Ábyrgðin var ekki ríkisaðstoð

mbl.is/ Hari

Ríkisábyrgðir á afleiðusamningum Landsvirkjunar fólu ekki í sér ríkisaðstoð. Þetta er niðurstaða rannsóknar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

ESA hóf rannsókn á því hvort ríkisábyrgð á afleiðusamningum Landsvirkjunar fæli í sér ríkisaðstoð sem stangast á við EES-samninginn í maí í fyrra. 

Helga Jónsdóttir, sem þá sat í stjórn ESA, sagði á þeim tíma að könnun ESA lyti að því kanna hvort Landsvirkjun nytir efnahagslegs ávinnings af ríkisábyrgðinni eða hvort endurgjaldið fyrir hana væri á markaðskjörum. 

Í tilkynningu frá ESA kemur fram að rannsóknin hafi leitt í ljós að ábyrgðirnar á afleiðusamningum Landsvirkjunar leiddu ekki til efnahagslegs ávinnings fyrir fyrirtækið og er málinu því lokið að hálfu ESA.

Landsvirkjun er stærsti raforkuframleiðandi á Íslandi og fimmti stærsti framleiðandi endurnýjanlegrar raforku í Evrópu. Í samningum um stóriðju er fyrirtækið í samkeppni við aðra framleiðendur í Evrópu. Til að verjast gengis- og vaxtaáhættu í skuldasafni sínu hefur Landsvirkjun gert ýmiss konar afleiðusamninga sem íslenska ríkið hefur gengið í ábyrgð fyrir. Seðlabanki Íslands fer með hlutverk Ríkisábyrgðasjóðs og þar með umsýslu ríkisábyrgða samkvæmt samningi við fjármálaráðuneytið.

Jöfn samkeppnisstaða fyrirtækja í Evrópu er eitt grundvallaratriði EES-samningsins og ríkisábyrgðir sem ekki eru á markaðskjörum geta því verið brot á samningnum. Í rannsókn sem lauk árið 2009 komst ESA að þeirri niðurstöðu að ótakmarkaðar ríkisábyrgðir fælu í sér ríkisaðstoð, sem ekki samræmdist EES-samningnum og var íslenskum stjórnvöldum falið að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að lánssamningar Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur stönguðust á við samninginn.

Í kjölfarið var lögum breytt á Íslandi þannig að fyrirtækjunum ber að greiða ríkisábyrgðargjald sem samsvarar þeim ávinningi sem þau njóta vegna ríkisábyrgðarinnar. Má ábyrgðin ekki ná til meira en 80% af útlánum eða fjárhagsskuldbindingum. Ábyrgðirnar, sem gefnar eru út til Landsvirkjunar vegna afleiðusamninga, falla ekki undir þennan ramma og virðast ekki uppfylla þessi skilyrði.

Íslensk stjórnvöld hafa gert nauðsynlegar lagabreytingar til þess að að rýmka kærurétt almennings í umhverfismálum. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) telur úrbæturnar fullnægjandi og að lögin samræmist nú EES reglum. Málinu telst því lokið af hálfu ESA.

Úrbætur ríkisins fullnægjandi að mati ESA

Í öðrum úrskurði ESA í dag kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi gert nauðsynlegar lagabreytingar til þess að að rýmka kærurétt almennings í umhverfismálum. ESA telur úrbæturnar fullnægjandi og að lögin samræmist nú EES reglum. Málinu telst því lokið af hálfu ESA.

Árið 2015 hóf ESA samningsbrotamál vegna fjölda kvartana frá félagasamtökum og almenningi á Íslandi sem stöldu að kæruréttur í umhverfismálum væri ófullnægjandi.

ESA komst í kjölfarið að þeirri niðurstöðu að íslensk stjórnvöld hefðu ekki innleitt tilskipun 2011/92/ESB að fullu í tengslum við mat á áhrifum vissra verkefna almennings og einkaaðila á umhverfið. Þegar ákvarðanir eru teknar á grundvelli tilskipunarinnar skal almenningur, þ.m.t. umhverfissamtök, eiga kost á kæruleið, hvort sem kæra lýtur að efnislegum atriðum eða broti á málsmeðferðarreglum. Rannsókn ESA leiddi í ljós að íslensk löggjöf tryggði ekki rétt til að bera mál undir úrskurðaraðila þegar deila snerist um athafnaleysi stjórnvalda.

Í júní 2018 leiddi Alþingi í lög rétt til sérstakrar áfrýjunar á málum og athafnaleysi (í umhverfismálum). ESA telur að viðeigandi skref hafi verið tekin af íslenskum stjórnvöldum til þess að fylgja þessari tilskipun EES samningsins og hefur því lokað máli þessu gagnvart Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK