„Stóri skúrkurinn var krónan“

Björgólfur segist hafa búist við því að fleiri myndu biðjast …
Björgólfur segist hafa búist við því að fleiri myndu biðjast afsökunar á þeirra þætti í hruninu. mbl.is/RAX

Björgólfur Thor Björgólfsson athafnamaður segir stóra skúrkinn í hruninu hafa verið íslensku krónuna. Hann hafi sjálfur litið í eigin barm, gagnrýnt sjálfan sig og beðist afsökunar á sínum hlut. Aðrir hafi hins vegar ekki leikið það eftir. Í dag séu hættumerki á lofti en lærdómurinn sé lítill. Þetta kemur fram í nýjum pistli sem hann birtir á heimasíðu sinni í dag.

„Í þeirri miklu þenslu, sem átti sér stað á örfáum árum fram að hruni, var ýmislegt sem leiddi til þess að bankarnir stækkuðu fram úr hófi og voru orðnir óviðráðanlegir fyrir lítið hagkerfi þegar að þrengdi haustið 2008. Allt blasir það við núna. Bankarnir höfðu nær ótakmarkað aðgengi að ódýru fé. Minnsti gjaldmiðill heims gat ekki staðið undir þeirri vaxtamunarstefnu, sem rekin var á Íslandi,“ segir Björgólfur meðal annars um krónuna.

„Það er dramatískt að leita að aðalleikurum í hruninu í hópi banka- og viðskiptamanna, en stóri skúrkurinn var krónan. Þar hafa menn ekkert lært, með núverandi hávaxtastefnu og verðtryggingu, sem sligar almenning.“

„Þetta var erfitt ferðalag“

Hann segist hafa litið í eigin barm í kjölfar hrunsins og horft gagnrýninn á athafnir sínar. Hans leið til að takast á við baráttuna hafi verið að skrifa bók þar sem hann fór yfir sögu sína í viðskiptum; baslið, ævintýralegan uppgang, ofurgróða, mistökin sem hann gerði, hrunið sjálft og hvernig honum tókst að vinna úr hremmingunum. „Þetta var erfitt ferðalag, en ég tel það hafa styrkt mig og hjálpað mér að takast á við reiðina og biturleikann, sem ég fann fyrir í kjölfar hrunsins.“

Björgólfur segir einnig mikilvægt að skoða hvað gerðist eftir hrun. Þar sé hann stoltastur af skuldauppgjöri við alla sína lánardrottna, en hann hafi verið í gríðarmiklum persónulegum ábyrgðum þegar hrunið skall á. „Þannig borgaði ég yfir 100 milljarða króna til íslenskra banka í beinhörðum peningum, meira að segja í erlendri mynt. Margfalt hærri upphæðir voru greiddar til erlendra banka.“

Hélt að fleiri myndu biðjast afsökunar

Hann segist löngu hafa verið búinn að átta sig á mistökum sínum þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út árið 2010. Hann hafi því birt afsökunarbeiðni til Íslendinga í Fréttblaðinu þar sem hann baðst afsökunar á sínum þætti í eigna- og skuldabólunni og andvaraleysi gagnvart hættumerkjum sem hrönnuðust upp. „Mér auðnaðist ekki að fylgja hugboði mínu þegar ég þó kom auga á hættuna.“

Segist hann hafa búist við því að aðrir fylgdu í kjölfarið og bæðust afsökunar á sínum hlut í aðdraganda hrunsins. Hann hafi hins vegar orðið gáttaður þegar enginn brást við. „Ekki bissnissmenn, ekki bankamenn, ekki embættismenn, ekki eftirlitsaðilar, ekki fjölmiðlamenn, ekki þingmenn, ekki ráðherrar, ekki fyrrverandi stjórnendur Seðlabankans. Það var enginn annar sem baðst afsökunar! Þannig urðu aldrei til nein drög að sáttum þegar samfélagið þurfti mest á því að halda.“

Björgólfur vísar til þess að braskið hafi byrjað áður en gömlu ríkisbankarnir voru ríkisvæddir. Upphaf og endir í sögu bankanna í uppgangi og hruni markist af óútskýrðu braski Kaupþingsmanna sem keyptu Búnaðarbankann með því að segja ósatt um aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser. Þeir hafi líka sagt ósátt um aðkomu Al-Thani sem varð til þess að Kaupþing virtist sterkari banki en hann var.

Lærdómurinn ekki skilað sér

Hann segir braskið vera allt í kringum okkur í dag og lærdómurinn virðist lítill sem enginn. „Kvótagreifar setja nýtt met í arðgreiðslum og gefa almenningi fingurinn, á meðan margir þingmenn streitast við að finna leið sem tryggir að útgerðin greiði sem allra minnst fyrir aðgang sinn að þjóðareign. Af hverju rennur arðurinn af auðlindinni ekki í sameiginlegan sjóð þjóðarinnar, eins og arður Norðmanna af olíuvinnslu? Enginn lærdómur þar.“

Nýjustu dæmin af útgerðarbraski sýni að enn og aftur séu menn að kaupa fyrirtæki og selja þau aftur fyrirtækjum sem skráð eru á markaði og innleysa þannig gríðarmikinn hagnað á stuttum tíma.

Hann segist velta fyrir sér hvað þeim gangi til sem sjái hættumerkin en stingi höfðinu í sandinn og láti sem ekkert sé. „Sama krónustefnan er rekin áfram, með himinháum vöxtum fyrir almenning, af fólki sem á að vita betur. Þar hefur lærdómurinn ekki skilað sér.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK