Hið opinbera fer á fullt í framkvæmdum

Opinber fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög kynntu í dag framkvæmdir fyrir …
Opinber fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög kynntu í dag framkvæmdir fyrir tæplega 130 milljarða sem farið verður í á þessu ári. mbl.is/​Hari

Fulltrúar tíu opinberra stofnana, opinberra fyrirtækja og sveitarfélaga kynntu í dag framkvæmdir fyrir samtals 128 milljarða króna sem gert er ráð fyrir að ráðist verði í á þessu ári. Þetta kom fram á Útboðsþingi sem Samtök iðnaðarins stóðu fyrir á Grand hóteli í dag. Meðal annars stefna bæði Reykjavíkurborg og Isavia á framkvæmdir fyrir um 20 milljarða hvort og miðað við óbreytta samgönguáætlun gæti fjárfesting Vegagerðarinnar orðið tæplega 22 milljarðar.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður samtakanna, sagði við setningu fundarins að í fyrra hefði verið árið þar sem menn hefðu verið að undirbúa framkvæmdir og nú liti út fyrir að þær færu á fullt skrið. Sagði hún að miðað við kortlagningu samtakanna fyrir tveimur árum væri mikill uppsafnaður fjárfestingavandi bæði í vegakerfi og fráveitu meðan orkufyrirtæki hefðu haldið ágætlega á spöðunum. Hins vegar væri á heildina hægt að segja að innviðir hefðu verið sveltir í 10 ár og skoðunin fyrir tveimur árum hefði sýnt fram á 370 milljarða uppsafnaða fjárfestingaþörf.

Þá sagði Guðrún að nú þegar farið væri að draga úr hagvexti væri Ísland að sigla inn í tíma þar sem gott væri fyrir hið opinbera að fara í innviðauppbyggingu og þannig byggja undir framtíðina.

„Þetta endurspeglar hvar við erum í hagsveiflunni

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, tók undir þessi orð Guðrúnar í samtali við mbl.is. Sagði hann að svo virtist sem opinberir aðilar væru að stíga með meiri krafti inn í framkvæmdir en á síðasta ári, en sem fyrr segir voru kynntar opinberar framkvæmdir fyrir 128 milljarða í dag. Í fyrra á Útboðsþingi voru hins vegar kynntar framkvæmdir fyrir um 80 milljarða og er því um 60% aukningu að ræða. „Þetta endurspeglar hvar við erum í hagsveiflunni. Það er heilt yfir að dragast saman í hagkerfinu og það myndar svigrúm fyrir hið opinbera að standa í og fjárfesta í framkvæmdum,“ segir Sigurður.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri nefndi á fundinum að borgin hefði í nokkur skipti á undanförnum misserum átt í erfiðleikum með að fá verktaka til að bjóða í verk. Það sama kom fram í orðum Óskars Arnar Jónssonar, forstöðumanns framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar. Sigurður segir að mikil fjárfesting hafi verið hjá einkageiranum undanfarin ár, meðal annars í uppbyggingu í ferðaþjónustu með hótelum og öðrum verkefnum og það hafi skapað ákveðinn skort á framkvæmdaaðilum. Nú virðist hins vegar vera sem toppnum sé náð. „Það skapar einmitt svigrúm fyrir íbúðauppbyggingu og aðra uppbyggingu á vegum hins opinbera,“ segir hann.

Sigurður tekur þó fram að ekki sé um sömu stöðu að ræða og árið 2008 og bendir hann á að þá hafi 16 þúsund launþegar starfað við mannvirkjagerð. Í dag séu þeir um 14 þúsund og enn talsvert um uppsafnaða þörf, t.d. á íbúðamarkaði og við innviði.

Samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og vegamál sitja enn á hakanum

Þrátt fyrir mikinn framkvæmdahug hjá hinu opinbera segir Sigurður að enn þurfi þó að horfa til nokkurra mála sem hafi setið á hakanum. Nefnir hann þar uppsafnaða viðhaldsþörf í vegaframkvæmdum sem nemur um 60-70 milljörðum. Samkvæmt samgönguáætlun eins og hún liggur fyrir núna er áætlað að leggja um 9 milljarða í viðhald, en það er upphæð sem dugar fyrir áætluðum árlegum viðhaldskostnaði, en ekki til að vinna á uppsöfnuðum vanda.

Segir Sigurður að líka þurfi að horfa meira á samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu. Þannig hafi íbúafjölgun síðustu fjögur ár verið talsvert umfram spár og haldi það áfram megi gera ráð fyrir enn meiri töfum í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu á komandi árum en þegar er. Segir hann þetta kalla á að enn meira sé gefið í varðandi samgönguuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu.

Þeir aðilar sem kynntu framkvæmdir í dag og umfang verkefna sem ráðast á í:

  • Reykjavíkurborg - 20,0 milljarðar króna
  • Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (önnur sveitarfélög en Reykjavík) - 16,4 milljarðar króna
  • Veitur - 8,7 milljarðar króna 
  • Landsvirkjun - 4,4 milljarðar króna
  • Landsnet - 9,2 milljarðar króna
  • Orka náttúrunnar - 4,4 milljarðar króna
  • Faxaflóahafnir - 2,7 milljarðar króna
  • Isavia - 20,5 milljarðar króna
  • Vegagerðin - 21,9 milljarðar króna 
  • Framkvæmdasýsla ríkisins - 19,7 milljarðar króna
  • Samtals - 127,9 milljarðar króna
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK