréf lækka vegna tollastríðs

Wall Street.
Wall Street. AFP

Hlutabréfamarkaðir hafa fallið víða um heim í dag eftir nýjustu sviptingar í tollastríði Bandaríkjanna og nýlagðra tolla stjórnvalda á Kína.

Dow Jones-vísitalan bandaríska féll um 1,6% við opnun markaða en hún mælir gengi hlutabréfa í þrjátíu amerískum stórfyrirtækjum á borð við Coca-Cola, Apple, Microsoft, Nike og Disney. Sömu sögu er að segja af hlutabréfamörkuðum í Evrópu og Asíu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað að leggja viðbótartolla á innflutning á kínverskum vörum, en andvirði varningsins er um 200 milljarðar bandaríkjadala eða sem jafngildir um 20.000 milljörðum króna. Hefur forsetinn falið viðskiptanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings að kortleggja innflutningsvörur sem eru fýsilegar til slíkrar tollalagningar.

Forsetinn hefur sagt að tollarnir verði lagðir á ef Kínastjórn neitar að „breyta framferði sínu“ en hann hefur gagnrýnt Kínverja fyrir ósanngjarna viðskiptahætti og hugverkastuld. Markaðir í Kína hafa farið verst út úr deilum ríkjanna en vísitala kauphallarinnar í Shanghai lækkaði um 3,8% í dag.

Enn fleiri bregðast við stáltollum

Don­ald Trump, Banda­ríkja­for­seti samþykkti í mars að leggja 25 pró­senta toll á er­lent stál og 10 pró­sent á ál. Fjölmörg ríki hafa brugðist ókvæða við þeirri ákvörðun og hótað gagnaðgerðum. Fyrst Evrópusambandið, þá Kanada, Mexíkó, Indland og nú seinast Rússland.

Viðskiptaráðherra Rússa, Maxim Oreshkin, hefur tilkynnt að tollar verði lagðir á amerískan varning þar sem samskonar framleiðsla er í Rússlandi og er það gert til að bregðast við stál- og áltollunum.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK