Verðmæti Apple skiptir ekki öllu

AFP

„Billjón bandaríkjadollarar, sem tala, gerir í raun ekkert meira en það að minna okkur á hvað þetta fyrirtæki er verðmætt. Að það hafi náð þessari stærðargráðu hefur ekkert að segja varðandi það hvort fólk sé að fara að fjárfesta í þessu félagi eða ekki. Eða hvert það stefnir héðan í frá,“ segir Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri Íslandsbanka, um þann áfanga sem Apple náði í gær, í samtali við mbl.is.

Apple varð í gær fyrsta fyrirtækið í heiminum, sem er skráð á almennan hlutabréfamarkað, til að vera metið á yfir eina billjón (e. trillion) Bandaríkjadala. Verð á hlutabréfum fyrirtækisins fór þá yfir 207 dali á hlut.

Tískufyrirtæki að vissu leyti

Björn telur áfangann ekki til þess fallinn að hafa mikil áhrif á fjárfesta enda horfi þeir að jafnaði til annarra þátta. Hann telur þó vissulega jákvætt fyrir Apple að ná þessu marki enda sé það áminning til fjárfesta um hversu stórt fyrirtækið er.

„Þetta skiptir ekki það miklu máli nema bara upp á umræðuna sjálfa og minnir mann á hversu stórt þetta fyrirtæki er orðið,“ segir hann.

Björn telur Apple skera sig úr hópi samkeppnisaðila sinna að því leyti að fyrirtækið er að vissu leyti tískufyrirtæki. Því sé jákvæð umræða um Apple töluvert mikilvæg fyrir fyrirtækið.

„Helstu samkeppnisaðilar þeirra hafa auðvitað verið í miklum vexti líka. Apple og samkeppnisaðilar þeirra eru mörg verðmætustu fyrirtæki heimsins í dag. Apple hefur tekist það betur heldur en flestum öðrum að vera tískufyrirtæki og þess vegna skiptir þá auðvitað miklu máli að vera í umræðunni sem flottari og aðeins öðruvísi en hinir,“ útskýrir Björn og bætir við, „þeir eru ekki að keppa í verðum og þeir eru ekkert endilega að keppa í gæðum. Þeir eru að keppa í einhverri upplifun.“

Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri Íslandsbanka.
Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri Íslandsbanka. mbl.is

Arðbærasta neytendavara sögunnar

„En áfanginn gefur einnig tilefni til að líta til baka og skoða hvernig þetta fyrirtæki komst alla þessa leið, nánast alfarið á einni vöru,“ bætir Björn við og á þá við iPhone-símann.

„Þegar maður kíkir aðeins undir húddið á Apple þá er hagnaðurinn, og hefur verið síðasta áratuginn, borinn uppi af iPhone. Þessari einu vöru,“ bendir hann á og heldur áfram, „þrátt fyrir að Apple sé að fá fínar tekjur sem slíkar af öðrum vörum þá skiptir það ekki öllu máli í stóru myndinni. Það er bara iPhone-inn, hann er arðbærasta neytendavara sögunnar.“

Björn hélt fyrirlestur um Apple fyrir fjórum árum og skoðaði þá ársreikninga og önnur gögn frá fyrirtækinu gaumgæfilega. Það kom honum á óvart að sjá hversu mikið þessi eina vara hefur gjörbylt rekstri Apple.

„Arðsemi af öðrum vörum kemst ekki nálægt arðsemi af iPhone. Þú getur alveg selt fjölda síma og jafnvel meira en samkeppnin og talið það gott en stóra málið er hvaða hagnað þú hefur í heildina. Þegar Apple selur hvaða iPhone sem er, hvar sem er í heiminum, þá er hreini hagnaðurinn sem kemur inn í sjóði félagsins svo gríðarlega mikill,“ útskýrir Björn en tekur þó fram að áhætta geti verið fólgin í því að einblína svo mikið á eina vöru enda samkeppnin á þessum markaði hörð.

Hægt að reka íslenska ríkið í 540 ár

Björn bendir á það til gamans á Twitter að fyrir þá fjárhæð sem Apple, Amazon, Google, Microsoft og Facebook eru nú metin á væri hægt að reka íslenska ríkið í 540 ár. „Þetta eru ótrúlegar tölur, þó að við leiðréttum fyrir höfðatölunni,“ segir Björn að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK