Sölutími íbúða að styttast

Íbúðir í fjölbýli hækka minna en sérbýli.
Íbúðir í fjölbýli hækka minna en sérbýli. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,3% milli júní og júlí samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands og hefur nú hækkað um samtals 5,2% undanfarið ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði.

Þar segir einnig að árshækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hafi mælst sú sama í júlí og í júní. Í júlí í fyrra hafði íbúðaverð hins vegar hækkað um 19% á einu ári og eru verðhækkanir á íbúðarhúsnæði því sagðar talsvert hóflegri nú en fyrir ári.

„Hlutfall vísitölu íbúðaverðs og vísitölu neysluverðs, sem líta má á sem raunverð íbúða, hækkaði um 0,3% á milli júní og júlí og hefur nú hækkað um 2,4% á undanförnum 12 mánuðum. Árshækkun raunverðs íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki mælst minni á þennan mælikvarða síðan í ágúst 2013,“ segir í tilkynningu Íbúðalánasjóðs.

Sérbýli hefur hækkað talsvert meira í verði en fjölbýli undanfarna mánuði og sú þróun hélt áfram í júlí. Verð fjölbýlis hækkaði um 0,2% milli mánaða en verð sérbýlis um 0,8%. Fjölbýli hefur nú hækkað um 3,8% á undanförnum 12 mánuðum en sérbýli um 8,9%

Íbúðir seljast fyrr

Í tilkynningu Íbúðalánasjóðs kemur fram að meðalsölutími bæði sérbýlis og fjölbýlis sé að styttast og hann hafi verið um það bil viku styttri í júní en hann var í janúar.

Í júní liðu að meðaltali 55 dagar milli þess sem íbúð í fjölbýli var síðast auglýst og kaupsamningur vegna hennar undirritaður. Um 66 daga tók að selja sérbýli að meðaltali, sé miðað við sama mælikvarða.

Bæði fjöldi kaupsamninga og velta á íbúðamarkaði (á föstu verðlagi) hefur vaxið á undanförnum mánuðum, ef miðað er við tólf mánaða hlaupandi meðaltal, eftir að hafa farið minnkandi um nokkurt skeið þar á undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK