100.000 krónur á mann í jólagjafir

AFP

Jólin eru ekki bara hátíð barnanna heldur eru þau ekki síður hátíð kaupmanna. Hver Bandaríkjamaður eyðir um hundrað þúsund krónum í jólagjafir og eru margir enn
í skuld vegna gjafakaupa fyrir jólin í fyrra. Sumar gjafir fara beint í ruslið. Milljarðar fara í óþarfagjafir.

Búist er við því að meðal-Bandaríkjamaðurinn eyði 1.250 Bandaríkjadölum, 157.000 kr., í gjafir, ferðalög og skemmtun í kringum jólahátíðina í ár. Þetta er 5% meira en í fyrra að því er fram kemur í grein cbsnews.com en þar eru tölur frá ráðgjafarfyrirtækinu PwC hafðar til hliðsjónar. Þeir sem eyða mest eru karlmenn, hátekjufólk af aldamótakynslóð og aðilar að Amazon Prime. Neytendur leggja áherslu á góð tilboð og stresslausa verslun, samkvæmt rannsókn PwC. Þeir vilja ekki eyða miklum tíma í að kaupa jólagjafir og vilja alls ekki þurfa að fara í margar búðir.

Þrátt fyrir að verslun sé að færast mikið á netið sögðust níu af tíu ætla að fara í búðir að versla fyrir jólin. Ljóst er að mikið er verslað í kringum svartan föstudag og tilboð honum tengd og hefur sala á netinu farið vaxandi. Samkvæmt forbes.com var vöxturinn 23,6% milli ára.

Í grein á cnbc.com kemur fram að samtök smásala í Bandaríkjunum búist við því að meðalneytandinn eyði rúmlega þúsund dölum, 126.000 kr., í allt frá gjöfum, jólafötum og jólamat í ár, sem sé 4,1% aukning frá í fyrra. Önnur spá, frá NerdWallet, spáir um 18% aukningu á því sem fólk eyði í jólagjafir í ár og að meðaltalið verði 776 dalir, 97.000 kr. Þetta eru niðurstöður könnunar sem gerð er árlega fyrir NerdWallet. Það sem er kannski verra er að könnunin leiddi í ljós að næstum þrír af hverjum tíu voru enn að borga skuldir vegna jólagjafakaupanna í fyrra. Meira en helmingur eyðir meira en hann ætlaði sér fyrir jólin eða hefur enga fjárhagsáætlun til hliðsjónar við jólagjafakaupin. Skuldin eftir jólavertíðina er að meðaltali 130.000 kr.

Samkvæmt yougov.com er talan yfir þá sem skulda enn fyrir jólagjöfunum í fyrra um 15% en sú tala er 19% eða nærri einn af hverjum fimm hjá aldamótakynslóðinni.

Bandaríkjamenn bjartsýnir

Síðasta jólavertíð var sú besta fyrir smásala í meira en áratug og stefnir í að þessi verði enn betri. 37% Bandaríkjamanna segja að fjármál þeirra séu í betra horfi en fyrir ári en 17% segjast standa verr, samkvæmt könnun sem The New York Times lét gera fyrir sig.
Þessi bjartsýni Bandaríkjamanna virðist tengjast því að atvinnuleysi hefur ekki verið minna í næstum hálfa öld. Neytendur eru vissulega bjartsýnni á framtíðina en áður. 41% býst við að verða á betri stað eftir ár en 14% búast við að hafa það verra. Meirihluti þátttakenda í könnuninni býst við því að bjartir tímar séu fram undan í efnahagslífinu næstu fimm ár.
Þessi bjartsýni og traust á efnahagslífinu leiðir til þess að neytendur eyða meira, sagði Diane Swonk, hagfræðingur hjá bókhaldsfyrirtækinu Grant Thornton, í samtali við The New York Times. Hún segir að eyðsla sé meira í neyslu á borð við kostnað við að fara út að borða, ferðalög og fatnað. „Fólk klæðir sig upp og fer út. Það á meiri pening til að eyða í svona hluti og ferðast meira.“

Milljarðar í óþarfa gjafir

Þrátt fyrir að eyðslan verði meiri í ár er spurning hvort gjafirnar hitti betur í mark en áður. Meira en helmingur Bandaríkjamanna fær gjafir sem hann hefur ekki áhuga á og samkvæmt finder.com fara því 13 milljarðar bandaríkjadala, rúmlega 1.600 milljarðar króna, í óþarfa gjafir á ári hverju. Af þeim geymir fólk samt sem áður tæplega þriðjung, það gefur 22% einhverjum öðrum, 14% er skilað eða skipt, fólk selur 10% þeirra og 6% fara beint í ruslið. Það er því eins gott að hugsa sig vel um við jólagjafainnkaupin.

Leitin að hinum sanna jólaanda

Joshua Becker, stofnandi vefsíðunnar becomingminimalist.com, er einn þeirra sem hafa vakið athygli á þessari miklu neyslu um jólin. Hann bendir á í pistli á foxnews.com að snemma á nítjándu öld hafi ríkar fjölskyldur haldið upp á jólin með því að gefa mat og drykk til þeirra sem hafi þarfnast þess. Þetta hafi síðan breyst upp úr miðri nítjándu öld og árið 1890 hafi börn verið farin að afhenda búðarjólasveinum óskalista sína.

Hann vill að við spólum aðeins til baka og bendir á að gott sé að eyða meira í þá sem þurfi á því að halda og minna í þá sem eigi of mikið. Í anda mínimalismans mælir hann með því að gefa heldur minna en leggja áherslu á meiri gæði og hann bendir fólki líka á að gefa eitthvað sem hægt er að borða eða upplifa; þannig hlaðist ekki óþarfa hlutir upp hjá fólki sem nú þegar eigi of mikið. Sannur jólaandi sé falinn í því að leggja áherslu á það sem í raun skipti mestu máli og hvetur hann fólk til að horfa inn á við.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK