Fjölgun farþega en minni sætanýting

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Farþegum Icelandair fjölgaði um 10% í október þegar miðað er við sama mánuð í fyrra. Flutti félagið 352.787 farþega í síðasta mánuði, en 320.745 farþega í október í fyrra. Framboðnum sætiskílómetrum fjölgaði á sama tímabili um 18%. Sætanýting minnkaði hins vegar og var 80,9% í síðasta mánuði, samanborið við 83,4% í október í fyrra.

Fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar að það sem af er ári hefur Icelandair flutt 3.597.997 farþega, en þeir voru á sama tíma í fyrra 3.568.554 og er það 1% fjölgun milli ára. Sætanýting það sem af er ári er 81,2%, en var 83,5% í fyrra.

Farþegum Air Iceland Connect hélt áfram að fækka í október, en þeir voru rétt tæplega 28 þúsund, samanborið við 31 þúsund í október í fyrra. Er það um 10% fækkun. Þegar horft er á fyrstu tíu mánuði ársins hefur farþegum fækkað um 8% og voru þeir 277 þúsund samanborið við 300 þúsund í fyrra.

Flugvélanýting í útleigu hjá Icelandair group var 90,9% í síðasta mánuði og hefur verið 92,7% það sem af er ári. Í október í fyrra var hlutfallið 100% og 97,6% fyrstu tíu mánuðina. Fraktflutningar jukust um 4% og það sem af er ári hafa þeir aukist um 7%.

Seldum gistinóttum á hótelum félagsins fjölgaði um 19% milli ára, en framboðnum gistinóttum hefur á sama tíma fjölgað um 21%. Herbergjanýting lækkaði því milli ára og var 85,1% í október í ár, samanborið við 86,3% í október í fyrra.

Það sem af er ári hefur herbergjanýting félagsins verið 81,7%, samanborið við 82,8% í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK