Hægt að auka sætafjölda um 35%

Fyrstu niðurstöður áreiðanleikakönnunar vegna kaupa Icelandair Group á öllu hlutafé í WOW air, sem tilkynnt var í gær að ekkert yrði af, voru á þá leið að fjárþörf WOW air væri meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta kemur fram í kynningargögnum vegna hluthafafundar Icelandair Group sem fram fer í dag. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, sagði í samtali við mbl.is í gær að ein af ástæðunum fyrir því að ekkert varð af kaupunum hafi verið sú að komið hefði í ljós að áhættan sem fylgdi þeim hafi verið meiri en talið hafi verið.

Fram kemur að meginástæða þess að tekin var ákvörðun af hálfu Icelandair Group um að kaupa WOW air, áður en fallið var frá henni, hafi verið samlegðaráhrif. Þá varðandi samþættingu leiðakerfa, flugvallarþjónustu, umsjón flugflota og viðhald, minni yfirbyggingu og sameiginlega sölu- og markaðsstarfsemi. Fjárhagslegar forsendur voru fjárþörf til að gera WOW air sjálfbært, áætlað fjárstreymi félagsins og áætlaður einskiptiskostnaður við að ná fram samlegð. „Greiningar og áreiðanleikakannanir leiddu í ljós að viðskiptin stóðust ekki þær forsendur sem gerðar voru við undirritun kaupsamningsins.“

Til stóð að leggja fyrir hluthafafund Icelandair Group að samþykkja kaupin á WOW air en eini dagskrárliður fundarins eftir að hætt var við kaupin er tillaga um heimild stjórnar félagsins til hlutafjárhækkunar. Ennfremur er fjallað um tækifæri Icelandair til innri vaxtar. Til standi að auka tíðni á flugum til allt að tíu stærri áfangastaða félagsins. Sömuleiðis er stefnt að því að bæta nýtingu á núverandi áfangastöðum. Þá sé til skoðunar að stækka leiðakerfi Icelandair á næsta ári. Þar á meðal að bæta við sumarleyfisáfangastöðum.

Tækifæri til að fjölga ferðamönnum um 350 þúsund

Fram kemur að stjórnendur Icelandair telji möguleika á að auka framboð á flugsætum um allt að 35%. Áætlað sé að flugvélum félagsins verði fjölgað um þrjár árið 2019. Mikil tækifæri séu fólgin fyrir innri vöxt þess til skemmri tíma með samræmdum flota Boeing-véla. Gert er ráð fyrir að innleiðing tveggja nýrra tengibanka á næsta ári auki möguleika á bættri nýtingu flugflotans. Þetta jafngildi framboðsaukningu 4-5 flugvéla. Mögulegt sé að auka framboð með því að leigja vélar með stuttum fyrirvara frá leigusölum.

Tækifæri sé í stöðunni til þess að semja við flugmenn um viðauka við kjarasamning sem gildi á ákveðnum vélum á nýjum mörkuðum. Sér Icelandair fram á að geta aukið fjölda ferðamanna til Íslands um 350 þúsund á árinu 2019 sé gert ráð fyrir óbreyttri samsetningu farþega. Hægt verði að ná fram umtalsverðum innri vexti í núverandi starfsemi án verulegrar fjárfestingar. Breytingar á leiðakerfi, lenging líftíma núverandi flota ásamt kaupum á nýjum vélum skapi grundvöll fyrir innri vöxt. Þá sé að auki fyrir hendi tækifæri til að breyta samsetningu þeirra farþega sem félagið flytur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK