Í sumum löndum kýs fólkið að stjórnvöld fylgist með því

Ericson Chan er forstjóri Ping An Technology, eins stærsta tryggingafélags …
Ericson Chan er forstjóri Ping An Technology, eins stærsta tryggingafélags heims.

Ping An er stærsta tryggingafélag í Kína, og númer 29 á Global Fortune 500 listanum árið 2018 yfir stærstu fyrirtæki í heimi. Félagið er jafnvirði tæplega 20 þúsund milljarða íslenskra króna að markaðsvirði í kauphöllinni í Hong Kong. Forstjóri eins af 30 dótturfélögum Ping An, tækniarmsins Ping An Technology, er Hong Kong-búinn Ericson Chan, sem glímir nú við margar áhugaverðar áskoranir í sínu starfi, er snúa meðal annars að þróun í fjártækni og heilbrigðistækni.

„Ætlarðu að koma til Íslands um jólin?“ er fyrsta spurning blaðamanns til Ericson Chan, eða Eric eins og hann er kallaður, þegar hann hringir í hann til Hong Kong stuttu fyrir síðustu jól. Hann kveðst ekki hafa tök á Íslandsför að sinni, en eiginkona hans, Dóra María Baldvinsdóttir, verði á landinu. Þau hafa um árabil búið í Hong Kong ásamt sonum sínum Þór og Magnúsi.

Eric er jarðbundinn og glaðlegur náungi og gaf sér góðan tíma í samtalið við blaðamann, þrátt fyrir mikið annríki við að stýra Ping An Technology sem er mun stærra í starfsmönnum talið en nokkurt íslenskt fyrirtæki, með um 10.000 starfsmenn. Ping An-samstæðan hefur hinsvegar um 1,8 milljónir manna í vinnu, eða fimmfalda íbúatölu Íslands.

„Ég fæddist í Hong Kong á þeim tíma þegar það var enn bresk nýlenda. Ég fór svo í háskólanám til Bandaríkjanna og lauk þar BS í tölvunarfræði við háskólann í Wisconsin í Madison árið 1990 og síðar MBA frá Edgewood College í Madison. Að námi loknu vann ég sem tæknistjóri á bandarísku sjúkrahúsi. Að því loknu, eða í kringum 1998, fór ég aftur til Asíu og hef unnið í fjártækni allar götur síðan,“ segir Eric.

Snjallborgarlausnir

Við spólum nú hratt fram í tímann, eða til vorsins 2016 þegar Eric hóf störf hjá Ping An Technology, en tíu ár þar á undan sinnti hann ýmsum hlutverkum á tæknisviði Standard Chartered-bankans, sem einnig er risafyrirtæki og eitt af 100 stærstu fyrirtækjunum í Kauphöllinni í Lundúnum. „Í dag má segja að ég sé í bland að sinna fjártækni, heilbrigðistækni og snjallborgarlausnum, en einnig snerti ég á tækni sem tengist bílum og samgöngum og snjallheimilum.“

Hann segir að Ping An Technology sinni tækniþjónustu fyrir önnur félög í Ping An-samstæðunni, auk þess að þróa eigin hugbúnað og selja aðgang að honum á almennum markaði. „Í samanburði við gömul og stöndug fjármálafyrirtæki eins og Citibank, sem er rúmlega 200 ára gamalt, er Ping An mjög ungt fyrirtæki, aðeins 30 ára gamalt. Árið 2008 náði Ping An fyrst inn á Global Fortune 500 listann, og er í dag númer 29 á þeim lista. Það er til marks um stærð fyrirtækisins á alþjóðavísu. Til samanburðar þá eru HSBC-bankinn og Citibank númer 70 og 96 á þeim lista, kínverski netverslunarrisinn Alibaba er númer 300 og Apple-tæknifyrirtækið bandaríska er númer 11. Af þessu má sjá að við erum risastór, hvernig sem á það er litið.“

Hann segir að um 400 bankar og 3.000 spítalar séu í viðskiptum við Ping An Technology, og einstakir notendur að kerfum félagsins séu um 500 milljónir. „Við erum samt tiltölulega nýlega byrjuð að veita þjónustu utan samstæðunnar, eða fyrir um tveimur árum. Nú erum við komin með góðan hóp viðskiptavina, sem fer ört vaxandi.“

Sjá viðtalið við Ericson Chan í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag.

Ericson Chan og Dóra María Baldvinsdóttir, ásamt sonum.
Ericson Chan og Dóra María Baldvinsdóttir, ásamt sonum.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK