Reginn hf. gengur frá kaupum á dótturfélögum FAST-1 slhf.

Helgi Gunnarsson er forstjóri Regins hf.
Helgi Gunnarsson er forstjóri Regins hf. mbl.is/​Hari

Kaup Regins hf. á dótturfélögum FAST-1 slhf., HTO ehf. Og FAST-2 ehf. eru formlega gengin í gegn og hefur afhending farið fram. Skilyrðum kaupsamnings, sem var undirritaður 18. maí, var fullnægt í dag með greiðslu og afhendingu að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá fasteignafélaginu Reginn hf.

Heildarvirði hins keypta var samtals 22,7 milljarðar króna og var fjármagnað með útgáfu á nýju hlutafé í Regin, reiðufé og yfirtöku áhvílandi skulda. Endanlegt uppgjör fer fram 1. nóvember á þessu ári.

Reginn hf. hefur þegar hafið undirbúning að endurfjármögnun skulda og með útboði sem fór fram 12. september tryggði félagið sér rúmlega 17 milljarða króna fjármögnun með væntanlegri útgáfu skuldabréfa.

Skuldabréfin munu bera 3,6% fasta vexti til 30 ára, á pari. Skuldabréfaflokkurinn verður veðtryggður með sértæku tryggingarfyrirkomulagi. Stefnt er að skráningu skuldabréfaflokksins á aðalmarkað Nasdaq Iceland hf. í október.

Fellur vel að fjárfestingarstefnu Regins

Stærstu eignir félaganna eru Katrínartún 2 (Turninn við Höfðatorg) og Borgartún 8-16. Samtals telur fasteignasafnið 44 þúsund fermetra auk bílakjallara með yfir 600 bílastæðum. 98% eignanna er í útleigu og meirihluti leigutekna kemur frá opinberum aðilum, segir í fréttatilkynningunni

Meðal leigutaka eru Reykjavíkurborg, Fjársýsla ríkisins, Reiknistofa bankanna, Fjármálaeftirlitið og Ríkislögreglustjóri.

„Kaupin falla vel að fjárfestingastefnu Regins, sérstaklega m.t.t. samsetningu leigutaka og gæði mannvirkja. Á undanförnum árum hefur verið lögð mikil áhersla á útleigu til öflugra og traustra leigutaka. Nú er svo komið að 39% af tekjum félagsins kemur frá þeim flokki leigutaka sem tilheyrir opinberum aðilum, skráðum félögum og viðskiptabönkum í eigu opinberra aðila. Það er mat stjórnenda félagsins að þessi staða gefi félaginu aukið rekstraröryggi til framtíðar,“ segir í tilkynningu frá Reginn hf.

Fyrirtækjaráðgjöf fjárfestingabankasviðs Arion banka hf. veitti ráðgjöf vegna kaupanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK