Stefnir í gott ferðamannaár ef rétt verður haldið á spilum

Grímur segir að hans tilfinning sé sú að fjöldi ferðamanna …
Grímur segir að hans tilfinning sé sú að fjöldi ferðamanna sem hingað kom á nýliðnu ári hafi verið svipaður og á árinu 2017 og því endurspegli aðsóknin í Bláa lónið þann veruleika. Rax / Ragnar Axelsson

Grímur Sæmundsen segir að tilefni sé til að ætla að ferðaþjónustunni muni vegna vel á nýju ári. Hins vegar þurfi að halda rétt á spilunum til þess að svo megi verða. Fyrirtækin þurfi að leggja áherslu á að auka enn við góða upplifun þeirra sem hingað koma og þannig megi auka tekjur, jafnvel þótt ferðamönnum fjölgi ekki mikið.

Á nýliðnu ári voru gestir Bláa lónsins um 1,3 milljónir. Það er svipaður fjöldi og á árinu 2017. Það ár fjölgaði gestum um 16% frá fyrra ári. Í fyrra urðu því ákveðin kaflaskil þegar fjöldinn stóð í stað. Það kann að vera til marks um breyttan takt í vexti ferðaþjónustunnar. Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, segir hins vegar að ekki séu teikn á lofti um samdrátt í greininni. Nú sé raunar mikið tækifæri fólgið í því að ferðamönnum fjölgi ekki um tugi prósenta milli ára.

„Vöxturinn hefur verið gríðarlegur eins og bent hefur verið á og það hefur reynt á alla innviði. Nú þurfa fyrirtækin að hagræða og koma skikki á hlutina. Við þurfum að sjá stærri og burðugri fyrirtæki halda uppi þjónustunni. Ég hef stundum nefnt að það sé ósjálfbært að það séu yfir 80 aðilar að bjóða dagsferðir á Gullfoss og Geysi um þessar mundir. Þegar svona margir smáir aðilar eru að sinna þessari þjónustu er hætt við að hlutirnir fari úr böndunum. Þetta er einfaldlega offramboð á þjónustu.“

Grímur segir að hans tilfinning sé sú að fjöldi ferðamanna sem hingað kom á nýliðnu ári hafi verið svipaður og á árinu 2017 og því endurspegli aðsóknin í Bláa lónið þann veruleika.

„Þetta er í takt við það sem við erum að sjá í fjölda ferðamanna til landsins. Það er svipaður fjöldi sem er að sækja landið heim 2018 og ári fyrr. Vissulega er verið að tala um að vöxturinn sé fjögur til fimm prósent en þegar upp er staðið held ég að fjöldinn standi í stað.“

Spurður út í hvað valdi því að misræmi sé í tölum um fjölda þeirra sem hingað koma sem ferðamenn segir Grímur að það skýrist af því að ekki hafi tekist að halda nákvæmlega utan um komur og brottfarir til landsins og að skilgreina þær rétt.

„Við tókum t.d. eftir því að það var talsverð fjölgun Pólverja sem hingað komu á árinu en það eru sennilega að langstærstum hluta harðduglegir einstaklingar sem hingað koma vegna vinnu en ekki ferðalaga. Svo eru það farþegar sem fljúga hér í gegn og fara með sitthvoru flugfélaginu til og frá landinu. Þá þurfa þeir að fara í gegnum innritun í flugstöðinni og teljast þeir sem ferðamenn inn í landið þótt þeir staldri einungis við í flugstöðinni.“

Áherslan á tekjur en ekki fjölda

Einhver myndi halda að forsvarsmaður eins stærsta ferðaþjónustufyrirtækis landsins væri ekki í rónni þegar hann gerði upp ár þar sem gestum hefði ekki fjölgað, hvorki til landsins né gagnvart þeirri þjónustu sem hann sjálfur veitir. Grímur segir hins vegar að með því að einblína á fjöldatölur sé skakkur póll tekinn í hæðina.

„Vöxtur er góður en við viljum fyrst og fremst sjá hann í tekjum af hverjum ferðamanni. Nú þegar dregið hefur úr hinum mikla vexti getum við, bæði sem samfélag en einnig fyrirtækin sem eru að bjóða upp á þjónustuna, einbeitt okkur að því að bæta upplifun hvers og eins og um leið haft meiri tekjur af hverjum ferðamanni sem hingað kemur.“

Og þegar Grímur er inntur eftir því hvernig til hefur tekist í þeim efnum segir hann að fyrirtækið hafi náð að auka tekjur af hverjum ferðamanni svo um munar. Árið 2015 nam velta fyrirtækisins 54 milljónum evra en tveimur árum síðar, árið 2017, nam veltan 102 milljónum. Milli þessara ára fjölgaði gestum reyndar gríðarlega en bráðabirgðatölur sem Grímur vísar í gefa til kynna að tekjur fyrirtækisins hafi aukist um fimmtung á nýliðnu ári.

Sjá miðopnuviðtal við Grím Sæmundsen í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK